01. júní 2022

100 dagar af stríði í Úkraínu 

Yfir 5 milljónir barna þurfa mannúðaraðstoð - Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi í fullum gangi 

Maxim, 4 ára, kom ásamt móður sinni Önnu frá borginniKherson í Úkraínu að rúmensku landamærunum í Isaccea. Á myndinni má sjá Maxim leika sér í tjaldi á barnvænu svæði (Blue dots) fyrir mæður og börn þeirra í Isaccea á meðan þau bíða eftir rútu á næsta áfangastað .

Nú í vikunni eru þau sorglegu tímamót að 100 dagar eru liðnir frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Á þeim tíma hafa næstum tvö af hverjum þremur börnum landsins neyðst til að flýja heimili sín, að minnsta kosti 262 börn hafa verið drepin og yfir 400 særst alvarlega. Hundruð skóla og meira en 250 heilsugæslustöðvar hafa eyðilagst í árásunum.  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlar að ríflega 5 milljónir barna þurfi nú á mannúðaraðstoð að halda, þar af þrjár milljónir barna innan Úkraínu. Samkvæmt tölum frá Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) eru að meðaltali tvö börn drepin á hverjum degi í Úkraínu, aðallega vegna sprengjuárása á þéttbýliskjarna.  Aðstæður barna í austur- og suðurhluta Úkraínu þar sem bardagar hafa harðnað versna með hverjum deginum sem líður.  

Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til að tryggja áframhald mikilvægu starfi UNICEF fyrir börn frá Úkraínu þá er hægt að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi hér.

Í Kharkiv, í norðaustur Úkraínu, stendur hinn 14 ára Yaroslav fyrri framan það sem eftir er af skólanum sínum en hann var eyðilagður í skotárás. „Skólinn okkar var brenndur,“ segir hann. Frá því að stríðið hófst í febrúar hafa hundruðir skóla víðsvegar um landið orðið fyrir barðinu á stórskotaliðum, loftárásum og öðrum sprengivopnum, á meðan aðrir eru notaðir sem upplýsingamiðstöðvar, skýli og birgðastöðvar.

Ítrekað ákall um vopnahlé 

„Þetta eru ömurleg tímamót. Hundrað dagar af stríði þar sem lífi milljóna barna hefur verið splundrað og heimili og skólar lagðir í rúst. Börn þurfa vopnahlé og frið og brýna aðstoð til að vinna úr áföllum sínum. Án tafarlauss vopnahlés munu börn frá Úkraínu halda áfram að þjást og afleiðingar stríðsins munu einnig halda áfram að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir börn í neyð um allan heim,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.   

UNICEF varar við þeim skelfilegu afleiðingum sem stríðið hefur á öryggi barna. Börn sem eru á flótta undan stríði eru í verulegri hættu á að verða viðskila við fjölskyldur sínar og eiga hættu á að verða fyrir ofbeldi, misnotkun og mansali. Flest barna á flótta hafa orðið fyrir djúpum áföllum og þurfa tafarlaust vernd, stöðugleika og sálrænan stuðning.  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur um árabil verið á vettvangi í Úkraínu og veitt þar nauðsynlega mannúðaraðstoð í austurhluta landsins. UNICEF er nú á vettvangi í Úkraínu og nágrannaríkjum og vinnur nú ásamt samstarfsaðilum við að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra að komast í öruggt skjól, tryggja aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, heilsugæslu, næringu, sálfræðiþjónustu, fjárhagsaðstoð og menntun.  

UNICEF ítrekar enn á ný ákall um tafarlaust vopnahlé í Úkraínu og krefst þess að virtar séu alþjóðlegar skuldbindingar um að vernda börn og tryggja að hjálparsamtök geti umsvifalaust fengið fullan aðgang að þeim svæðum þar sem börn eru í neyð og þurfa hjálp. 

Sofiya og Liza flúðu stríðið ásamt kennurum sínum og komu til Búkarest til að finna öruggari stað til að búa á. Fjölskyldur þeirra eru enn í Odessa og þær bíða eftir að komast aftur til foreldra sinna um leið og óhætt verður að snúa heim. Nú ganga þær í skóla í Búkarest, þar sem úkraínskir kennarar hafa skipulagt námskeið og skólatíma fyrir börn á flóta frá Úkraínu.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi í fullum gangi 

Gríðarlegt verk er fyrir höndum þar sem staða barna og fjölskyldna versnar með hverjum degi. UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun fyrir börn frá Úkraínu í febrúar og hefur henni verið mjög vel tekið.  

„Við erum full þakklætis yfir öllum þeim stuðningi sem almenningur og fyrirtæki á Íslandi hafa sýnt í verki síðustu 100 dagana. Það hafa verið fjölmargar skólasafnanir, styrktarsýningar og tónleikar, börn hafa haldið tombólu og selt listaverk fyrir jafnaldra sína í Úkraínu svo dæmi séu tekin. Þessi mikli stuðningur frá Íslandi hefur meðal annars nýst í að koma upp barnvænum svæðum þar sem börn og fjölskyldur þeirra á flótta fær aðstoð, nauðsynlega þjónustu og ráðgjöf,“ segir Steinunn. Neyðarsöfnunin er enn í fullum gangi og hægt er að leggja henni lið hér.  

Þökk sé slíkri aðstoð hafa UNICEF og samstarfsaðilar unnið dag og nótt að því að ná til barna í Úkraínu og í nágrannaríkjum til að veita þeim nauðsynlega mannúðaraðstoð.  

Innan Úkraínu má nefna að: 

  • Lyfjum og sjúkragögnum hefur verið dreift til rúmlega tveggja milljóna einstaklinga á stríðshrjáðum svæðum innan Úkraínu; 
  • Búið er að tryggja rúmlega tveimur milljónum einstaklinga aðgang að hreinu vatni á svæðum þar sem vatnsveitukerfi hafa skemmst; 
  • Meira en 610 þúsund börn og fjölskyldumeðlimir hafa fengið geðheilbrigðisþjónustu og sálrænan stuðning; 
  • Hátt í 300 þúsund börn hafa fengið námsgögn og aðstoð við að halda áfram námi; 

UNICEF hefur einnig sett upp 25 barnvæn svæði (e. Blue dots) á flóttaleiðinni frá Úkraínu og til nágrannaríkjanna, meðal annars Rúmeníu, Póllandi, Ítalíu, Búlgaríu, Moldóva og Slóvakíu. Þar styður UNICEF ríkisstjórnir og sveitastjórnir í að bregðast við þeim gífurlega fjölda fólks á flótta sem þurfa nauðsynlega þjónustu og vernd. Þetta felur meðal annars í sér: 

  • Að þjálfa landamæraverði að bera kennsl á fylgdarlaus börn og bregðast við gruni um mansal; 
  • Styðja börn á flótta til að halda áfram námi, með fjarkennslu eða með því að komast inn í skólakerfi landanna; 
  • Útvega bóluefni og sjúkragögn; 
  • Setja upp leik- og námsmiðstöðvar sem veita börnum öruggt umhverfi og hvíld; 
  • Veita fjölskyldum í sérstaklega viðkvæmri stöðu beinan fjárstuðning.  

 
Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til að tryggja áframhald á þessu mikilvæga starfi UNICEF þá er hægt að styðja neyðarsöfnunina hér:  

Sendu SMS-ið UNICEF í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 kr. 
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102060 kt. 481203-2950. 
Þá tökum við sömuleiðis við AUR greiðslum í númerið 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef. 

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn