Vatn og hreinlæti
Hreint vatn
er réttur barna!
Þrátt fyrir góðan árangur veldur takmarkaður aðgangur að drykkjarhæfu vatni og skortur á hreinlætisaðstöðu því enn að þúsundir barna veikjast og deyja á degi hverjum. Á heimsvísu búa nú meira en 1,4 milljarðar manna á svæðum þar sem er mikill eða mjög mikill vatnsskortur. Það þýðir að 1 af hverjum 5 börnum í heiminum hafa ekki nóg vatn til að mæta daglegum þörfum sínum.
Óhreint drykkjarvatn er mikill skaðvaldur fyrir börn. Niðurgangspestir eru ein algengasta dánarorsök barna yngri en fimm ára í heiminum – og óhreint vatn veldur oftar en ekki slíkum pestum.
Fræðsla
bjargar mannslífum
Hvar sem neyðarástand brýst út vegna náttúruhamfara eða af manna völdum ber UNICEF ábyrgð á að tryggja aðgang að hreinlætisaðstöðu og drykkjarhæfu vatni. UNICEF starfar einnig að vatns- og hreinlætismálum í yfir 90 löndum um allan heim.
Áhersla er meðal annars lögð á að tryggja samfélögum og skólum hreinlætisaðstöðu og veita fræðslu um hreinlætisvenjur. Börn hljóta fræðslu um mikilvægi handþvottar eftir salernisferðir og áður en matvæli eru handleikin og fara með þann fróðleik inn á heimili sín. Þannig hefur fræðslan margfeldisáhrif út í samfélagið.
Hamfarahlýnun hefur gert þurrkatímabilið mun öfgafyllra í löndum víða um heim
Öll börn eiga rétt á hreinu vatni - það þarf að bregðast við strax!
Brunnar og salerni,
bæði er mikilvægt!
UNICEF vinnur að ótal verkefnum með mörgum samstarfsaðilum, fjölskyldum, samfélögum, ríkisstjórnum og öðrum hjálparsamtökum. Markmið okkar er að tryggja öllum börnum drykkjarhæft vatn, öruggt hreinlætisumhverfi, kynjaskipta salernisaðstöðu og aðstöðu til handþvotta. Auk þess leggur UNICEF mikla áherslu á að veita börnum fræðslu um gott hreinlæti, heilbrigt skólaumhverfi og hreinlæti við losun úrgangs.
UNICEF trúir því að það sé réttur allra heimsins barna að njóta góðrar heilsu. Hreint vatn og hreinlæti skiptir sköpum við að forðast sjúkdóma, sýkingar og þá skerðingu á lífsgæðum sem slíku fylgir. Með því að tryggja börnum drykkjarhæft vatn er lagður grunnur að betra lífi fyrir þau og fjölskyldur þeirra.
Hjálpaðu UNICEF að stuðla
að réttindum fyrir öll börn
UNICEF nýtur mikils trausts og leggur áherslu á víðtæka samvinnu við yfirvöld, félagasamtök, samfélög og börnin sjálf. Við gegnum leiðandi hlutverki í hjálparstarfi fyrir börn og erum því í einstakri stöðu til að þrýsta á um stórfelldar breytingar sem hafa áhrif á heimsvísu. Í öllu okkar starfi treystum við eingöngu á frjáls framlög.
Mánaðarlegar gjafir heimsforeldra gera UNICEF kleift að bregðast samstundis við þegar neyðarástand brýst út, vera áfram til staðar fyrir börn eftir að kastljós fjölmiðla er farið annað, sinna hjálparstarfi á svæðum sem njóta engrar fjölmiðlaathygli, skipuleggja hjálparstarf yfir lengri tíma og beita sér á heimsvísu. Með þinni hjálp vinnum við að því að gæta allra barna.