07. mars 2025

Valdefling unglingstúlkna fjárfesting í sjálfbærari og réttlátari heimi

Ný skýrsla UNICEF, UN Women og Plan International um stöðu unglingsstúlkna síðustu 30 ár – Alþjóðlegur baráttudagur kvenna á morgun

Hópur stúlkna í þorpinu Gourel-Ceno-Dedji í Malí fagna útskrift. Mynd: UNICEF/UNI702957/Dicko

Í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna á morgun, 8. mars, hafa UNICEF, UN Women og Plan International birt nýja skýrslu um stöðu unglingsstúlkna í heiminum síðastliðin 30 ár. Skýrslan varpar ljósi á að þó markverðar framfarir hafi náðst, sé enn langt í langt að ná fullnægjandi árangri.

Þrátt fyrir miklar framfarir á ýmsums sviðum eins og menntun síðastliðin þrjátíu ár eru milljónir unglingsstúlkna um allan heim enn utan skóla, illa undirbúnar fyrir framtíðina, búa við skort á lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og eru í hættu á skaðlegum hefðum eins og barnahjónaböndum, limlestingu á kynfærum kvenna, ofbeldi og misnotkun.

Skýrslan, sem ber yfirskriftina „Markmið stúlkna: Hvað hefur breyst fyrir stúlkur? Réttindi unglingsstúlkna yfir 30 ár“, skoðar hvernig líf unglingsstúlkna hefur þróast síðustu 30 árin síðan Pekingsáttmálinn var samþykktur af 189 ríkisstjórnum árið 1995.

Helstu staðreyndir úr skýrslunni:

Menntun, þjálfun og stafrænir hæfileikar:

·        Þrátt fyrir að hlutfall stúlkna utan skóla hafi dregist saman um 39% síðustu 20 ár eru enn 122 milljónir stúlkna sem ekki eru í skóla á heimsvísu. Unglingsstúlkur á aldrinum 15–19 ára í Suður-Asíu eru þrisvar sinnum líklegri en drengir til að vera hvorki í skóla, starfi né þjálfun.

·        Um það bil 4 af hverjum 10 unglingsstúlkum og ungum konum ljúka ekki framhaldsmenntun, og stúlkur úr efnaminni dreifbýlissamfélögum og jaðarsettum hópum eru enn ólíklegri til að ljúka skólagöngu.

·        Þótt fjöldi ólæsra unglingsstúlkna og ungra kvenna hafi helmingast síðustu 30 ár eru enn um 50 milljónir unglingsstúlkna og ungra kvenna sem ekki geta lesið eða skrifað einfalda setningu.

·         9 af hverjum 10 unglingsstúlkum og ungum konum í efnaminni ríkjum hafa ekki aðgang að internetinu, en strákar í sömu stöðu eru tvöfalt líklegri til að vera nettengdir.

Kynbundið ofbeldi:

·        Nærri 1 af hverjum 4 unglingsstúlkum sem eru í hjónabandi eða sambandi hefur orðið fyrir ofbeldi af hendi maka, og 50 milljónir stúlkna í dag hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

·        Rúmlega þriðjungur unglingsstúlkna og -drengja á aldrinum 15–19 ára á heimsvísu telur að eiginmaður hafi rétt til að beita konu sína ofbeldi við ákveðnar aðstæður.

Skaðlegar hefðir:

• Færri stúlkur eru látnar gangast undir limlestingu á kynfærum en áður, og í löndum eins og Búrkína Fasó og Líberíu hefur hlutfall stúlkna sem fyrir slíku verður helmingast síðustu 30 ár. En til að ná markmiði um að uppræta þessar limlestingar fyrir árið 2030 þarf þróunin að ganga 27 sinnum hraðar á heimsvísu.

·        Stúlkur eru nú ólíklegri til að giftast fyrir 18 ára aldur en fyrir 25 árum, en samt gengur enn 1 af hverjum 5 stúlkum í barnahjónaband á heimsvísu. Mestu framfarirnar hafa átt sér stað í Suður-Asíu, en í Rómönsku Ameríku og Karíbahafinu hefur þróunin staðið í stað síðastliðin 25 ár.

Heilsa og vellíðan:

·        Fjöldi unglingsstúlkna sem eignast börn hefur helmingast á heimsvísu síðustu 30 ár. Samt er búist við að nærri 12 milljónir unglingsstúlkna á aldrinum 15–19 ára muni eignast barn árið 2025. Hjá yngri unglingsstúlkum og börnum (10–14 ára), sem standa frammi fyrir enn meiri áhættu í tengslum við þungun, er áætlaður fjöldi rúmlega 325.000 á þessu ári.

·        Meðganga og barnsburður eru ástæða fyrir um 1 af hverjum 23 dauðsföllum meðal unglingsstúlkna á aldrinum 15–19 ára á heimsvísu.

·        Hlutfall unglingsstúlkna á aldrinum 10–19 ára undir kjörþyngd hefur lækkað eilítið síðustu þrjá ártugi, úr 10% í 8%.

Skýrslan sýnir að brýn þörf er á að grípa til aðgerða á heimsvísu til að nýta gríðarlega möguleika unglingsstúlkna og leggur fram eftirfarandi tillögur:

·        Að styrkja raddir unglingsstúlkna og styðja við aðgerðir þeirra til stefnumótunar í málefnum sem hafa áhrif á líf þeirra.

·        Að beina sjónum að sviðum þar sem framfarir hafa verið hægar og þar sem unglingsstúlkur sjálfar telja brýnasta forgang – til dæmis að loka menntunar-, færni- og þjálfunarmuninum – á meðan tekið er mið af nýjum hnattrænum straumum og viðhorfum.

·        Að nota gögn til að fjárfesta þar sem þörfin er mest og leggja áherslu á stórtækar breytingar og markvissar aðgerðir – með aukinni áherslu á efnahagslegt sjálfstæði og að tryggja að stúlkur hafi þá færni, eignir og úrræði sem þær þurfa til að blómstra.

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna:
„Unglingsstúlkur eru kraftmikið afl til breytinga á heimsvísu. Með réttum stuðning á réttum tíma geta þær stuðlað að því að við náum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og endurmótað heiminn okkar. Fjárfestingar í lykilsviðum eins og menntun, færni, vernd og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu geta hjálpað til við að fullnýta möguleika unglingsstúlkna um allan heim og lyft samfélögum og löndum upp.“

Kathleen Sherwin, yfirmaður stefnu og þátttöku hjá Plan International:
„Þrotlaus viðleitni í baráttunni gegn kynjamisrétti hefur aukið líkurnar á að stúlka fái skólagöngu og dregið úr líkum hennar á að giftast eða verða barnshafandi sem barn. Mörgu er að fagna – en þessi árangur er brothættur, ójafn og stöðugt í hættu. Of margar stúlkur standa enn frammi fyrir mismunun og ofbeldi á hverjum degi, einfaldlega vegna þess að þær eru ungar og kvenkyns. Við verðum að halda áfram að vinna að jafnrétti fyrir stúlkur, í samstarfi við stúlkur, konur og bandamenn þeirra um allan heim.“

Sima Bahous, framkvæmdastjóri UN Women:
„Of margar unglingsstúlkur búa enn við ofbeldi, takmarkað aðgengi að menntun og skorti á heilbrigðisþjónustu. Skuldbinding okkar um að skilja enga þeirra eftir krefst tafarlausra aðgerða. Við höfum náð langt, en við eigum enn langt í land þar til allar stúlkur njóta sín til fulls. Að styrkja allar unglingsstúlkur er öruggasta fjárfestingin í sjálfbærari, réttlátari og friðsamlegri heimi.“

Fleiri
fréttir

07. mars 2025

Valdefling unglingstúlkna fjárfesting í sjálfbærari og réttlátari heimi
Lesa meira

06. mars 2025

Yfirlýsing UNICEF vegna niðurskurðar ríkja til þróunaraðstoðar
Lesa meira

03. mars 2025

Þingmenn föndra fyrir málefni barna
Lesa meira
Fara í fréttasafn