29. janúar 2019

UNICEF sendir frá sér alþjóðlega neyðaráætlun

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendir í dag frá sér alþjóðlega neyðaráætlun fyrir árið 2019. Þar kemur fram að eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum býr á svæði þar sem geisar stríð eða aðrar hörmungar. Milljónir barna skortir öryggi og vernd sem setur framtíð þeirra í mikla hættu.

29. janúar, 2019

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendir í dag frá sér alþjóðlega neyðaráætlun fyrir árið 2019. Þar kemur fram að eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum býr á svæði þar sem geisar stríð eða aðrar hörmungar. Milljónir barna skortir öryggi og vernd sem setur framtíð þeirra í mikla hættu.

„Börn eiga aldrei sök í stríð en það eru þau sem bera mestan skaða í átökum. Árásir á börn og almenna borgara hafa haldið áfram án því er virðist nokkurrar iðrunar stríðandi aðila og milljónir barna þjást skelfilega vegna þess andlega og líkamlega ofbeldis sem þau hafa orðið fyrir,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Í neyðaráætlun UNICEF kemur fram að 34 milljónir barna skortir aðgengi að barnavernd og annarri mikilvægri þjónustu og því hafa samtökin sett sér metnaðarfull markmið til að tryggja öryggi þeirra og vernd. "Þegar börn til dæmis hafa ekki örugga staði til að leika sér á, þegar börnum er rænt og þau þvinguð í hermennsku, þegar þau geta ekki sameinast fjölskyldum sínum eða þau eru hneppt í varðhald þá eru réttindi þeirra gróflega brotin. Ef þessi börn fá ekki sálræna aðstoð og annan stuðning til að geta unnið úr áföllum sínum munu sár þeirra seint gróa," segir Bergsteinn.

Afmæli Barnasáttmálans í skugga átaka og ofbeldis

Á þessu ári fagnar Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 30 ára afmæli sínu og 70 ár er síðan Genfarsáttmálinn tók gildi. Það er því sorglegt frá því að segja að á árinu 2019 eiga fleiri átök sér stað innan landa eða milli ríkja en á nokkrum öðrum tíma síðustu þrjá áratugi. Vaxandi ofbeldi og árásir hafa stóraukið þörfina á neyðararaðstoð og átök sem hafa varað í fleiri ár, eins og til dæmis í Jemen, Sýrlandi, Lýðveldinu Kongó, Nígeríu og Suður-Súdan, halda áfram að hafa djúpstæð áhrif á börn og ógna lífi þeirra á hverjum degi.

Starf UNICEF og samstarfsaðila á sviði barnaverndar er gífurlega mikilvægt, sérstaklega í þessum aðstæðum, og neyðaráætlunin gerir ráð fyrir að ná til tugmilljóna barna. Verkefni UNICEF á sviði barnaverndar fela meðal annars í sér að koma í veg fyrir og bregðast við hvers kyns misnotkun, vanrækslu og ofbeldi gegn börnum. UNICEF vinnur einnig að því að styðja börn sem hafa verið leyst undan hermennsku, sameina börn fjölskyldum sínum og veita þeim og fjölskyldum sínum sálræna aðstoð.

UNICEF ítrekar að alþjóðasamfélagið þurfi að taka þátt í þessari baráttu og skuldbinda sig af fullri alvöru til að vernda börn í neyð gegn ofbeldi og annarri misbeytingu. Nauðsynlegt er að hjálparstofnanir hafi óheft aðgengi að þeim börnum sem þurfa hjálp og eru í hættu og að stríðandi aðilar virði alþjóðlega mannréttindasamninga, mannúðarlög og axli ábyrgð.

„Það þarf að gera mun meira til að vernda börn gegn árásum og ofbeldi. Ef við bregðumst þessum börnum, ef okkur tekst ekki að stöðva ofbeldið og árásirnar gegn þeim, og ef gerendur eru ekki látnir axla ábyrgð, þá er hætta á að börn vaxi úr grasi og líti á ofbeldi sem eðlilegan hluta lífsins. Það er hætta á að þau upplifi ofbeldi sem eitthvað sem samfélagið samþykkir og sé jafnvel óhjákvæmilegt. Ekkert barn ætti að vera í slíkri stöðu,“ segir Bergsteinn.

Neyðaráætlunin nær til 59 landa um allan heim

UNICEF vinnur á átaka- og hörmungasvæðum út um allan heim og sinnir neyðaraðstoð við oft mjög erfiðar aðstæður. Það er með hjálp heimsforeldra og þeirra sem hafa stutt neyðaraðgerðir UNICEF sem samtökunumum hefur tekist að veita milljónum barna hjálp, koma í veg fyrir dauðsföll og sjúkdóma og hjálpa börnum í neyð að halda áfram í námi.

Sem dæmi um árangur neyðaraðgerða UNICEF má nefna að á fyrstu tíu mánuðum ársins 2018 fengu 2,6 milljónir barna meðferð gegn bráðavannæringu, 4,7 milljónir barna voru bólusett gegn mislingum, 5,9 milljónir barna fengu aðgengi að menntun og 35,3 milljónum var tryggt hreint drykkjarvatn.

UNICEF og samstarfsaðilar stefna að því ná til enn fleiri barna á þessu ári. Neyðaráætlun UNICEF fyrir 2019 gerir ráð fyrir að ná til 41 milljóna barna í 59 löndum, meðal annars með því að:

  • Ná til 10,1 milljón barna með formlegri eða óformlegri grunnmenntun;
  • Bólusetja 10,3 milljón börn gegn mislingum;
  • Tryggja 43 milljónum manns aðgengi að hreinu vatni;
  • Veita yfir 4 milljónum barna sálrænan stuðning;
  • Meðhöndla 4,2 milljónir barna gegn alvarlegri bráðavannæringu.

Samhliða neyðaráætluninni sendir UNICEF frá sér alþjóðlegt ákall eftir stórauknum fjárstuðningi til þess að hægt sé að ná til allra þeirra barna sem þurfa lífsnauðsynlega aðstoð. Þar bera hæst neyðaraðgerðir UNICEF í Sýrlandi og nágrannaríkjunum, sem eru þær umfangsmestu sem samtökin hafa ráðist í, auk neyðaraðstoðar í Jemen, Lýðveldinu Kongó og Suður-Súdan.

Neyðaráætlun UNICEF fyrir 2019 má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn