02. júní 2017

Nýr ís fyrir dag rauða nefsins kynntur

Ís fyrir dag rauða nefsins kynntur: Hindber, litkatré (lychee) og rósir í nýopnaðri Skúbb Ísgerð á Laugarásveginum. Ein vika í dag í stóra daginn þann 9. júní!

Andri Freyr Viðarsson hélt að dagurinn í dag yrði venjulegur dagur. Svo var ekki. Okkar mann óraði ekki fyrir því hvað myndi gerast þegar hann steig með dóttur sinni inn í nýju ísbúðina á Laugarásveginum: Skúbb Ísgerð.

Þar var á sama tíma verið að kynna nýjan ís fyrir dag rauða nefsins hjá UNICEF. Blöndu af hindberjum, litkatré (lychee) og rósum. Föstudagurinn hjá Andra hafði skyndilega öðlast ljóma. Fyrr en varði var hann kominn með ís í aðra hönd meðan hin höndin greip um rautt nef. Fullkomnun.

Ísinn rann ljúflega niður. Skúbb Ísgerð gerði hann sérstaklega í tilefni af degi rauða nefsins og hann er að sjálfsögðu rauðbleikur að lit. 100 krónur af hverri seldri ískúlu renna til UNICEF. Það skemmtilega er að Andri Freyr verður einn af kynnunum í símaverinu á sjálfum degi rauða nefsins eftir viku.

Skúbb Ísgerð er nýopnuð ísbúð sem stendur við Laugarásveg 1. Að henni standa Karl Viggó Vigfússon konditor og bakari, Hjalti Lýðsson súkkulaðigerðamaður og Friðrik Haraldsson viðskiptafræðingur.

Dagur rauða nefsins er aftur á móti langstærsti viðburður ársins UNICEF á Íslandi. Hann nær hámarki í beinni útsendingu á RÚV föstudaginn 9. júní þar sem grínistar, leikarar, tónlistarmenn og fjölmiðlafólk búa til ógleymanlegt kvöld og skora á áhorfendur að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.

Með átakinu vill UNICEF skemmta fólki og vekja um leið athygli á að heimsforeldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn. Þetta verður skemmtun sem sannarlega skiptir máli, þáttur fullur af sjóðheitu gríni og fjöri. Þá er tilvalið að kæla sig niður með rauðbleika ísnum frá Skúbb Ísgerð.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn