03. mars 2025

UNICEF: Skelfilegar afleiðingar fyrir börn að loka á mannúðaraðstoð á Gaza

Vopnahlé var og er nauðsynleg líflína fyrir börn víðsvegar um Gaza

Eyðileggingin er gríðarleg eins og sjá má hér á þessari mynd frá Jabalia í norðurhluta Gaza. Mynd: UNICEF/UNI751091/Nateel

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, varar við að það muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir börn og fjölskyldur í neyð að loka á afhendingu mannúðaraðstoðar og hjálpargagna á Gaza líkt og tilkynnt var um í gær.

„Þessar takmarkanir á aðstoð sem tilkynnt var um í gær munu stefna lífsbjargandi verkefnum í voða,“ segir Edouard Beigbeder, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum. „Það er bráðnauðsynlegt að þetta vopnahlé– sem var líflína fyrir börn– haldi áfram og að flæði neyðaraðstoðar haldi áfram svo unnt sé að skala upp mannúðaraðgerðir.“  

Í fyrsta fasa vopnahlésins gátu UNICEF og samstarfsaðilar fært börnum á Gaza nauðsynleg hjálpargögn og mannúðaraðstoð. Á tímabilinu 19. janúar til 28. febrúar fóru nærri 1.000 flutningabílar fullir af hjálpargögnum inn á svæðið með hreint vatn, lyf, sjúkragögn, bóluefni, næringarfæði og fleira. Var það þreföldun á því magni sem UNICEF gat flutt inn sex vikurnar þar á undan.

Ástand barna enn skelfilegt

Þrátt fyrir mikla aukningu á þessu tímabili í afhendingu neyðaraðstoðar eru aðstæður og ástand barna enn skelfilegt. Sjö nýburar hafa látið lífið af völdum ofkælingar bara síðastliðna viku. Það er hryggileg staðreynd að vita að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessi dauðsföll ef aðgengi hefði verið að hlýjum fatnaði, teppum, skjóli eða læknisaðstoð, en í senn áminning um mikilvægi þess að slíkt aðgengi sé tryggt.

Fjölskyldur á Gaza líða mikinn skort og vantar mat, lyf og húsaskjól. Aðeins 19 af 35 sjúkrahúsum eru starfhæf að hluta til og heilbrigðiskerfið komið langt umfram þolmörk.

Þetta hefur UNICEF gert í þágu barna

Frá upphafi vopnahlésins nú hafa UNICEF og samstarfsaðilar okkar unnið að því að skala upp mannúðarstarf á vettvangi. Meðal annars með því að:

·       Útvega hlý föt fyrir 150.000 börn og 245.000 tjalddúka fyrir tímabundið húsaskjól.

·       Ná til rúmlega 25.000 einstaklinga með nauðsynlega læknisþjónustu.

·       Auka daglega vatnsdreifingu fyrir nærri 500.000 einstaklinga í afskekktari svæðum, auk vinnu við að lagfæra skemmda vatnsveituinnviði.

·       Meðhöndla 2.600 börn sem glíma við bráðavannæringu.

·       Veita rúmlega 195.000 einstaklingum beinan fjárhagslegan stuðning í mannúðartilgangi.


Þá er ótalið að í liðinni viku lauk bólusetningarherferð gegn mænusótt sem UNICEF og samstarfsaðilar stóðu að þar sem náð var til 600.000 barna auk þess sem minnst 14.000 börn fengu reglubundna bólusetningu til að koma í veg fyrir dreifingu lífshættulegra smitsjúkdóma.

„Á sama tíma og vopnahlé hefur gert okkur kleift að stórauka lífsbjargandi neyðaraðstoð okkar er eyðileggingin á Gaza ólýsanlega mikil. Þetta vopnahlé verður að halda og frekari neyðaraðstoð verður að tryggja til að koma í veg fyrir enn fleiri dauðsföll,“ segir Beigbeder.

Smelltu hér til að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza.

Fleiri
fréttir

03. mars 2025

Þingmenn föndra fyrir málefni barna
Lesa meira

03. mars 2025

UNICEF: Skelfilegar afleiðingar fyrir börn að loka á mannúðaraðstoð á Gaza
Lesa meira

28. febrúar 2025

Stríðið í Líbanon hafði skaðleg áhrif á líðan, næringu og menntun barna
Lesa meira
Fara í fréttasafn