10. október 2024

370 milljónir stúlkna í heiminum beittar kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur

UNICEF birtir nýja úttekt sem varpar ljósi á sláandi umfang kynferðisofbeldis gegn börnum í aðdraganda Alþjóðadags stúlkubarna 11. október.

Rúmlega 370 milljónir stúlkna og kvenna í heiminum í dag, eða ein af hverjum átta, hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi fyrir átján ára aldur og einn af hverjum ellefu drengjum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í dag í aðdraganda Alþjóðadags stúlkubarna á morgun, 11. október. 

Þetta er fyrsta alþjóðlega og svæðisbundna mat sinnar tegundar á kynferðisofbeldi gegn börnum og varpar ljósi á umfang þessara brota á heimsvísu, sérstaklega gegn unglingsstúlkum. Þegar kynferðisofbeldi án snertingar, þ.e. í orðum eða á netinu eru tekið með í reikninginn segir í skýrslunni að fjöldi stúlkna og kvenna sem hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi nemi 650 milljónum, eða ein af hverjum fimm.

Niðurstöðurnar byggja á gögnum frá 120 ríkjum úr könnunum sem gerðar voru á árunum 2010-2020 og vegna ákveðinna tölfræðilegra takmarkana í gögnunum segi ekki endilega alla söguna þar sem m.a. ekki öll kynferðisbrot eru tilkynnt.

Þrátt fyrir að stúlkur og konur beri þungan af þessum glæpum og upplifun þeirra í einhverjum tilfellum betur skrásett þá verða drengir einnig fyrir kynferðisofbeldi. Í matinu er áætlað að 240-310 milljónir drengja og manna, eða einn af hverjum ellefu, hafi verið nauðgað eða beittir kynferðisofbeldi í æsku. Í tilkynningu frá UNICEF segir að skortur á gögnum, sérstaklega hvað varðar drengi, sýni að aukinnar fjárfestingar sé þörf í gagnasöfnun og rannsóknum til að ná utan um umfang þessara brota gegn börnum.

Kynferðisofbeldi er útbreiddur vandi í ríkjum heims hvert sem litið er. Hvort heldur sem er landfræðilega, menningarlega eða efnahagslega. Og samkvæmt gögnunum þá eru flest beitt kynferðisofbeldi á táningsaldri þar sem mikil aukning verður á aldursbilinu 14-17 ára. Rannsóknir sýna að börn sem beitt eru kynferðisofbeldi eru líklegri til að vera beitt því oftar en einu sinni.

 

Verst er staða stúlkna og kvenna í Afríku sunnan Sahara þar sem fjöldi þolenda nemur 79 milljónum (22%).
75 milljónir í austur- og suðaustur Asíu (8%).

73 milljónir í mið- og suður- Asíu (9%).

68 milljónir í Evrópu og Norður-Ameríku (14%).

45 milljónir í Rómönsku Ameríku og Karíbahafi (18%).

6 milljónir í Eyjaálfu (34%).

 

Afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku eru þekktar en áfallið getur fylgt einstaklingum alla ævi og gert þau líklegri til að misnota áfengi og fíkniefni, einangra sig félagslega, glíma við andleg og geðræn vankvæði og mæta hindrunum þegar kemur að því að byggja upp heilbrigði sambönd í framtíðinni.

Nánar má lesa um niðurstöðurnar hér.

Fleiri
fréttir

14. október 2024

„Börn hefja engin stríð“
Lesa meira

10. október 2024

370 milljónir stúlkna í heiminum beittar kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur
Lesa meira

08. október 2024

UNICEF afhent sjúkragögn handa tveimur milljónum í Líbanon
Lesa meira
Fara í fréttasafn