03. mars 2025

Þingmenn föndra fyrir málefni barna

Nýir talsmenn barna á Alþingi tóku þátt í skemmtilegum viðburði í Alþingishúsinu í dag

Nýir talsmenn barna á Alþingi tóku þátt í skemmtilegum viðburði í Alþingishúsinu í dag, skipulögðum af Barnaréttindavaktinni. Þetta er í sjöunda skipti sem talsmenn barna á Alþingi eru skipaðir, og koma fulltrúar úr öllum flokkum sem eiga sæti á þingi.

Á viðburðinum settu þingmennirnir sér markmið fyrir kjörtímabilið í tengslum við réttindi barna og fengu það verkefni að föndra fígúru sem minnir þau á að gæta að hagsmunum og málefnum barna á Alþingi og minna sig á að öll börn skipta máli. Þar er átt við öll börn í alls konar aðstæðum sem mörg eiga sér ekki málsvara, en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna nær til allra barna óháð uppruna og lagalegri stöðu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi í febrúar árið 2013. Þar sem engin þingnefnd á Alþingi hefur enn haft það hlutverk að fjalla heildstætt um málefni barna var óskað eftir samstarfi við þingflokka og stofna þingmannahóp um talsmenn barna á Alþingi. Árið 2014 skrifuðu þingmenn í fyrsta sinn undir yfirlýsingu og tóku að sér að huga sérstaklega að réttindum, hagsmunum og sjónarmiðum barna í störfum sínum.

Að Barnaréttindavaktinni standa níu samtök sem láta sig varða réttindi og velferð barna. Ásamt UNICEF á Íslandi eru það samtökin Barnaheill, Heimili og skóli, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn, Samfés, UMFÍ, Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtök.

Nýjir talsmenn barna á Alþingi eru:

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar / María Rut Kristinsdóttir til vara.

Kolbrún Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins / Guðmundur Ingi Kristinsson til vara. 

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins / Bryndís Haraldsdóttir til vara.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks / Þórarinn Ingi Pétursson til vara.

Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins / Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir til vara.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður Samfylkingarinnar / Eydís Ásbjörnsdóttir til vara.

 

Þingmennirnir voru rosa duglegir að leira og afraksturinn glæsilegur eins og sjá má.
Fleiri
fréttir

03. mars 2025

Þingmenn föndra fyrir málefni barna
Lesa meira

03. mars 2025

UNICEF: Skelfilegar afleiðingar fyrir börn að loka á mannúðaraðstoð á Gaza
Lesa meira

28. febrúar 2025

Stríðið í Líbanon hafði skaðleg áhrif á líðan, næringu og menntun barna
Lesa meira
Fara í fréttasafn