01. júlí 2019

Yfirlýsing UNICEF á Íslandi vegna brottvísunar barna á flótta frá Íslandi

UNICEF á Íslandi minnir á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru lög á Íslandi og stjórnvöldum ber skylda til að meta það sem barni er fyrir bestu í ákvörðunum sem varða börn. Það á við um allar ákvarðanir hvort sem þær eru byggðar á lögum um útlendinga eða öðrum lögum eða varða einstaka börn eða börn sem hóp.

1. júlí 2019

UNICEF á Íslandi minnir á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru lög á Íslandi og stjórnvöldum ber skylda til að meta það sem barni er fyrir bestu í ákvörðunum sem varða börn. Það á við um allar ákvarðanir hvort sem þær eru byggðar á lögum um útlendinga eða öðrum lögum eða varða einstaka börn eða börn sem hóp.

Endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands frá Íslandi var hætt árið 2010 vegna þess að aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi og hefur ekki verið talin ástæða til að endurskoða þá afstöðu.[1] Hins vegar hefur endursendingum til Grikklands ekki verið hætt hafi börnin þegar hlotið alþjóðlega vernd þar í landi. Það er gert þrátt fyrir að alþjóðastofnanir upplýsi með reglubundnum hætti um slæma stöðu barna á flótta á Grikklandi.[2] Fjölskyldur búa víða í tjaldbúðum og aðeins rúmur helmingur barnanna fær aðgang menntun. Foreldrar hafa ekki möguleika á að sækja vinnu og sjá fjölskyldu sinni farborða. Í ljósi skyldu stjórnvalda til að meta það sem barni er fyrir bestu, er ekki ásættanlegt að hagsmunir barnanna séu metnir ólíkir á grundvelli lagalegrar stöðu þeirra eingöngu, það er hvort þau eru umsækjendur um vernd eða með stöðu flóttafólks, þegar enginn raunverulegur munur er möguleikum þeirra til lífs og þroska í Grikklandi.

Það sem af er árs 2019, hafa stjórnvöld afgreitt umsóknir 105 barna samkvæmt tölfræði á heimasíðu Útlendingastofnunar.[3] Þar segir að 30 börn hafi fengið vernd eða mannúðarleyfi hér á landi. 75 börnum hefur því verið synjað um vernd, og þar af fengu 15 börn synjun á grundvelli verndar í öðru landi.

Í síðustu viku afhenti UNICEF á Íslandi félags- og barnamálaráðherra skýrslu um verkefnið HEIMA: móttaka barna sem sækja um alþjóðlega vernd frá sjónarhóli barnsins. Í verkefninu var rætt við yfir þrjátíu börn um upplifun þeirra af komunni til Íslands. Eitt af því sem kom fram er skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Börn sem sækja um alþjóðlega vernd hafa ekki sama aðgengi að heilsugæslu á Íslandi og önnur börn. Þá reyndust börnin öll meðvituð um afleiðingar þess að fá annað hvort vernd eða synjun, og lýstu flest áhyggjum og vanlíðan yfir óvissunni sem fylgir umsóknarferlinu og mögulegum afleiðingum fyrir framtíð þeirra.

UNICEF á Íslandi skorar á stjórnvöld að taka móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd til endurskoðunar samhliða þeirri endurskoðun sem á sér stað í málefnum barna almennt. Þar er eitt af brýnustu verkefnunum að bæta stefnumótun, þekkingu og verkferla sem varða mat á því sem barni er fyrir bestu.

[1] Útlendingastofnun, 2016. Um endursendingar. Sótt 1. júlí 2019. https://www.utl.is/index.php/um-utlendingastofnun/greinar/749-um-endursendingar og Meðferð umsókna: https://utl.is/index.php/medhferdh-umsokna



[2] Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, 2019. Fact Sheet: Greece 1 – 31. Maí 2019. https://data2.unhcr.org/en/documents/download/70066 og Evrópuráðið, 2018. Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe: https://rm.coe.int/report-on-the-visit-to-greece-from-25-to-29-june-2018-by-dunja-mijatov/16808ea5bd



[3] Útlendingastofnun. Niðurstöður allra afgreiddra mála árið 2019 eftir kyni og aldri. Sótt 1. júlí 2019: https://www.utl.is/index.php/um-utlendingastofnun/toelfraedhi/toelfraedhi-verndarsvidhs










Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn