27. febrúar 2019

Akureyri tekur við merki barnvænna sveitarfélaga

Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF afhenti í vikunni Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri, Gunnborgu Petru Jónsdóttur og Þuru Björgvinsdóttur fulltrúum ungmennaráðs Akureyrar formlega merki barnvænna sveitarfélaga UNICEF.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, afhenti í vikunni Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri, Gunnborgu Petru Jónsdóttur og Þuru Björgvinsdóttur fulltrúum ungmennaráðs Akureyrar formlega merki barnvænna sveitarfélaga UNICEF á Íslandi. Fyrr á árinu staðfesti bæjarstjórn Akureyrar aðgerðaráætlun fyrir innleiðingu Barnasáttmálans sem unnin var í samstarfi við börnin í bænum. Í áætluninni var m.a. ákveðið að halda ungmennaþing á hverju ári, fela ungmennaráðinu stærra hlutverk í ákvörðunum bæjarstjórnar og gera úttekt á geðheilbrigðismálum barna. Áætlunin nær til næstu tveggja ára.

Merki verkefnisins er viðurkenning til sveitarfélagsins fyrir alla þá vinnu sem starfsmenn þess og ungmennaráð hafa lagt á sig síðustu ár við undirbúning aðgerðaáætlunarinnar. UNICEF kemur til með að taka vinnuna við aðgerðaáætlunina út eftir tvö ár og í kjölfarið á sveitarfélagið kost á að hljóta viðurkenningu sem fyrsta barnvæna sveitarfélag UNICEF á Íslandi

Hvað er barnvænt sveitarfélag?

Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Akureyrarbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að taka þátt í verkefninu. Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem barnvæn sveitarfélög frá UNICEF á Íslandi.

Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur hans gangi sem rauður þráður í gegnum þjónustu þess. Líkja má innleiðingunni við að starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins setji upp „barnaréttindagleraugu“ og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Barnasáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna. Ferlið við að gerast barnvænt sveitarfélag krefst pólitískrar skuldbindingar, sem er grundvöllurinn fyrir innleiðingu Barnasáttmálans í sveitarfélaginu, ásamt samræmdum aðgerðum þvert á öll svið sveitarfélagsins.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn