05. desember 2024

213 milljónir barna þurfa mannúðaraðstoð á næsta ári 

UNICEF birtir aðgerðaáætlun sína í neyðaraðstoð fyrir næsta ár – Sláandi tölur segir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi – Stuðningur þinn aldrei verið mikilvægari 

Börn á Gaza. © UNICEF/UNI668422/El Baba

„Þessi áætlun sýnir að áframhaldandi stuðningur við mannúðar- og kjarnastarfsemi UNICEF er nauðsynlegur fyrir allt okkar starf í þágu barna um allan heim. Gert er ráð fyrir að neyð barna verði mikil á komandi ári og þá er dýrmætt til þess að hugsa hversu mikill stuðningur almennings og stjórnvalda hér á landi hefur ávallt verið,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

Í dag birti UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, aðgerðaáætlun sína í mannúðarmálum (e. Humanitarian Action for Children) fyrir árið 2025 auk áætlaðrar fjárþarfar til þeirra stóru verkefna sem stofnunin stendur frammi fyrir á næsta ári.  

Þar kemur fram að UNICEF stefnir á að ná til 109 milljóna barna í neyðaraðstæðum í 146 löndum um allan heim á næsta ári og muni þurfa 9,9 milljarða Bandaríkjadala til að fjármagna þau verkefni.  

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna er sem kunnugt er að langstærstum hluta fjármögnuð af einstaklingum og fyrirtækjum um allan heim og segir í tilkynningu UNICEF að stuðningur styrktaraðila sé gríðarlega mikilvægur stofnuninni svo hægt sé að tryggja skjót, skilvirk og fullnægjandi viðbrögð þegar neyðarástand skapast. Hvort heldur sem er vegna stríðs og náttúruhamfara.  

Sláandi tölur

„Umfang þeirrar mannúðaðstoðar sem börn heimisins þurfa á að halda í heiminum í dag er í sögulegu hámarki, og fleiri börn þjást vegna þessa á hverjum degi,“ segir Birna um niðurstöður mannúðarákalls UNICEF.   

„Þarna kemur fram að þegar litið er til ársins 2025 áætlum við að 213 milljónir barna í 146 löndum og landsvæðum muni þurfa á mannnúðaraðstoð að halda á árinu. Þetta eru auðvitað sláandi háar tölur. Tilskipun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, kveður á um að ná til allra þessara barna með nauðsynlega þjónustu og hjálpargögn þegar þau þurfa á að halda sem og að tryggja að réttindi þeirra séu virt og viðhaldið. Þetta hefur verið leiðarljósið í allri okkar vinnu síðastliðin 78 ár.“ 

Markmið UNICEF í neyðaraðstoð á árinu 2025 eru meðal annarra: 

  • Veita 56,9 milljónum barna og kvenna grunnheilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum sem UNICEF styður við bakið á. 
  • Skima 34 milljónir barna á aldrinum 6-59 mánaða fyrir alvarlegri vannæringu. 
  • Veita 20,6 milljónum barna, ungmenna og forráðamanna aðgengi að samfélagslegri geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegum stuðningi.   
  • Veit 11,1 milljón kvenna, stúlkna og drengja aðgengi að forvörnum og viðbragðsþjónustu við kynbundnu ofbeldi.  
  • Veita 24 milljónum barna aðgengi að bæði formlegu og óformlegu námi við neyðaraðstæður.  
  • Veita 55,3 milljónum einstaklinga aðgengi að nægu hreinu vatni.    

Fjárþörfin til neyðarverkefna UNICEF á næsta ári verður mest í Afganistan, Súdan, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Palestínu og Líbanon. 

 

Stuðningur þinn skiptir máli: Árangur sem náðst hefur það sem af er árinu 2024 er m.a.: 

  • 26,4 milljónir barna og kvenna hafa fengið aðgengi að heilbrigðisþjónustu 
  • 12,2 milljónir barna á aldrinum 6-59 ára hafa verið skimuð fyrir alvarlegri vannæringu. 
  • 17,4 milljónir fengu aðgengi að nægu hreinu vatni til neyslu og heimilisnota.  
  • 9,7 milljónir  barna fengu aðgengi að formlegri og óformlegri menntun og námi. 
  • 12,6 milljónir barna, ungmenna og forráðamanna fengu aðgengi að samfélagslegri geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegum stuðningi.  

Skjaldborg um réttindi allra barna 

„Sá árangur sem næst á hverju ári í þágu barna sýnir hverju við getum áorkað í sameiningu og að áætlanir sem þessar til að meta þörfina fyrir mannúðaraðstoð í heiminum eru ekki úr lausu lofti gripnar. Með því að tryggja börnum og fjölskyldum þeirra grundvallarmannúðaðstoð getum við skapað betri heim, slegið upp skjaldborg um réttindi allra barna svo þau geti þroskast og dafnað,“ segir Birna að lokum.   

Stuðningur þinn við starfsemi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, skiptir máli. Þegar þú gerist Heimsforeldri styður þú við starf UNICEF í þágu barna í yfir 190 löndum og landsvæðum um allan heim. Með mánaðarlegu framlagi Heimsforeldra getur þú lagt þitt af mörkum til að skapa betri heim fyrir öll börn.   

Búðu til pláss í hjartanu þínu- fyrir öll börn. Skráðu þig sem Heimsforeldri UNICEF í dag.  

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn