10. mars 2023

Íslensk stjórnvöld stórauka kjarnaframlög til UNICEF

Utanríkisráðherra segir starf UNICEF mikilvægara en nokkru sinni fyrr – Framlögin hækkuð um ríflega 50%

Utanríkisráðuneytið tilkynnti í gær að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að hækka kjarnaframlög sín til UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, umtalsvert. Framlagið hækkar úr 150 milljónum á ári í 230 milljónir á þessu ári og nemur hækkunin því ríflega 50%.  Utanríkisráðuneytið segir hækkun framlaganna hluta af aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu. 

Kjarnaframlög sem þessi eru gríðarlega mikilvæg fyrir stofnanir eins og UNICEF og gefur þeim svigrúm til að bregðast við aðkallandi aðstæðum á sem skilvirkastan hátt.  

„Kjarnaframlög eru mikilvæg fyrir UNICEF þar sem þau gera okkur kleift að bregðast hratt við neyðartilvikum, stækka lífsbjargandi verkefni og vera brautryðjendur í nýjum lausnum sem hjálpa okkur að mæta þörfum barna og samfélaga þeirra, frá fæðingu til unglingsára. UNICEF er þakklátt samstarfsaðilum eins og Íslandi fyrir framlagið í reglubundin verkefni, sem gerir okkur kleift að ná sem mestum árangri fyrir öll börn,“ segir Karin Hulshof, aðstoðarframkvæmdastjóri UNICEF.

Framlögin lykilatriði 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir starf UNICEF mikilvægara en nokkru sinni.  

„Ísland er stoltur bakhjarl UNICEF og það er okkur mikil ánægja að tilkynna um aukin kjarnaframlög til stofnunarinnar. Með sífellt flóknari áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir og börn og ungmenni fara ekki síst varhluta af er það starf sem UNICEF innir af hendi mikilvægara en nokkru sinni fyrr.“ 

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir ákvörðun íslenskra stjórnvalda fagnaðarefni og senda skýr skilaboð til annarra ríkja.  
„Á sama tíma og fjölmargar þjóðir hafa dregið saman í framlögum sínum til þróunarsamvinnu er fagnaðarefni að sjá íslensk stjórnvöld fara fram með góðu fordæmi og bæta í þetta mikilvæga starf svo um munar, nú þegar þörfin hefur aldrei verið meiri. Það sem Ísland skortir í stærð bætum við upp með kjarki og góðu fordæmi. Það er óskandi að önnur ríki taki eftir. Við erum afar þakklát þessari hækkun framlaga enda vitum við hversu mikilvægur stuðningurinn er fyrir börn í viðkvæmri stöðu á þessum vályndu tímum.“   

Hvað eru kjarnaframlög? 

UNICEF er skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins við UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, afar gott og náið. Íslenska ríkið er álitið fyrirmyndarstyrktaraðili UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. Kjarnaframlög eru ekki eyrnamerkt ákveðnum verkefnum og því gerir hátt hlutfall þeirra UNICEF kleift að sinna þróunar- og hjálparstarfi á svæðum sem eru ekki endilega í kastljósi fjölmiðla og umheimsins.  

Þegar lögð eru saman framlög ríkisins til kjarnaverkefna og sértækra verkefna UNICEF auk framlaga Heimsforeldra, fyrirtækja og almennings til landsnefndar UNICEF á Íslandi er Ísland einn stærsti styrktaraðili UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á heimsvísu miðað við höfðatölu. Það er staðreynd sem Íslendingar geta verið afar stoltir af. 

Svona hafa kjarnaframlög nýst UNICEF í starfi 

Meðal þess árangurs sem UNICEF hefur náð þökk sé kjarnaframlögum sem þessum er: 

  • Stóraukið aðgengi barna og fullorðinna að sérfræðimenntuðum fagaðilum á sviði geðheilbrigðismála um allan heim.  
  • Áframhaldandi bólusetningar barna í Afganistan þar sem rúmlega 1 milljón barna undir eins árs aldri hafa fengið grunnbólusetningar og rúmlega 3 milljónir manna verið bólusett við COVID-19. 
  • Stóraukið aðgengi sem og gæði menntunar barna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og rúmlega 167 þúsund börnum á skólaaldri stunda nú grunnskólanám sem ella hefðu ekki fengið tækifæri til þess.  
  • Og síðast en ekki síst er það þökk sé öflugum kjarnaframlögum sem UNICEF hefur styrkt verulega vinnu sína og verkefni til að gera viðkvæmum samfélögum kleift að búa sig undir og bregðast við afleiðingum hamfarahlýnunar í nánustu framtíð.   

Stærstu samstarfsverkefni íslenska ríkisins og UNICEF hafa verið vatns- og hreinlætisverkefni í samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, Malaví, Úganda og nú á þessu ári bættist Síerra Leóne þar við. Þá styrkir Ísland einnig landsskrifstofu UNICEF í Palestínu, ásamt því að styrkja jafnréttissjóð UNICEF sem vinnur að eflingu menntunar stúlkna. Þá er Ísland langtíma stuðningsaðili samstarfsverkefnis UNICEF og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um afnám kynfæralimlestinga kvenna.  

Auk hækkunar kjarnaframlaga til UNICEF tilkynnti utanríkisráðuneytið einnig um hækkun framlaga til UN Women og UNFPA. 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn