04. september 2024

189 þúsund börn bólusett á Gaza: Vilji er allt sem þarf

Í fyrsta áfanga bólusetningarátaks UNICEF, UNRWA og WHO á Gaza tókst að ná til og bólusetja rúmlega 189 þúsund börn undir tíu ára aldri við lömunarveiki.

Jákvæðar fréttir frá Gaza. Fjölskyldur fjölmenntu með börn til að fá bólusetningu gegn mænusótt í vikunni. Hér er barna að fá bólusetningu í Deir al-Balah. Mynd/UNICEF

Í fyrsta áfanga bólusetningarátaks UNICEF, UNRWA og WHO á Gaza tókst að ná til og bólusetja rúmlega 189 þúsund börn undir tíu ára aldri við lömunarveiki. Í skjóli hins svæðisbundna mannúðarhlés sem samþykkt hafði verið voru 513 teymi send á miðsvæði Gaza-strandarinnar frá 1.–3. september síðastliðinn og var árangurinn af þessum fyrsta áfanga betri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. 

Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, segir þessa þrjá sólarhringa hafa verið sjaldséðan ljósan punkt í tilveru íbúa sem í tæpt ár hefur verið lituð af svo miklum hörmungum.

„Í tæpt ár hafa fjölskyldur upplifað hrylling sem engin manneskja, og hvað þá börn, ættu nokkru sinni að þurfa að kynnast. En í vikunni sáum við einnig hvað hægt er að afreka, þegar vilji er til,“ segir Khodr í yfirlýsingu um aðgerðirnar. Hún bendir á að í aldarfjórðung hafi verið búið að útrýma lömunarveiki á Gaza en í rústum eyðileggingarinnar nú hafi þessi ósýnilegi skaðvaldur látið á sér kræla á ný. Að minnsta kosti eitt tilfelli lömunarveiki hefur verið staðfest á Gaza, hjá 11 mánaða gömlu barni.

Enn hætta á útbreiðslu

„Enn er mikil hætta á að lömunarveiki breiðist út á Gaza og víðar, sérstaklega í nágrannalöndum. Í þessari viku fengum við tækifæri til bregðast við til að stöðva það. UNICEF, UNRWA og WHO vinna þrotlaust að því markmiði að bólusetja 640 þúsund börn undir 10 ára aldri í þessum aðgerðum,“ segir Khodr.

„Þrátt fyrir linnulausar árásir á skóla og svæði þar sem börn á flótta hafa leitað skjóls, ítrekaðar rýmingar, tilflutning og flótta fjölskyldna, vannæringu einstaklinga sem jaðrað hefur verið hungursneyð þá lögðu fjölskyldur það á sig að fjölmenna á bólusetningarstaðina. Þau vita að það má engan tíma missa þegar kemur að því að vernda börnin,“ segir Khodr.

Vilji er allt sem þarf

„Ekkert af þessu hefði verið mögulegt án þessa svæðisbundna mannúðarhlés sem tryggði heilbrigðisstarfsfólki og börnum öruggt aðgengi að þessari nauðsynlegu þjónustu. Þetta hlé var virt í þessum fyrsta áfanga sem gerði þetta mögulegt. Og það verður að halda áfram þannig. Án hlés til að klára síðustu tvo áfanga verkefnisins nú munum við bregðast í því hlutverki okkar að vernda börn á Gaza og um leið setja önnur börn í heimshlutanum í hættu. Við verðum að ná til minnst 90% bólusetningarhlutfalli til að stöðva útbreiðslu.“

„Það var fjarri því auðvelt að skipuleggja og undirbúa þetta metnaðarfulla verkefni en það sýnir að það er hægt að hleypa mannúðaraðstoð og hjálpargögnum inn á Gaza-ströndina, hætta árásum og vernda almenning. Vilji er allt sem þarf.“
„Börn hafa þjáðst nóg. Of mikið er undir og við megum ekki bregðast þeim.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn