04. janúar 2023

Mannúðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna skora á Öryggisráðið

Endurnýja þarf samþykkt sem heimilar mannúðaraðstoð yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands

Sýrlensk börn frá hlýjan vetrarfatnað frá UNICEF.

Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga mannúðarstofnana Sameinuðu þjóðanna er skorað á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að endurnýja samþykkt sem heimilar að mannúðaraðstoð sé veitt yfir landamæri norðvesturhluta Sýrlands í gegnum Tyrkland. Fyrri samþykkt rennur út eftir viku og segir í yfirlýsingunni að takist ekki að endurnýja hana geti það haft skelfilegar afleiðingar fyrir 4,1 milljónir einstaklinga sem búi á hlutlausum svæðum sem ekki lúta stjórn viðkomandi stjórnvalda. Meirihluti þessa fólks eru börn og konur sem þurfa nauðsynlega á aðstoðinni að halda í vetrarhörkunni sem brátt nær hámarki og í miðjum kólerufaraldri á svæðinu.

Undir yfirlýsingu skrifa leiðtogar UNICEF (Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna), OCHA (Samhæfingarskrifstofu aðgerða í SÞ í mannúðarmálum), IOM (Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar), UNHCR (Flóttamannastofnun SÞ), WFP (Matvælaáætlunar SÞ) og WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar).

„Afstaða okkar er skýr. Mannúðaraðstoð og öryggi aðstoðarinnar verður að tryggja svo hægt sé að ná til þeirra sem þurfa með öruggum, beinum og skilvirkum leiðum. Án landamærasamstarfs Sameinuðu þjóðanna munu milljónir einstaklinga á vergangi ekki hafa aðgengi að mat, skjóli, aðstoð til að takast á við vetraraðstæður, eftirliti, meðferð og greiningu, öruggu drykkjarvatni og vernd gegn kynbundnu ofbeldi. Takist ekki að framlengja Samþykkt 2642 þýðir það einnig að eftirlitskerfi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Monitoring Mechanism) verður gagnslaust til að staðfesta ástand mannúðaraðstoðar og verkefna við landamærin,“ segir í yfirlýsingunni.

„Árið 2022, ásamt samstarfsfélögum okkar, gátum við að meðaltali flutt hjálpargögn og veitt mannúðaraðstoð til 2,7 milljóna einstaklinga í hverjum mánuði í gegnum landamæri Tyrklands og Sýrlands.“

Bent er á að ólíkt fyrri samþykktum, þar sem landamæraaðgerðirnar voru framlengdar um 12 mánuði, þá hafi síðasta samþykkt Öryggisráðsins aðeins veitt heimild til 6 mánaða. Það hafi skapað mikla óvissu, hækkað flækjustig og kostnað við allar aðgerðir og sett miklar hömlur á það mannúðarstarf sem nauðsynlegt var að veita.

„Þær milljónir einstaklinga sem treysta á þessa líflínu þvert á landamæri til að halda lífi verða að sjá þessa samþykkt endurnýjaða tafarlaust.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn