21. mars 2025

UNICEF fordæmir „svívirðilegan“ þjófnað á hjálpargögnum fyrir börn

Lífsbjargandi hjálpargögnum ætluð börnum í neyð stolið af Al Bashair-sjúkrahúsinu í Khartoum-héraði Súdan.

Hinn 9 mánaða gamli Omer fær næringarríkt jarðhnetumauk vegna vannæringar í fangi móður sinnar á heilsugæslu UNICEF í Kassala-héraði Súdan. Næringarmauk sem þetta er meðal þess sem stolið var. Mynd: UNICEF/UNI689275/Elfatih

„Að stela lífsbjargandi hjálpargögnum sem ætluð eru vannærðum börnum er svívirðilegt og bein árás á möguleika þeirra til lífs,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í harðorðri yfirlýsingu í dag. Þar fordæmir UNICEF gripdeild á hjálpargögnum á Al Bashair-sjúkrahúsinu í Khartoum-héraði Súdan.

UNICEF fordæmir harkalega rán á mikilvægum mannúðaraðstoðarbirgðum—sem ætlaðar voru til að bjarga lífi vannærðra barna og veita bráðnauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir mæður og nýbura—frá Al Bashair sjúkrahúsinu í Jabal Awlia, Khartoum. Meðal þess sem var rænt voru að minnsta kosti 2.200 öskjur af næringarríku jarðhnetumauki, sem setur líf rúmlega 2.000 barna sem þjást af alvarlegri bráðavannæringu í hættu.

Óverjandi árás á varnarlaus börn

Ránið á Al Bashair sjúkrahúsinu, einni af síðustu starfandi heilbrigðisstofnunum í Jabal Awlia, á útjaðri höfuðborgarinnar Khartoum, gerir alvarlega mannúðarkrísu barna og fjölskyldna á svæðinu enn verri. Bæði verslunarbirgðir og mannúðaraðstoð hafa verið hindraðar og stöðvaðar í meira en þrjá mánuði vegna áframhaldandi átaka á helstu samgönguleiðum. Afleiðingarnar eru skortur á mat, lyfjum og öðrum nauðsynjum, með þúsundir óbreyttra borgara fasta í miðjum átökum. Yfir 4.000 manns hafa þegar neyðst til að flýja innan Khartoum.

„Þessi óverjandi árás á varnarlaus börn verður að stöðva. Allir aðilar verða að virða alþjóðleg mannúðarlög, vernda óbreytta borgara og tryggja öruggan og óhindrað aðgengi mannúðaraðstoðar til þeirra sem þurfa hana,“ segir Russell ómyrk í máli.

Jabal Awlia er einnig eitt af 17 svæðum sem eru í hættu á hungursneyð samkvæmt nýjustu greiningu á fæðuöryggi (IPC), sem gerir gripdeildir á þessum birgðum hörmulegan fyrir meira en 100.000 börn sem þjást af bráðri vannæringu. Járn- og fólínsýrufæðubótarefni sem var stolið áttu að nýtast 6.000 þunguðum konum og konum með börn á brjósti. Ljósmæðasett og grunnheilbrigðisbirgðirnar sem stolið var hefðu veitt nauðsynlega þjónustu fyrir yfir 132.980 mæður, nýbura og börn á svæði þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er afar takmarkað.

Fordæmalaust neyðarástand

UNICEF hafði tekist að koma þessum lífsnauðsynlegu birgðum til Jabal Awlia 20. desember 2024, sem var fyrsta farsæla mannúðarsendingin til svæðisins í yfir 18 mánuði. Að missa þessi hjálpargögn, ásamt þvingaðri stöðvun mannúðaraðgerða vegna versnandi öryggisskilyrða, eykur en á hamfarir barna á svæðinu.

Súdan stendur nú þegar frammi fyrir einni verstu mannúðarkrísu heims. Yfir 24,6 milljónir manna—meira en helmingur þjóðarinnar—upplifa alvarlegt fæðuóöryggi. Hrun heilbrigðiskerfisins, lokun skóla fyrir 17 milljónir barna og metfjöldi barna á flótta hafa skapað fordæmalaust neyðarástand.

UNICEF ítrekar kröfur sínar um:
• Óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar til að ná til barna og fjölskyldna í neyð.
• Vernd sjúkrahúsa og annarra borgaralegra mannvirkja í samræmi við alþjóðalög um mannúðaraðstoð.
• Tafarlausa tryggingu fyrir öryggi framlínustarfsfólks sem veitir lífsbjargandi aðstoð.

UNICEF er áfram staðráðið í að styðja börn í Súdan og mun halda áfram að vinna með samstarfsaðilum til að endurheimta aðgang að lífsnauðsynlegri þjónustu. Hins vegar er nauðsynlegt að fá tafarlaust fjármagn og bætt öryggisskilyrði til að viðhalda aðgerðum og koma í veg fyrir frekara mannfall.

Fleiri
fréttir

28. mars 2025

Heimsbyggðin geti ekki hunsað „helvíti á jörðu“ í Súdan
Lesa meira

27. mars 2025

Niðurskurður bitnar á lífsnauðsynlegri næringarþjónustu fjórtán milljóna barna
Lesa meira

25. mars 2025

Sameinuðu þjóðirnar: Áratuga framfarir í baráttunni gegn barnadauða í hættu
Lesa meira
Fara í fréttasafn