30. apríl 2020

Greta Thunberg styrkir UNICEF í baráttunni við kórónaveiruna

Umhverfisbaráttustúlkan Greta Thunberg ýtti í dag úr vör barnaréttindaherferð ásamt dönsku félagasamtökunum Human Act til að styðja aðgerðir UNICEF í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn. Vinnu sem miðar að því að vernda börn fyrir beinum og óbeinum afleiðingum faraldursins.

30. apríl 2020 Umhverfisbaráttustúlkan Greta Thunberg ýtti í dag úr vör barnaréttindaherferð ásamt dönsku félagasamtökunum Human Act til að styðja aðgerðir UNICEF í tengslum við COVID-19 heimsfaraldurinn. Vinnu sem miðar að því að vernda börn fyrir beinum og óbeinum afleiðingum faraldursins.

„Líkt og hamfarahlýnun þá er heimsfaraldur kórónaveirunnar krísa fyrir börn og réttindi þeirra,“ segir Greta Thunberg í tilkynningu. „Faraldurinn mun hafa áhrif á öll börn, núna og til lengri tíma en viðkvæmustu hóparnir munu finna mest fyrir honum. Ég biðla til allra að stíga nú fram og ganga til liðs við mig til að styðja nauðsynlegt starf UNICEF við að bjarga lífi barna, vernda heilsu þeirra og mennta.“

Herferð þessi hefst með framlagi Human Act og sjóðs Gretu, Greta Thunberg Foundation, til UNICEF að fjárhæð 200 þúsund Bandaríkjadala, eða sem nemur 29,4 milljóna íslenskra króna. Greta var nýverið verðlaunuð af Human Act fyrir baráttu sína í loftlagsmálum. Veittu samtökin að því tilefni 100 þúsund dölum í sjóð Gretu og mun sú fjárhæð nú renna til UNICEF ásamt öðru eins framlagi frá Human Act.

Ágóði herferðarinnar fer rakleiðis í neyðarstarfsemi UNICEF vegna COVID-19, sem meðal annars felur í sér að útvega sápu, grímur, hanska, hreinlætispakka, hlífðarfatnað, upplýsingagjöf og stuðning við heilbrigðiskerfi um allan heim.

Fyrr í þessum mánuði kom fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að börn væri í mestri hætti að verða undir í heimsfaraldri COVID-19. Því jafnvel þótt börn hafi blessunarlega sloppið vel frá beinum afleiðingum veirunnar, hvað veikindi og dauðsföll varðar, þá er faraldurinn að hafa mikil áhrif og varanlegar afleiðingar á velferð þeirra.

„Heimsfaraldur COVID-19 er ein umfangsmesta og stærsta barátta heimsbyggðarinnar í nokkrar kynslóðir,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Börn og ungt fólk eru meðal þeirra sem afleiðingar faraldursins koma hvað verst niður á. Ekkert er því eðlilegra en að vilja gera eitthvað í því. Greta Thunberg hefur sýnt og sannað með baráttu sinni í loftlagsmálum og fyrir hagsmunum barna um allan heim að ungt fólk er meira en reiðubúið að taka afstöðu og fara fyrir breytingum í heiminum. UNICEF er í skýjunum með að Greta og stuðningsfólk hennar hafi ekki aðeins ákveðið að taka slaginn gegn þessum heimsfaraldri, heldur ákveðið að gera það í samvinnu við UNICEF.“

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn