20. febrúar 2020

Veturinn er kominn í Sýrlandi: „Núna búum við í tjaldi“

Rúmlega hálf milljón barna í norðvesturhluta Sýrlands hefur neyðst til að flýja heimili sín síðan 1. desember síðastliðinn. Tugþúsundir barna og fjölskyldur þeirra búa nú í tjöldum og undir berum himni.

Öll börn eiga réttindi, öll börn skipta máli.

20. febrúar 2020 Rúmlega hálf milljón barna í norðvesturhluta Sýrlands hefur neyðst til að flýja heimili sín síðan 1. desember síðastliðinn. Tugþúsundir barna og fjölskyldur þeirra búa nú í tjöldum og undir berum himni. Harkaleg vetrartíð með frosti, snjó og slæmu veðri bítur nú börnin litlu í Sýrlandi og áframhaldandi átök og sprengjuregn kostar þau enn líf og limi. Frá byrjun árs 2020 er staðfest að 77 börn hafi látið lífið eða særst í átökum á svæðinu. Ástandið er ömurlegt á alla mælikvarða, meira að segja Sýrlands segir framkvæmdastjóri UNICEF.

„Við vorum á göngu í þrjá daga og núna búum við í tjaldi. Allar eigur okkar eru gegnsósa af rigningu og drullu,“ segir Nadia*, móðir sem neyddist nýlega til að flýja heimili sitt í Sarageb í Idlib og býr nú á Aleppo-svæðinu.

„Ég er með afar veikt barn með mér sem þarf nauðsynlega að komast í skurðaðgerð en ég hef ekki efni á því. Ef barnið mitt deyr er það eina sem ég get gert að grafa það.“

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, segir ástandið í norðvesturhluta Sýrlands nú slæmt sem aldrei fyrr, meira að segja á mælikvarða Sýrlands.

„Það er sótt að börnum og fjölskyldum úr öllum áttum. Þau þurfa að eiga við stríðsástandið, nístandi kulda, fæðuskort og erfið búsetuskilyrði. Við getum ekki leyft svona grímulausu skeytingarleysi gagnvart velferð, öryggi og heilsu barna og fjölskyldna að halda áfram,“ segir Fore.

Nú síðast í þessari viku fékk UNICEF tilkynningu um árásir á tvo starfandi spítala í vesturhluta Aleppo-héraðs. Önnur þessara stofnana var barna- og fæðingarsjúkrahús.

Ásamt samstarfsaðilum er UNICEF á vettvangi í Sýrlandi sem endranær og vinnur það gríðarlega mikilvægt neyðarstarf við afar erfiðar aðstæður í þágu barna og fjölskyldna þeirra. Þar skiptir stuðningur þinn sköpum í að hjálpa okkur að útvega hreinlætisaðstöðu, hreint drykkjarvatn, hlýjan fatnað fyrir veturinn, aðstoð við að sameina fjölskyldur sem hafa sundrast, meðhöndla vannærð börn, mennta börn og veita félags- og sálfræðiaðstoð svo fátt eitt sé nefnt.

„Blóðbaðið í norðvesturhluta Sýrlands heldur áfram að taka hræðilegan toll á börnum,“ segir Fore.

„Nú er mál að byssurnar þagni og átökin hætti í eitt skipti fyrir öll. Stríðandi fylkingum ber að verja börnin og nauðsynlega innviði fyrir sprengjuregni og kúlnahríð og leyfa mannúðarstarfi að eiga sér stað því þörfin er gríðarleg.“

*Nafni hefur verið breytt.

Við minnum á áframhaldandi neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Sýrlandi. Þú getur gert þitt til að fæða og klæða börnin í tjöldunum köldu. Sendu SMS-ið TEPPI í númerið 1900 (1.400 kr.)

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn