Menu

Réttindaskóli UNICEF

Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annarra starfsmanna.

Svona fórum við af stað

Á árunum 2016-2017 tóku þrír skólar, frístundaheimili og ein félagsmiðstöð þátt í þróunarverkefni í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að bæta skóla- og frístundastarf, jafnt sem líðan barna og ungmenna, með því að nota Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem útgangspunkt í skóla-og frístundastarfi. Flataskóli, ásamt frístundaheimilinu Krakkakoti, og Laugarnesskóli, ásamt frístundaheimilinu Laugarseli, fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF á Íslandi 20.nóvember 2017. Vill skólinn þinn vera með? Sæktu um hér að neðan.

Sækja um að gerast Réttindaskóli UNICEF

Ef skólinn þinn hefur áhuga á að gerast Réttindaskóli UNICEF þá hvetjum þig til að taka fyrsta skrefið með því að senda okkur umsóknina á forminu hér fyrir neðan og við munum hafa samband eins fljótt og hægt er.

Hafa samband

Góð reynsla í þúsundum skóla

Réttindaskólar UNICEF er hugmyndafræði sem UNICEF í Englandi þróaði og kallast Rights Respecting School Award.

Hugmyndafræðin var fyrst sett fram árið 2005 og hefur síðan verið notað í ríflega 2.500 skólum í Englandi, auk þess sem það hefur verið tekið upp í Kanada, Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörk, Slóveníu og nú á Íslandi. 

Rannsóknin sem vísað er í hér að neðan var framkvæmd af háskólunum í Sussex og Brighton og fylgdi Réttindaskólunum eftir í þrjú ár. Rannsóknina má nálgast hér.

Rannsóknir á Réttindaskólum í Bretlandi og Kanada hafa sýnt jákvæðar niðurstöður fyrir börn, fullorðna og skólastjórnendur:

  • Umræður um gildi Barnasáttmálans leiddu til þess að börn sýndu meira umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölbreytileika, sem hafði þau áhrif að einelti og ofbeldi í skólunum minnkaði.
  • Nemendur í Réttindaskólum urðu betri í að standa vörð um eigin réttindi, t.d. rétt sinn til að taka þátt. Þeir urðu auk þess færari í að láta vita þegar brotið var á rétti þeirra eða ef þau urðu fyrir misnotkun af einhverju tagi.
  • Starfsánægja fullorðinna jókst.
  • Börnin fundu fyrir auknum áhuga á að taka þátt í þróun skólans og lögðu meira af mörkum til að skapa öruggt skólaumhverfi fyrir öll börn.
  • Aukin þátttaka og áhrif í skólunum gaf börnum aukið sjálfstraust, sem varð til þess að vellíðan þeirra jókst.
  • Aukin þátttaka barna í skipulagningu kennslu jók áhuga þeirra og hafði jákvæð áhrif á námsárangur.
  • Börn öðluðust betri skilning og þekkingu á alþjóðlegum málefnum og sýndu meiri áhuga á réttindum barna í alþjóðlegu samhengi.
  • Að mati skólastjóra voru skólarnir betur í stakk búnir til að vernda börn fyrir einelti, ofbeldi og öðrum brotum á réttindum þeirra. Dæmi um þetta mátti sjá í aukinni samvinnu skóla, félagsþjónustu og annarra stofnana. 

 

Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna eru ekki bara falleg á litinn heldur er líka stórskemmtilegt að syngja þau ...

Í Réttindaskólum læra börn og ungmenni um mannréttindi sín í leik og starfi. Réttindum þeirra er fylgt eftir í skipulagi skólans og birtast í samskiptum við önnur börn, kennara, starfsfólk, foreldra og frístundaleiðbeinendur.