21. mars 2023

43 þúsund umframdauðsföll í Sómalíu rakin til hamfaraþurrka

Helmingur hinna látnu börn undir fimm ára aldri.

Hawa Abdulahi Abdilnur bíður ásamt móður sinni á næringarmiðstöð UNICEF í Dollow í Sómalíu.

Áætlað er að 43 þúsund umframdauðsföll hafi orðið á síðasta ári í Sómalíu sem reka má til þurrka í landinu, samanborið við fyrri þurrka árin 2017 og 2018. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var af heilbrigðisyfirvöldum í Sómalíu, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að helmingur þessara umframdauðsfalla hafi verið meðal barna undir fimm ára aldri.

Í fyrsta skipti hefur verið útbúið spálíkan svo hægt verði að sjá fyrir, bregðast við og afstýra dauðsföllum vegna þurrka. Spá fyrir tímabilið janúar til júní 2023 áætlar að 135 einstaklingar gætu látið lífið á hverjum degi vegna þurrkanna eða á bilinu 18.100 til 34.200 . Þó tekist hafi að afstýra hungursneyð í landinu þá gera þessar áætlanir ráð fyrir að núverandi neyðarástandi sé hvergi nærri lokið og sé þegar orðið mun alvarlegra en þurrkarnir 2017 – 2018.

Í Sómalíu hafa fimm samfelld rigningatímabil brugðist og er það lengsta samfellda þurrkatímabilið í manna minnum. Fimm milljónir íbúa búa við matarskort og nærri tvær milljónir barna eru í vannæringarhættu.

„Þessar niðurstöður eru ógnvænlegar og sýna skelfilegar afleiðingar ástandsins á börn og fjölskyldur þeirra,“ segir Wafaa Saeed, fulltrúi UNICEF í Sómalíu. „Við erum sorgmædd yfir öllum þessum dauðsföllum en talan hefði verið enn hærri ef ekki væri fyrir þá auknu mannúðaraðstoð sem hægt var að veita á þessum svæðum. Við verðum að halda áfram að bjarga lífum með því að koma í veg fyrir og meðhöndla vannæringu, tryggja aðgengi að hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu, halda áfram að bólusetja börn fyrir banvænum sjúkdómum og veita þessum börnum nauðsynlega vernd og aðstoð.“

Nánar um skýrsluna hér á vefsíðu UNICEF.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn