„Niðurskurður á fjárframlögum fjölmargra ríkja til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu mun takmarka getu UNICEF til að ná til milljóna barna í brýnni neyð,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu í dag.
„Þessi niðurskurður ríkja kemur í kjölfar tveggja ára tímabils þar sem framlög til þróunaraðstoðar hafa dregist saman á tímum fordæmalausrar þarfar fyrir slíka aðstoð. Milljónir barna búa nú við stríð og afleiðingar þess, þurfa á bólusetningum gegn banvænum sjúkdómum að halda, menntun og velferð.“
„Á tímum þegar þörfin er langt umfram fjárveitingar hefur UNICEF í hvívetna haft skilvirkni og nýsköpun að leiðarljósi í verkefnum sínum og hvert framlag til stofnunarinnar nýtt til hins ýtrasta til að ná til barna í neyð. En það er ekki hægt að orða það öðruvísi, þessi niðurskurður nú skapar fjársvelti sem mun ógna lífi og velferð milljóna barna.“
„UNICEF er að öllu leyti fjármagnað af frjálsum framlögum ríkisstjórna, einkageirans og einstaklinga. Þessi stuðningur hefur í gegnum tíðina bjargað lífi milljóna barna, stöðvað útbreiðslu banvænna smitsjúkdóma og aðstoðað við að milda áhrif og áhættu á tímum óstöðugleika og ofbeldis.“
„Með samstarfsaðilum okkar höfum við náð sögulegum árangri. Frá árinu 2000 hefur dánartíðni barna undir 5 ára aldri dregist saman um 50%. Milljónir barna eru á lífi í dag þökk sé þeirri vinnu. Milljónir til viðbótar hafa hlotið vernd til að öðlast bætta heilsu og bjartari framtíð.“
„UNICEF biðlar til allra styrktaraðila að halda áfram að fjármagna lífsnauðsynlega aðstoð fyrir börn heimsins. Við megum ekki bregðast þeim núna,“ segir Catherine Russell að lokum.
Þess ber að geta að á sama tíma og fjölmargar þjóðir hafa dregið saman í framlögum sínum til þróunarsamvinnu á umliðnum árum þá hefur UNICEF á Íslandi fagnað því að utanríkisráðuneytið hér á landi hafi m.a. hækkað kjarnaframlög sín til UNICEF og farið þannig fram með góðu fordæmi.