01. september 2022

Þrjár milljónir barna í neyð vegna hamfaraflóða í Pakistan

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur með stjórnvöldum og samstarfsaðilum við að bregðast við hamförunum

Börn í LAsbela í Pakistan sækja hreint drykkjarvatn sem UNICEF og samstarfsaðilar hafa útvegað.

Rúmlega þrjár milljónir barna þurfa mannúðaraðstoð og eru í aukinni hættu vegna vatnsborinna sjúkdóma, vannæringar og drukknunar vegna hamfaraflóða í Pakistan. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur með stjórnvöldum og samstarfsaðilum við að bregðast við nauðsynlegum þörfum barna og fjölskyldna þeirra á hamfarasvæðum.

33 milljónir íbúa Pakistan, þar af 16 milljónir barna, hafa orðið fyrir áhrifum gríðarþungra monsúnrigninga í ár sem fylgt hafa hamfaraflóð og skriðuföll. Rúmlega 1.100 manns, þar af yfir 350 börn, hafa látið lífið og vel á annað þúsund manns slasast. Hátt í 300 þúsund heimili eru gjöreyðilögð og hátt í 700 þúsund heimili hafa skemmst. Stórfljót hafa flætt yfir bakka sína, stíflur sömuleiðis og heimili, sveitabæir, innviðir á borð við vegi, brýr, skóla, sjúkrahús og heilsugæslur hafa orðið fyrir skemmdum.

Haft skelfilegar afleiðingar fyrir börn og fjölskyldur

„Þegar hörmungar sem þessar gerast eru það alltaf börnin sem eru verða verst úti,“ segir Abdullah Fadil, fulltrúi UNICEF í Pakistan. „Þessi hamfaraflóð hafa haft skelfilegar afleiðingar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. UNICEF vinnur náið með stjórnvöldum og samstarfsaðilum til að tryggja að börn fái þann nauðsynlega stuðning og hjálp sem þau þurfa, eins fljótt og auðið er.“

Til að útskýra hversu mikil rigning hefur fylgt monsúntímabilinu nú þá er hún þrefalt meiri en 30 ára meðaltal á landsvísu og rúmlega fimmfalt yfir 30 ára meðaltali í ákveðnum héruðum. Líkt og greint hefur verið frá í fréttum hafa stjórnvöld í Pakistan lýst yfir neyðarástandi.

UNICEF er á vettvangi
Fjáröflunarákall UNICEF, sem hluti af neyðarákalli Sameinuðu þjóðanna vegna ástandsins, hljóðar upp á 37 milljónir dala til að ná til barna og fjölskyldna þeirra á næstu mánuðum með sjúkragögn, nauðsynleg lyf, bóluefni, mæðraverndarpakka, hreint og öruggt drykkjarvatn, hreinlætisbúnað, næringarfæði auk þess sem komið verður upp tímabundnum skólastofum og námsgögn útveguð.

Samkvæmt loftlagsáhættumati UNICEF (Children‘s Climate Risk Index (CCRI)), er Pakistan viðkvæmt svæði þar sem börn eru álitin í gríðarmikilli áhættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Pakistan er í 14. sæti af 163 löndum á áhættumatslista stofnunarinnar.  

Stuðningur Heimsforeldra skiptir sköpum í veita UNICEF svigrúm til að bregðast skjótt við neyðarástandi sem þessu um allan heim. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að koma í Heimsforeldrahópinn hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn