Menu

Staða barna í Sýrlandi aldrei jafnslæm og sex árum eftir að stríðið hófst

■ Aldrei hafa jafnmörg börn mátt líða jafnmikið fyrir stríðið og á seinasta ári ■ „Börn í landinu hafa sýnt ótrúlegt hugrekki“ ■ Milljónum barna verið veitt neyðarhjálp

15. mars 2017

Lífi barna í Sýrlandi hefur verið umturnað í stríðinu og þjáningar þeirra náðu nýjum hæðum í fyrra þegar ofbeldið í landinu stigmagnaðist. Nú sex árum eftir að stríðið hófst hafa aðstæður barna í landinu aldrei verið verri.

Eftir sex ár af stríðsátökum þurfa nærri sex milljónir barna á mannúðaraðstoð að halda. Það er tólfföldun frá árinu 2012. Milljónir barna hafa þurft að flýja að heiman og dæmi eru um börn sem hrakist hafa allt að sjö sinnum á milli staða. UNICEF var í Sýrlandi fyrir stríðið og er þar nú. Neyðaraðgerðirnar í Sýrlandi og nágrannaríkjunum eru þær umfangsmestu frá stofnun UNICEF fyrir sjötíu árum.

UNICEF náði í fyrra að skima nærri eina milljón barna í Sýrlandi fyrir vannæringu. Þau 460.000 börn sem greindust vannærð fengu í kjölfarið meðferð. Fleiri en ein milljón barna fengu sálrænan stuðning og 3,6 milljónir barna fengu aðstoð til að halda áfram námi.

Hægt er að styðja neyðaraðgerðirnar með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 kr) og styrkja á heimasíðu UNICEF á Íslandi.

Alls búa 280.000 börn á 13 svæðum í Sýrlandi sem enn er haldið í herkví. Eina leið hjálparsamtaka til að ná til þeirra er með bílalestum með hjálpargögn. Dæmi eru um að þær hafi verið stöðvaðar og samtökum þannig meinað að veita særðum og sjúkum hjálp. Þrátt fyrir þetta náði UNICEF í fyrra að koma hjálpargögnum til 820.000 manna sem haldið er í herkví, í alls 86 aðgerðum.

Börn eru hvergi örugg

Milljónir barna líða fyrir stríðið á hverjum einasta degi og börn eru hvorki örugg heima hjá sér, í skólum, á leiksvæðum, né á sjúkrahúsum. Í fyrra voru að minnsta kosti 338 árásir gerðar á sjúkrahús í Sýrlandi og heilbrigðisstarfsfólk. Alls voru 255 börn drepin í og við skóla. Fleiri börn voru drepin í Sýrlandi í fyrra en áður og fleiri þvinguð til að taka þátt í stríðinu.

Fyrir utan þau börn sem láta lífið af sárum sínum deyja börn í Sýrlandi vegna sjúkdóma sem undir venjulegum kringumstæðum hefði mátt koma í veg fyrir.

„Ástandið er skelfilegt og allar aðstæður á vettvangi mjög erfiðar. Það veitir okkur hins vegar von að sjá árangurinn af hjálparstarfinu. UNICEF hefur þegar náð að hjálpa milljónum og aftur milljónum barna. Það hefur meðal annars verið gert með aðstoð tugþúsunda Íslendinga, bæði heimsforeldra og allra þeirra fjölmörgu sem stutt hafa neyðarsöfnunina okkar,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

„Þrátt fyrir hörmungarnar gerast kraftaverk í Sýrlandi á hverjum degi og börn þar í landi hafa sýnt ótrúlegt hugrekki. Fleiri en 12.000 börn fóru til dæmis í fyrra yfir átakalínurnar til að taka lokapróf í skólunum sínum. Mörg fóru um langan veg og ferðuðust í marga daga til að ná að taka prófin. Börnin vilja læra og hafa sýnt gríðarlega þrautseigju, hafa jafnvel lært í skólum sem komið hefur verið upp í göngum neðanjarðar.“ 

Hættið að brjóta á börnum

UNICEF ákallar alla aðila stríðsins, þá sem hafa áhrif yfir þeim og alþjóðasamfélagið allt að tryggja tafarlausa pólitíska lausn á stríðinu í Sýrlandi. Enn fremur að hætta að brjóta á börnum – hætta að drepa þau, særa þau, fá þau til liðs við herflokka og hætta árásum á skóla og sjúkrahús. Hætta verður að halda byggðarlögum í herkví og veita þarf óheft aðgengi hjálparsamtaka að börnum í neyð, hvar sem þau eru í Sýrlandi.

UNICEF bendir enn fremur á mikilvægi þess að styðja við þau ríki og samfélög sem tekið hafa á móti flestu flóttafólkinu og halda áfram stuðningi við lífsnauðsynlegar aðgerðir UNICEF.

Hægt er að styðja neyðaraðgerðirnar hér og með því að senda sms-ið STOPP í nr 1900 (1.900 kr).

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð