Reykjanesbær hlaut nú á dögunum viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag og er því þriðja sveitarfélagið til að ná þessum áfanga og eru vel að því komin. Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hljómahöll miðvikudaginn 29. janúar síðastliðinn.
Samstarf UNICEF á Íslandi og Reykjanesbæjar byrjaði sumarið 2020 þegar sveitarfélagið hóf þá vegferð að verða Barnvænt sveitarfélag. Í ræðu sinni í Hljómahöll sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, að samstarfið við Reykjanesbæ hafi verið til mikillar fyrirmyndar, gengið vel og ekki síður lærdómsríkt fyrir starfsfólk innanlandsteymis UNCIEF á Íslandi þökk sé einstaklega jákvæðu viðmóti fulltrúa sveitarfélagsins, metnaði og drifkrafti starfsfólks, ungmennaráðs Reykjanesbæjar, umsjónarmanna og bæjarstjóra.
Meðal þeirra aðgerða sem stigin hafa verið til að tryggja sveitarfélaginu viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag má nefna að búið er að tryggja að ungmennaþing verði haldin á tveggja ára fresti og þannig festa í sessi tækifæri fyrir börn til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Næsta skref er svo að hlúa enn frekar að þátttöku barna í viðkvæmri stöðu á þinginu, þátttaka barna í stefnumótun hefur verið efld, áheyrnarfulltrúar í ráðum og nefndum njóta virðingar og sóst er eftir þeirra skoðunum. Þá hefur tilkynninga- og ábendingahnappur fyrir börn til að koma skoðunum og skilaboðum sínum á framfæri verið gerður aðgengilegur.
Þekking í þágu réttinda barna
Lögð hefur verið áhersla á að starfsfólk sæki sér fræðslu um Barnasáttmálann og tengi við störf sín og hafa nú 70% þeirra lokið þeirri fræðslu. Fræðsluáætlanir varðandi réttindafræðslu fyrir bæði starfsfólk og nemendur hafa verið útbúnar og samþykktar fyrir alla grunnskóla. Sérstök fræðsla fyrir nemenda- og skólaráð var sett á laggirnar og þá var gert átak í því að fræða starfsfólk um tilkynningarskyldu sína til barnaverndar. Ráðgjafarþjónusta, í anda Bergsins Headspace, fyrir börn í viðkvæmri stöðu hefur verið gerð aðgengilegri og búið er að fjölda félagsmiðstöðvum úr einni í þrjár.
Barnvænt umhverfi og stjórnsýsla
Börn eru nú hluti af samráðshópi umhverfis- og skipulagssviðs auk þess sem sviðið leggur mikið upp úr því að verða við þeim ábendingum sem fram koma á ungmennaþingi og er það samstarf sem ungmennaráð er sérstaklega ánægt með. Þá hefur farið fram vinna hjá skipulagssviði með börnum varðandi breytingar á Ásbrú, sem er sérstaklega verðlaunað verkefni sem unnið var í samstarfi við ÞYKJÓ.
Í stjórnsýslunni hefur mannréttindastefna verið unnin á tímabilinu þar sem vandað var til verka og börn tóku þátt í þeirri vinnu. Opinber stefna bæjarins, sem gildir 2020-2030 inniheldur sex megináherslur, þar sem sú fyrsta er: Börnin í fyrsta sæti. Annað sem má nefna er að áheyrnarfulltrúar eiga sæti í nefndum og ráðum, bæjarstjórafundur unga fólksins, unnið er með niðurstöður ungmennaþings á markvissan hátt innan stjórnsýslunnar og stuðningur við ungmennaráð.
Eru þá ónefnd önnur verkefni sem litið hafa dagsins ljós og voru ekki hluti af aðgerðaáætluninni, eins og verkefnið Allir með! sem leggur áherslu á inngildingu allra barna í íþróttum og tómstundum, barnvænar menningarhátíðir, réttindafræðsluverkefni inni í leikskólum og svo mætti lengi telja.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:
„Nú er fyrsta hring lokið og tilefni til að njóta, klappa sér á bakið og vera stolt. Á sama tíma má horfa til framtíðar. Það að hlúa að mannréttindum er vinna sem aldrei tekur enda og við megum ekki sofna á verðinum. Þau eru mörg og mismunandi næstu skrefin sem hægt er að taka, barnvænt hagsmunamat, aukin vitund íbúa, frekari fræðsla og stuðningur við innleiðingu farsældarlaganna svo fátt eitt sé nefnt. Það eru bara spennandi tímar framundan þar sem þið munið byggja á þessum frábæra árangri. Við óskum Reykjanesbæ hjartanlega til hamingju með áfangann og bjóðum ykkur velkomin í hóp Barnvænna sveitarfélaga.“
Allt um verkefnið Barnvæn sveitarfélög má finna hér.