Menu

Takk fyrir ómetanlegan stuðning!

Hlýja, gleði og hjálpsemi streymdi frá fólki á aðventunni

 

Sannar gjafir voru vinsælli en aldrei fyrr í desember og fjöldi fólks lagði neyðarsöfnunum okkar fyrir Sýrland og Nígeríu lið á aðventunni.

Alls seldust sannar gjafir fyrir yfir 27 milljónir króna árið 2016 og er það algjört met. Ríflega 22 milljónir króna söfnuðust auk þess fyrir Sýrland í desember. Við erum í skýjunum með þetta!

Mörg dæmi voru um að fólk gæfi allar jólagjafir sínar sem sannar gjafir, auk þess sem vinsælt var að gefa sannar gjafir í stað þess að senda jólakort. Í desember streymdu satt best að segja til okkar fallegar sögur af góðhjörtuðu fólki. Hér koma nokkur dæmi um frumlegar leiðir til að gera heiminn betri!

Körfubolti og möffins

Körfuknattleiksdeild UMFN ákvað að láta aðgangseyri af síðasta heimaleiknum sínum fyrir jólafrí fara í það að styrkja gott málefni og lagði neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Sýrland meðal annars lið.

„Það sem var einstakt við þennan leik var að leikmenn og þjálfarar beggja liða borguðu sig inn, dómarar, og stuðningmenn beggja liða borguðu sig líka inn. Þetta var alveg einstakt og allt þetta fólk á skilið að fá þakkir fyrir það að láta gott af sér leiða,“ segir Guðrún Hildur Jóhannsdóttir, hjá UMFN.

Restaurant Reykjavík ákvað að nota heldur þá upphæð sem færi í að gefa samstarfsaðilum sínum jólagjafir til þess að styrkja neyðarsöfnunina okkar fyrir Sýrland. Þau lögðu 300.000 kr inn hjá okkur á aðventunni.

Í Vík í Mýrdal seldu þau Tara Karítas Saíthong Óðinsdóttir, Kristófer Ek Saithong Óðinsson, Katla Þöll Þráinsdóttir og Arnfríður Mára Þráinsdóttir möffins á Regnbogahátíðinni í bænum til styrktar UNICEF á Íslandi. Frábært og skemmtilegt framtak hjá krökkunum!

Saman getum við gert heiminn betri

Einn dag í desember kom barnahópur inn úr dyrunum og gaf 40.000 kr úr klink-skál afa síns, en þetta gera börnin á hverju ári. Sannast þar að margt smátt gerir eitt stórt!

Fyrir jólin heyrðum við líka af honum Fannari Ásgrímssyni sem hefur sem verktaki beðið þá sem hann sendir reikninga að kaupa einfaldlega frekar sannar gjafir í stað þess að greiða sér laun. Hann fær þannig borgað með hjálpargögnum og lætur þar með aldeilis gott af sér leiða.

„Ég mæli alveg hiklaust með að fleiri aðilar taki við hluta af sínum greiðslum á þennan máta, það eru kostir við það. Í mínu tilfelli þá þarf ég ekki að borga bókaranum mínum fyrir að senda út reikning, þannig að það er ekkert umstang fyrir mig og þeir aðilar sem ég vinn fyrir fá að styrkja gott málefni í stað þess að borga reikning,“ segir Fannar.

Starfsfólk fjármálaskrifstofu Reykjavíkur ákvað að sleppa því að gefa hvert öðru pakka fyrir jólin og verja heldur fjármununum til hjálparstarfs. Þau lögðu heilar 88.000 krónur inn á neyðarreikninginn okkar vegna Sýrlands og munar þar aldeilis um minna.

Einnig má nefna að 10% af allri sölu í PopUp-búð úti á Granda hjá MINÖR Coworking fyrir jól rann í neyðarsöfnunina fyrir Sýrland.

Fjölmörg fyrirtæki styrktu okkur auk þess um háar fjárhæðir í desember. Öllum þessum aðilum og öllum þeim ótalmörgu sem ekki eru hér nefndir færum við okkar bestu þakkir fyrir stuðninginn!

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð