19. febrúar 2020

UNICEF, WHO og The Lancet: Erum að bregðast börnunum og þurfum að skapa framtíð sem hæfir þeim

Engin þjóð í heiminum er með fullnægjandi hætti að verja heilsu, umhverfi og framtíð barna samkvæmt nýrri tímamótaskýrslu nefndar skipaðri 40 sérfræðingum í málefnum barna og unglinga um allan heim

19. febrúar 2020 Engin þjóð í heiminum er með fullnægjandi hætti að verja heilsu, umhverfi og framtíð barna samkvæmt nýrri tímamótaskýrslu nefndar skipaðri 40 sérfræðingum í málefnum barna og unglinga um allan heim. Nefndin var sett á laggirnar af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), UNICEF og hinu virta læknariti The Lancet og er skýrslan afrakstur tveggja ára vinnu.

Skýrslan ber yfirskriftina A Future for the World‘s Children? og er sú fyrsta sinnar tegundar sem skoðar stöðu heilsu og velferðar barna í löndum heimsins, meðal annars með tilliti til loftlagsbreytinga og annarra utanaðkomandi þátta sem nútímabörnum stafar ógn af. Skýrslan er því býsna svört. Þar segir að heilsu og framtíð allra barna og ungmenna sé ógnað af vistfræðilegri ósjálfbærni, loftslagsbreytingum og óheiðarlegri markaðssetningu stórfyrirtækja sem halda óhollu skyndibitafæði, sykruðum drykkjum, áfengi og tóbaki að börnum heimsins.

„Þrátt fyrir framfarir í heilsuvernd barna og unglinga síðustu 20 ára þá er okkur hætt að miða áfram í þessum efnum og erum komin í bakkgír,“ segir Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands og annar formanna nefndarinnar.

„Áætlað hefur verið að um 250 milljónir barna undir fimm ára aldri í lág- og millitekjuþjóðum muni ekki ná viðunandi þroskamarkmiðum miðað við mælikvarða okkar á vaxtarröskun og fátækt. En það sem verra er þá standa öll börn heimsins nú frammi fyrir hreinni ógn við tilvist sína vegna loftslagsbreytinga og skaðlegra áhrifa frá markaðsöflum. Þjóðir heimsins þurfa að endurhugsa algjörlega nálgun sína í heilsuvernd barna og ungmenna til að tryggja að við pössum ekki aðeins upp á börnin í dag heldur komandi kynslóðir einnig.“

Í skýrslunni, sem er umfangsmikil, er að finna nýja alþjóðlega vísitölu 180 þjóða þar sem bornir eru saman mælikvarðar á hvernig börn dafna út frá lífslíkum, velferð, heilsu, menntun, næringu, sjálfbærni og yfirliti yfir losun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi landi og misskiptingu.
Þegar einungis er litið til hefðbundinna velferðarviðmiða eins og heilsu, menntunar, næringar og barnadauða (e. survive and thrive mælikvarða) þá trónir Noregur í efsta sæti, Suður Kórea í öðru og Holland í þriðja. Ísland er í níunda sæti eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Verst er staðan hjá Mið-Afríkulýðveldinu, Tsjad, Sómalía, Níger og Malí.

En þegar losun gróðurhúsalofttegunda miðað við höfðatölu í hverju þessara topplanda eru tekin með í reikninginn yfir sjálfbærni þá hrapa þau niður listann. Noregur fer úr fyrsta sæti í það 156. Suður-Kórea úr öðru sæti í það 166. og Holland niður í 160. sæti. Ísland fer úr 9. sæti í 163. sæti og er ástæðan fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda hér er skv. skýrslunni 283% umfram losunarmarkmiðin sem sett hafa verið fyrir árið 2030. Í stuttu máli, ríku löndin eru að menga of mikið.

Skýrslan bendir á að á meðan fátækari lönd þurfi vissulega að gera meira til að bæta lífslíkur og heilsuvernd barna sinna þá sé það staðbundnari vandi á meðan óhófleg losun gróðurhúsalofttegunda meðal ríkari þjóða sé ógn við framtíð barna um allan heim. Miðað við núverandi spár fer hnattræn hlýnun yfir 4°C árið 2100 sem myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir allt líf á jörðu.

„Rúmlega tveir milljarðar manna búa í löndum og við aðstæður þar sem neyðarástand, átök og náttúruhamfarir, sem tengja má hnattrænni hlýnun, hindra þróun,“ segir Awa-Coll-Seck, heilbrigðisráðherra Senegal og annar formanna nefndarinnar.

„Á meðan fátækustu þjóðirnar losa flestar minnst af koltvísýring þá koma afleiðingar hnattrænnar hlýnunar verst niður á mörgum þeirra. Að byggja upp betri og viðunandi aðstæður fyrir börn til að lifa og blómstra innanlands á ekki að kosta það að grafið sé undan framtíð barna á heimsvísu.“

Fram kemur í skýrslunni að einu löndin, sem eru á réttri leið með að ná losunarmarkmiðum sínum miðað við höfðatölu fyrir árið 2030 og eru líka á topp 70 yfir þjóðir þar sem börn lifa og dafna best, séu Albanía, Armenía, Grenada, Jórdanía, Moldóva, Srí Lanka, Túnis, Úrúgvæ og Víetnam.

Skýrslan beinir einnig kastljósinu að þeirri ógn sem börnum stafar af skaðlegri markaðssetningu fyrirtækja. Rannsóknir benda til að börn í ákveðnum löndum sjái allt að 30 þúsund auglýsingar á ári, bara í sjónvarpi.

Í Bandaríkjunum er áætlað að rafrettuauglýsingar hafi náð til rúmlega 24 milljóna ungmenna á síðustu tveimur árum sem er aukning um 250 prósent.

Prófessorinn Anthony Costello, einn höfunda skýrslunnar, segir að tilraunin með að markaðurinn hafi eftirlit með sjálfum sér hafi misheppnast hvað þetta varðar.

„Rannsóknir í Ástralíu, Kanada, Mexíkó, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum – svo dæmi séu tekin– sýna að þegar markaðurinn setur sér sjálfur reglur hindrar það ekki að auglýsingum sé beint að börnum. Sem dæmi má nefna þá var það þannig í Ástralíu, þrátt fyrir að iðnaðurinn hafi skuldbundið sig til að hafa eftirlit með þessum hlutum, að rúmlega 50 milljónir áfengisauglýsinga urðu á vegi barna og ungmenna á einu ári við að horfa á íþróttaviðburði í sjónvarpi eins og fótbolta, krikket og ruðning. Tölurnar eru vafalaust miklu verri enda höfum við litlar upplýsingar um aukin umsvif á samfélagsmiðlum og því auglýsingaefni sem beint er að börnum og ungmennum þar.“

Og það er meira en bara nikótín og áfengi sem haldið er að börnum. Markaðssetning á skyndibitafæði og sykruðum drykkjum á stóran þátt í yfirþyngd og offitu hjá börnum. Tölfræðin sýnir að fjöldi barna og ungmenna í offitu ellefufaldaðist á tímabilinu 1975 til 2016.

Til að verja börn kalla skýrsluhöfundar eftir nýrri alþjóðlegri hreyfingu sem drifin verði áfram fyrir börn. Þau nefna sem dæmi:

  • Stöðva verður losun koltvísýrings (CO2) strax til að tryggja börnum framtíð á þessari plánetu.
  • Setja börn og ungmenni forgrunn þessarar vinnu okkar við að ná sjálfbærri þróun.
  • Móta þarf nýja stefnu og fjárfesta í öllum greinum tengdum heilsu barna og réttindum.
  • Leyfa röddum barna að heyrast í ákvarðanatöku um framtíð þeirra.
  • Stjórnvöld verða að taka fastar á skaðlegri markaðssetningu í hverju landi fyrir sig sem yrði studd með nýrri valkvæðri bókun við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Dr. Richard Horton, ritstjóri The Lancet, segir að nú sé tækifærið.

„Sönnunargögnin liggja fyrir. Verkfærin eru til staðar. Frá þjóðarleiðtogum til sveitarstjórna, frá leiðtogum Sameinuðu þjóðanna til barnanna sjálfra þá kallar þessi nefnd eftir dögun nýrra tíma í heilsu barna og ungmenna. Það mun útheimta hugrekki og staðfestu til að ná settu marki. Þetta er stærsta prófraun okkar kynslóðar,“ segir Horton.

„Frá loftslagsbreytingum, offitu og skaðlegri markaðssetningu standa börn um allan heim frammi fyrir ógnum sem þóttu óhugsandi fyrir nokkrum kynslóðum síðan,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF. „Það er tími til kominn að endurhugsa heilsuvernd barna, þar sem börn, þeirra hagur og það sem þeim er fyrir bestur verður sett ofan á í allri ákvarðanatöku stjórnvalda.“

„Þessi skýrsla sýnir að leiðtogar heimsins eru of oft að bregðast börnum og ungmennum. Þeim er að mistakast við að vernda heilsu þeirra, réttindi og verja plánetuna þeirra.“ Segir Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. „Þetta verður að vera vakningin fyrir allar þjóðir að fjárfesta í heilsu og framtíð barnanna og tryggja að raddir þeirra heyrist, réttindi þeirra séu virt og stefnt verði að því að skapa framtíð sem hæfir börnum.“

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir um niðurstöðurnar:

„Samkvæmt öllum hefðbundnum mælikvörðum er gott að vera barn á Íslandi eins og niðurstöður skýrslunnar sýna. Börn hafa hér öll tækifæri til að blómstra og dafna. Þar sem við erum hins vegar að bregðast börnum, líkt og hinar ríku þjóðirnar, er hversu mikið við mengum miðað við höfðatölu. Þar þurfum við að grípa til tafarlausra aðgerða og gera meira enda eigum við langt með að ná þeim losunarmarkmiðum sem sett hafa verið fyrir árið 2030. Í þessari skýrslu er litið lengra en bara til stöðunnar eins og hún er í dag. Hér er stóra myndin skoðuð og tekið með í reikninginn sjálfbærni okkar og framtíð plánetunnar fyrir komandi kynslóðir. Við þurfum að skuldbinda okkur til að skapa framtíð sem hæfir börnum og þar höfum við Íslendingar öll tækifæri til að vera í fararbroddi.“

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér á vefsíðu The Lancet.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn