19. maí 2023

Vannæring barna í Malaví: Árangur síðustu ára í hættu

UNICEF varar við að ríflega hálf milljón barna eigi á hættu að þjást af vannæringu í ár.

Þetta er hin eins árs gamla Hanna Mukoni sem hér er skimuð fyrir vannæringu í færanlegri heilsugæslu UNICEF í Matiya.

Að minnsta kosti 573 þúsund börn undir fimm ára aldri eiga á hættu að þjást af vannæringu í Malaví samkvæmt nýrri tilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þar er varað við því að árangur liðinna ára í baráttunni gegn langvarandi vannæringu barna þar í landi sé nú í hættu. Glíman við fjölþættan vanda matvælaskorts, síversnandi loftlagshamfara, útbreiðslu sjúkdóma, efnahagslegan óstöðugleika og fjármögnunarvanda félagslega kerfisins í landinu eru sagðar helsta ógnin við velferð barna. 

Íbúar Malaví eru enn að takast á við afleiðingar hvirfilbyljarins Freddy sem gekk yfir í mars síðastliðnum og 659 þúsund manns eru nú á vergangi í landinu. Þar af fjöldamörg börn. Kólerufaraldur í landinu hefur nú þegar kostað tæplega 1.800 manns lífið. 

Hröð aukning síðustu mánuði

Í nýrri matsskýrslu UNICEF á stöðu mannúðaraðstoðar í landinu kemur fram að síðastliðin fimm ár hefur orðið aukning í fjölda tilfella vannærðra barna í Malaví og hefur aukist hratt undanfarna mánuði. UNICEF hefur sent út ákall um aukinn stuðning til að mæta nauðsynlegum þörfum 6,5 milljóna einstaklinga, þar af 3,3 milljóna barna, í Malaví á þessu ári. Það felur í sér að útvega forgangshjálpargögnum á borð við næringarríku jarðhnetumauki, aðgengi að öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu svo fátt eitt sé nefnt. 

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefur UNICEF, með aðstoð samstarfsaðila og styrktaraðila, aðstoðað stjórnvöld í Malaví að skima ríflega 140 þúsund börn undir fimm ára aldri fyrir bráðavannæringu. 

„Ef við fáum ekki aukinn fjárstuðning munu fátæk börn og börn í viðkvæmri stöðu ekki hafa aðgengi að grunnþjónustu og lífsbjörg,“ segir Gianfranco Rotigliano, fulltrúi UNICEF í Malaví. „En auk neyðaraðstoðar þá er nauðsynlegt að fjárfesta í langtímalausnum til að styrkja mikilvæga innviði og tryggja bolmagn samfélaga til að takast á við endurtekið neyðarástand og áskoranir.“ 

Stuðningur íslenska ríkisins til fyrirmyndar

Þess ber að geta að eitt af stærstu samstarfsverkefnum íslenska ríkisins og UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, hafa verið vatns- og hreinlætisverkefni í samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, meðal annars Malaví. Fyrr á þessu ári tilkynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, um hækkun á kjarnaframlögum íslenska ríkisins til UNICEF um 50%. Eða úr 150 milljónum í 230 milljónir á þessu ári. Við það tilefni fagnaði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, þeirri ákvörðun og hrósaði íslenskum stjórnvöldum fyrir að fara fram með góðu fordæmi í ljósi þess að fjölmargar þjóðir hafa dregið úr framlögum sínum til þróunarsamvinnu að undanförnu. Íslenska ríkið er sömuleiðis álitið fyrirmyndarstyrktaraðili hjá UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga og mikils stuðnings miðað við höfðatölu.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn