27. mars 2020

Birna Þórarinsdóttir nýr framkvæmdastjóri UNICEF

„Ég er þakklát fyrir að vera treyst fyrir hinum krefjandi verkefnum framundan,“ segir Birna.

27. mars 2020

Stjórn UNICEF á Íslandi hefur ráðið Birnu Þórarinsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra félagsins.

„Stjórn UNICEF lagði áherslu á fag­­legt og vandað ráðn­ing­­ar­­ferli. Sérstök valnefnd á vegum stjórnar naut lið­sinnis ráð­gjafa Capacent. Alls sóttu 81 um starfið og margir í þeim hópi voru ríkir af hæfileikum og reynslu. Endanleg ákvörðun var loks tekin sam­hljóða á fundi stjórnar síðastliðinn mánudag og við erum afskaplega ánægð með niðurstöðuna. Birna býr að reynslu, menntun og hæfileikum sem gera hana kjörna í starfið,” segir Kjartan Örn Ólafsson, stjórnarformaður UNICEF.

Birna er stjórnmálafræðingur að mennt, með meistaragráðu í alþjóðlegum öryggismálum frá Georgetown-háskóla og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu og fagþekkingu á starfi Sameinuðu þjóðanna. Birna hefur starfað sem framkvæmdastýra landsnefndar UN Women (þá UNIFEM), yfirmaður verkefnaskrifstofu UN Women í Serbíu og Svartfjallalandi og framkvæmdastýra Evrópustofu. Hún hefur unnið sem ráðgjafi fyrir alþjóðastofnanir og utanríkisráðuneytið og kennt öryggismál og starfsemi alþjóðastofnana á háskólastigi. Frá árinu 2016 hefur Birna starfað sem framkvæmdastjóri Viðreisnar.

„Ég er þakklát fyrir að vera treyst fyrir hinum krefjandi verkefnum framundan,“ segir Birna. „Starfsemi UNICEF á Íslandi skiptir gríðarmiklu máli, bæði fyrir réttindi barna á Íslandi og hag og heilsu milljóna barna um allan heim, þar sem gjafir heimsforeldra og annarra vildarvina UNICEF skipta sköpum. Nú á tímum COVID-19 eru verkefni UNICEF í þágu heilsu og réttinda barna á heimsins hættulegustu svæðum brýnni en nokkru sinni fyrr. Ég hlakka til að takast á við áskoranirnar framundan með því frábæra teymi sem starfar hjá UNICEF.“

Birna tekur við starfinu af Bergsteini Jónssyni sem hefur starfað hjá UNICEF í fjórtán ár og gegnt starfi framkvæmdastjóra síðastliðin sex ár.

„Undanfarin ár hafa einkennst af markvissri og árangursríkri uppbyggingu samtakanna. Stjórn og starfsfólk UNICEF á Íslandi þakkar Bergsteini fyrir að leiða það góða starf og býður um leið Birnu hjartanlega velkomna til starfa,” segir Kjartan Örn.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn