27. apríl 2022

Ný skýrsla UNICEF og WHO: Aukning í útbreiðslu mislinga vegna skorts á bólusetningum áhyggjuefni

Tilfelli mislinga á heimsvísu aukist um 79 prósent á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra – 21 mislingafaraldur orðið síðustu 12 mánuði

Þessi unga stúlka í Java héraði Indónesíu bíður þess að fá bólusetningu við mislingum og rauðum hundum. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), lýsa yfir áhyggjum vegna mikillar aukningar í mislingatilfellum á heimsvísu á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Það sé til marks um að aukin hætta sé á faraldri hinna ýmsu sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir með bólusetningum. Kjöraðstæður kunni að hafa myndast fyrir slíkt.

Ástæðan er fyrst og fremst rof sem orðið hefur á hefðbundnum grunnbólusetningum vegna heimsfaraldurs COVID, aukin misskipting í aðgengi að bóluefnum og skert fjármögnun til bólusetninga á heimsvísu. Allt þetta skilji stóran hóp barna eftir berskjaldaðan fyrir mislingum og öðrum sjúkdómum sem bóluefni koma í veg fyrir.

Hætta á stærri faraldri eykst svo í beinu samræmi við tilslakanir á COVID-takmörkunum og þeirri staðreynd að milljónir manna eru nú á flótta vegna stríðsátaka eða annarar neyðar í löndum eins og Úkraínu, Eþíópíu, Sómalíu og Afganistan. Takmörkuð heilbrigðisþjónusta, bólusetningar, skortur á hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu og mikil mannmergð skapa kjöraðstæður fyrir dreifingu hvers kyns smitsótta.

17 þúsund tilfelli skráð í upphafi árs

Ríflega 17 þúsund mislingatilfelli voru skráð um allan heim í janúar og febrúar síðastliðnum samanborið við rúmlega 9.600 á sama tímabili í fyrra. Þar sem mislingar eru afar smitandi þá fjölgar tilfellum vanalega hratt þegar bólusetningahlutfall lækkar. UNICEF og WHO lýsa yfir áhyggjum af því að útbreiðsla mislinga verið undanfari annarra smitsjúkdóma sem ekki dreifi sér jafnfljótt og eigi eftir að koma í ljós.

Samhliða beinum áhrifum á líkamann, sem geta verið banvæn, þá veikir mislingavírusinn líka ónæmiskerfi og gera börn þannig viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum á borð við lungnabólgu og niðurgangi. Flest skráð tilfelli eiga sér stað á svæðum félags- og efnhagsþrenginga vegna COVID 19, átakasvæðum eða öðrum neyðaraðstæðum, og á svæðum þar sem viðvarandi veikt heilbrigðiskerfi er til staðar.

Faraldrar vísbending um misbresti

„Mislingar eru meira en bara hættulegur og hugsanlega banvænn sjúkdómur. Mislingasmit gefa til kynna að það séu gloppur í bólusetningadekkun á heimsvísu. Gloppur sem börn í viðkvæmum hópum geta ekki búið við,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu vegna skýrslunnar.

23 milljónir barna urðu af bólusetningum árið 2020

Árið 2020 urðu 23 milljónir barna af reglubundnum bólusetningum í gegnum grunnheilbrigðisþjónstu, sem er mesti fjöldi síðan 2009 og aukning um 3,8 milljónir frá því árið 2019.

UNICEF og WHO segja í skýrslunni að frá því núna í apríl 2022 hafi 21 stór mislingafaraldur orðið á heimsvísu síðustu 12 mánuði. Flest tilfellin eru skráð í Afríku og landsvæðum við Austur-Miðjarðarhaf.

Stærstu faraldrarnir síðasta árið hafa orðið í Sómalíu, Jemen, Nígeríu, Afganistan og Eþíópíu.

Tugir herferða frestast vegna COVID

Vegna heimsfaraldurs COVID-19 hefur alls þurft að fresta 57 bólusetningarherferðum í 43 löndum og eru þær ekki enn farnar af stað. Afleiðingar þessa snerta 203 milljónir manna, þar af meirihlutann börn.

UNICEF, WHO og samstarfsaðilar á borð við Gavi, the Vaccine Alliance, M&RI, Bill og Melinda Gates Foundation og fleiri styðja nú umfangsmiklar aðgerðir til að vinna upp það sem glatast hefur niður í bólusetningum vegna heimsfaraldurs COVID-19. UNICEF vinnur að því að vekja athygli á stöðunni nú þegar Alþjóðlega vika bólusetninga stendur sem hæst.

Fleiri
fréttir

23. janúar 2025

Loftslagskrísan raskaði námi 242 milljóna nemenda í fyrra
Lesa meira

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira
Fara í fréttasafn