25. mars 2021

UNICEF hvetur vinnuveitendur til að sýna foreldrum og börnum skilning

UNICEF á Íslandi hvetur vinnuveitendur til að sýna foreldrum skilning í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða. UNICEF hvetur því vinnuveitendur til þess að setja hagsmuni barna í forgang og gefa foreldrum tækifæri til þess að sinna börnum sínum.

UNICEF á Íslandi hvetur vinnuveitendur til að sýna foreldrum skilning í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða. Í fyrsta sinn frá því að Covid-19 heimsfaraldurinn braust út hefur grunnskólum á Íslandi verið lokað. Ljóst er að áhrif þess á börn og foreldra þeirra eru mikil. UNICEF hvetur því vinnuveitendur til þess að setja hagsmuni barna í forgang og gefa foreldrum tækifæri til þess að sinna börnum sínum. Sóttvarnaraðgerðir voru hertar til þess að vernda börn gegn faraldrinum og nauðsynlegt að samfélagið sem heild taki höndum saman svo aðgerðirnar verði árangursríkar og að börn njóti umönnunar á meðan skólalokanir standa yfir.

UNICEF á Íslandi beinir eftirfarandi hagnýtum ráðum til vinnuveitenda:

  • Sendið skýr skilaboð til starfsmanna um að tillit verði tekið til foreldra meðan skólalokanir og sóttkví stendur yfir;
  • Forgangsraðið verkefnum og gerið raunhæfar væntingar;
  • Gætið þess að krefja starfsfólk ekki um að færa vinnutíma yfir á kvöldin og um helgar vegna anna yfir daginn;
  • Hugið að þeim hópum sem gætu verið í viðkvæmri stöðu.

Aukin hætta á smitum meðal barna mun hafa áhrif á upplifun barna af faraldrinum. UNICEF hvetur foreldra til þess að ræða við börn sín um mögulegar áhyggjur sem þau kunnu að hafa. Gera þarf ráð fyrir að jafnvel ung börn séu meðvituð um aukna hættu á smitum og gegna foreldrar og fjölskyldur barna mikilvægu hlutverki í að hlusta á áhyggjur þeirra og styðja við þau. Það er ekki nauðsynlegt að leysa úr þeim vandamálum eða áhyggjum sem koma upp, en góð hlustun er merki um samkennd og skilning. Rannsókn á líðan og skoðunum barna í fyrstu bylgju Covid-19 sýndi að börn á Íslandi voru afar meðvituð um faraldurinn og áhrif hans. Þau höfðu áhyggjur af fjölskyldum sínum og fannst félagslega einangrunin erfið. Þau kunnu hins vegar vel að meta að eiga meiri tíma með foreldrum sínum.

Á heimasíðu UNICEF á Íslandi má finna hagnýt ráð fyrir foreldra til þess að tala um COVID-19 við börn. Þar má einnig finna bækling um foreldrahlutverkið á tímum COVID-19.

Skólalokanir hafa áhrif á líf og velferð barna. UNICEF hvetur því stjórnvöld til þess að setja í forgang að opna aftur skóla með öruggum hætti um leið og færi gefst.

Fleiri
fréttir

27. mars 2024

Níu ár af stríði í Jemen: Milljónir barna vannærð
Lesa meira

15. mars 2024

Þrettán ár af stríði í Sýrlandi: UNICEF aðstoðaði milljónir í fyrra en þörfin aldrei meiri
Lesa meira

13. mars 2024

Sögulegur árangur í baráttunni gegn barnadauða
Lesa meira
Fara í fréttasafn