15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri

Kastljós umheimsins beinst frá neyðinni sem aldrei hefur verið meiri á sama tíma og fjármagn til mannúðarstarfs hefur aldrei verið minna

Frá fræðslu- og bólusetningarátaki UNICEF, WHO og heilbrigðisráðuneytis Sýrlands í Al-Hasakeh í fyrra. Mynd/UNICEF

Í dag eru þrettán ár síðan stríð í Sýrlandi braust út og aldrei fyrr hafa fleiri börn þurft á mannúðaraðstoð að halda, eða nærri 7,5 milljónir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, í dag í tilefni þessara hrollvekjandi tímamóta.

Á síðasta ári veitti UNICEF 15,8 milljónum einstaklinga, þar af 10 milljónum barna, nauðsynlega þjónustu og hjálpargögn víðs vegar um Sýrland. Af þessum heildarfjölda þá höfðu 5,6 milljónir íbúa fengið neyðaraðstoð vegna jarðskjálftanna stóru og eyðileggingar þeirra í fyrra. 3,1 milljón íbúa fengu næringarþjónustu og hundruð þúsunda barna fengu sálfélagslegan stuðning hjá UNICEF og samstarfsaðilum.

Kastljós umheimsins beinst frá Sýrlandi

Eftir því sem átökin hafa dregist á langinn hefur neyð barna og íbúa Sýrlands hætt að birtast í fyrirsögnum heimspressunnar og kastljós umheimsins beinst annað. UNICEF hefur hins vegar staðið vaktina í þágu barna í Sýrlandi sleitulaust frá upphafi og gott betur enda neyðin aðeins aukist.

Rúmlega 650 þúsund börn undir fimm ára aldri glíma við viðvarandi vannæringu, sem er aukning um 150 þúsund börn síðan 2019, með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á vöxt og þroska barna. Samkvæmt nýlegri könnun meðal íbúa í norðurhluta Sýrlands viðurkenna 34% stúlkna og 31% drengja að þau glími við sálræn vandkvæði vegna ástandsins. Ástandið var enn verra og hlutfallið enn hærra á jarðskjálftasvæðunum þar 83% barna sýndu alvarleg einkenni sálræns áfalls.

Heil kynslóð alist upp við átök, flótta og skort

„Harmi þrunginn raunveruleikinn í dag, og næstu daga, er að mörg börn munu sjálf verða 13 ára og komast á táningsaldur. Allt þeirra líf hafa þau ekki þekkt annað en átök, flótta og skort,“ segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfa þessi börn tækifæri. Þau þurfa friðsamlega langtímalausn á þessu skelfingarástandi, en við getum ekki bara setið hjá og beðið eftir því að það gerist. Þangað til er lífsnauðsynlegt að tryggja að börn og fjölskyldur hafi ekki bara aðgengi að grunnþjónustu, heldur einnig að við gerum börn reiðubúin til að byggja upp framtíð sína.“

Átök sem blossað hafa upp síðasta hálfa árið víða í Sýrlandi eru meðal þeirra verstu sem sést hafa í fjögur ár. Rúmlega 13 milljónir íbúa Sýrlands, um helmingur íbúa Sýrlands fyrir stríð, er ýmist á vergangi innanlands eða á flótta utan landamæranna án nokkurs möguleika á að snúa aftur heim.

Áframhaldandi stuðningu lífsnauðsynlegur

Rúmlega tveir þriðju hlutar íbúa þurfa mannúðaraðstoð á sama tíma og fjármagn til mannúðarstarfs hefur aldrei verið minna, bæði innan Sýrlands og til nágrannaríkja. Nær helmingur þeirra 5,5 milljóna barna á skólaaldri (5-17 ára) geta ekki stundað nám og eru svipt rétti sínum til menntunar.

„Heil kynslóð barna í Sýrlandi hefur þegar mátt greiða óbærilegt gjald vegna þessa stríðs. Áframhaldandi stuðningur alþjóðasamfélagsins er nauðsynlegur til að reisa við innviði svo veita megi grunnþjónustu eins og menntun, hreint vatn, hreinlætisþjónustu, næringu og barnavernd. Svo hægt sé að tryggja að ekkert barn í Sýrlandi verði skilið eftir,“ segir Khodr.

Svona styður þú starf UNICEF í þágu barna í Sýrlandi
Þegar þú ert Heimsforeldri UNICEF styður þú við starf Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í ríkjum eins og Sýrlandi. Svæðum sem glímt hafa við langvarandi mannúðarkrísu og kastljós umheimsins hefur beinst frá. Sem Heimsforeldri UNICEF myndar þú öryggisnet fyrir öll börn, hvar sem þau eru í heiminum, svo hægt sé að tryggja að ekkert barn í Sýrlandi, né annars staðar, verði skilið eftir. Til að gerast Heimsforeldri UNICEF og styðja Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna með mánaðarlegum greiðslum smelltu hér.

Frá upphafi stríðsins í Sýrlandi fyrir 13 árum hefur UNICEF á Íslandi staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börn þar í landi og nú síðast vegna eftirmála jarðskjálftanna stóru í fyrra. Þú getur nálgast upplýsingar um hvernig þú styður neyðarsöfnunina með því að smella hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn