Leikkonan Millie Bobby Brown, góðgerðarsendiherra UNICEF, heimsótti unglingsstúlkur og ung börn í São Paulo í Brasilíu í þessari viku til að hlusta á sögur þeirra, þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir og hvernig þau stefna að draumum sínum.
Leikkonan heimsþekkta flutti fyrr í þessum mánuði ræðu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna fyrir CSW, Nefnd um stöðu kvenna, til að berjast fyrir réttindum stúlkna. Í heimsókn sinni til Brasilíu heimsótti Brown í skóla í Cidade Tiradentes-hverfinu í São Paulo og hitti hóp unglingsstúlkna.
Áhrifamikil heimsókn sem veitti innblástur
„Ég er mjög þakklát UNICEF fyrir tækifærið til að hitta ungt fólk í þessu samfélagi, sem og kennarana,“ sagði Brown. „Mér fannst afar áhrifamikið að fá að verja tíma með þessum unglingsstúlkum í skólanum, hlusta á þær og læra af þeirra persónulegu sögum og reynslu. Við ræddum mikilvægi þess að styðja hver aðra í gegnum okkar áskoranir, og ég vildi að þær fyndu styrk til að taka ákvarðanir um eigin framtíð. Þær voru mér mikill innblástur og ég veit að þær munu halda áfram að breyta sínu samfélagi í framtíðinni.“
Réttindi stúlkna eiga undir högg að sækja
Stúlkurnar sögðu Millie frá þeim hindrunum sem þær standa frammi fyrir, þar á meðal mismunun milli kynjanna í skóla, mikilvægi menntunar – sérstaklega í tengslum við tíðahringsheilbrigði (e. menstrual dignity) – og nauðsyn þess að stúlkur tali fyrir sínum eigin réttindum. Þær lögðu áherslu á þörfina fyrir meiri stuðning og hvatningu fyrir stúlkur.
Í Brasilíu standa unglingsstúlkur frammi fyrir mörgum takmörkunum á réttindum sínum. Svokölluð tíðafátækt – sem lýsir sér m.a. í skorti á aðgengi að dömubindum, vatni, sápu og salernum, sem og upplýsingum um tíðahringinn – hefur áhrif á 15 milljónir stúlkna í landinu og takmarkar skólasókn þeirra. Unglingsstúlkur glíma einnig við meira atvinnuleysi og er mismunað þegar kemur að starfsnámi.
Ofbeldi er enn alvarlegt vandamál í Brasilíu, þar sem árið 2023 var að meðaltali tilkynnt um kynferðisbrot gegn stúlku á átta mínútna fresti. Árið 2020 áttu 14 prósent allra fæddra barna í Brasilíu mæður sem voru á unglingsaldri, sem oft veldur menntunar- og efnahagslegum hindrunum.
Skólinn mikilvægt stuðningsnet
„Skólinn er mjög mikilvægur sem stuðningsnet, sérstaklega á jaðarsvæðum eins og þar sem við búum,“ sagði Kizzy de Souza, 14 ára. „Mörg börn skilja oft ekki ákveðin viðfangsefni vegna skorts á upplýsingum, og þau lifa í mikilli fátækt. Það er afar mikilvægt að skólinn sé stuðningsaðili fyrir nemendur og setji þá alltaf í fyrsta sæti.“
UNICEF vinnur með brasilískum stjórnvöldum og yfirvöldum á hverjum stað til að bæta menntun, vernd og atvinnumöguleika fyrir stúlkur og drengi í viðkvæmri stöðu í hverfum eins og Cidade Tiradentes, þar sem tíðni ofbeldis, fátæktar og brottfalls úr skóla er há.
Heimsóknin hvetjandi fyrir stúlkur
Meðan á heimsókninni stóð kynntist Millie einnig starfsfólki skólans og fræddist um verkefni UNICEF, Active School Search, sem miðar að því að finna börn sem eru utan skóla og styðja þau við að snúa aftur til náms. Að heimsókn lokinni tók Millie þátt í að mála veggmynd með nemendum og lék sér í íþróttatíma með því að spila hefðbundinn brasilískan leik, capoeira.
„Millie er innblástur fyrir stúlkur í Brasilíu og um allan heim. Heimsókn hennar til Brasilíu, sérstaklega samtal hennar við unglingsstúlkur, var einstakt tækifæri til að hvetja brasilískar stúlkur til að trúa á sjálfar sig til að ná markmiðum sínum,“ sagði fulltrúi UNICEF í Brasilíu, Youssouf Abdel-Jelil.
Á meðan á dvöl hennar í São Paulo stóð, varði Millie einnig tíma með sendifulltrúa UNICEF í Brasilíu, Maisa Silva, þar sem þær ræddu um starf sitt með UNICEF og réttindi stúlkna.