Að minnsta kosti 40 börn hafa látið lífið síðustu þrjá daga víðs vegar um Súdan í stigvaxandi átökum undanfarinna vikna. Skotárásir í Kadugli, í suður-Kordofan héraði kostuðu 21 barn lífið og 29 særðust á mánudag, 11 börn létust í skotárás á markaði í El Fasher og önnur 8 á markaði í Khartoum héraði á laugardag.
„Minnst 40 börn voru drepin þarna á þriggja daga tímabili á þremur mismunandi svæðum í landinu. Þetta er hrollvekjandi birtingarmynd þeirrar eyðileggingar og vaxandi ógna sem steðja að börnum í Súdan,“ segir Annmarie Sway, fulltrúi UNICEF í Súdan í tilkynningu frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Hún segir það því miður sjaldgæft að margir dagar líði án þess að tilkynningar um dráp á börnum berist.
„Á tímabilinu júní til desember í fyrra, þegar átök breiddust út til nýrra svæða, var tilkynnt um yfir 900 tilfelli af alvarlegum brotum gegn börnum. Að meðaltali rúmlega fjögur á dag. Í 80% tilfella höfðu börn ýmist látið lífið eða særst, sem er sláandi tölfræði. Og frá upphafi þessa árs hefur ekkert lát orðið á átökum,“ segir Sway.
Skelfingarástand hefur ríkt í Súdan síðan borgarastyrjöld hófst þar á ný í apríl 2023 með þeim afleiðingum að 8 milljónir íbúa hafa neyðst til að flýja heimili sín, þar af um 4 milljónir barna. Hvergi í heiminum er nú fleiri börn á vergangi en í Súdan. 14 milljónir barna þurfa nauðsynlega á mannúðaraðstoð.
UNICEF hefur frá upphafi kallað eftir tafarlausu vopnahléi svo hægt sé að bregðast við þessara bráðu neyð og veita börnum lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð.
„Líkt og ávallt er þegar stríð eiga í hlut eru það börnin í Súdan sem þessi linnulausu átök bitna verst á. Við ítrekum enn á ný ákall okkar um að stríðandi fylkingar fari að alþjóðamannréttindalögum og tryggi vernd og réttindi allra barna í Súdan. Þessu glórulausa ofbeldi og stríði gegn börnum verður að að linna, núna.“