08. september 2021

Skólalokanir auka ójöfnuð í Suður-Asíu

Lokanir á skólum vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafa skapað gríðarlega misskiptingu og ójöfnuð í námstækifærum barna í Suður-Asíu.

Joudi Al-Shekha,11 ára ásamt fjölskyldu sinni í Þýskalandi. Fjölskyldan flúði frá Sýrlandi í ágúst 2015 eftir að sprengja eyðilagði skólann hennar Joudi. Faðir hennar er ennþá í Sýrlandi en fjölskyldan átti ekki pening til að senda alla til Þýskalands.

9. september 2021 Lokanir á skólum vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafa skapað gríðarlega misskiptingu og ójöfnuð í námstækifærum barna í Suður-Asíu. Aðgerðir stjórnvalda til að auka fjarkennslu hafa borið takmarkaðan árangur. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á stöðu náms á Indlandi, í Pakistan, á Srí Lanka og Maldíveyjum.

Lokanir á skólum hafa raskað námi 434 milljóna barna í heimshlutanum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar UNICEF telur verulegur hluti nemenda og foreldra þeirra að börnin séu að læra mun minna en fyrir heimsfaraldurinn.

80 prósent barna á aldrinum 14-18 ára á Indlandi upplifa að þau séu að læra minna en þegar þau voru í skólastofum í eigin persónu. Á Srí Lanka segja 69 prósent foreldra að grunnskólabörn þeirra séu að læra minna eða umtalsvert minna en áður. Stúlkur, börn frá fátækum heimilum og fötluð börn eiga erfitt með fjarkennslufyrirkomulagið í þessum löndum.

Skaðar nám barna

„Hundruð milljóna barna í Suður-Asíu og kennarar þeirra hafa neyðst til að beita fjarkennslu í heimshluta þar sem netsamband er oft lítið eða lélegt og aðgengi að tæknibúnaði síður en svo á allra færi,“ segir George Laryea-Adjei, svæðisstjóri UNICEF í Suður-Asíu. „Meira að segja þó fjölskyldur hafi búnaðinn sem til þarf þá geta börnin ekki alltaf nýtt hann. Þetta skaðar nám barnanna verulega fyrir vikið.“

Á Indlandi hafa 42 prósent barna, á aldrinum 6-13 ára, ekki getað tekið þátt í fjarkennslu þegar skólum hefur verið lokað. Í Pakistan höfðu 23 prósent yngri barna engan aðgang að neins konar búnaði til fjarkennslu. Skólalokanir og afleiðingar hennar hafa því komið verst niður á efnaminni fjölskyldum.

Jafnvel þar sem tæki eru til staðar þá kom fram í rannsókn UNICEF að víða eru þau vannýtt og aðgengi barna að þeim takmörkuð. Í Pakistan höfðu til dæmis aðeins um 24 prósent barna, þar sem nothæfur tækjabúnaður til fjarkennslu var til staðar á heimilinu, aðgang að þeim búnaði þegar þau þurftu á að halda.

Missa tengsl við kennara

Rannsóknin sýndi einnig að regluleg samskipti nemenda og kennara hefði mjög jákvæð áhrif á gæði náms, sérstaklega hjá yngri börnum. Hins vegar sýndu niðurstöður rannsóknarinnar að flestir nemendur höfðu lítil sem engin samskipti átt við kennara sína eftir að skólum var lokað. Í einkagrunnskólum á Srí Lanka sögðust 52 prósent kennara hafa verið í samskiptum við nemendur sína fimm daga vikunnar, en þetta hlutfall fór niður í 8 prósent hjá kennurum í opinbera skólakerfinu.

„Það verður að vera forgangsatriði hjá öllum stjórnvöldum að opna skólana aftur á öruggan hátt. Það þarf að fjárfesta í menntun og tryggja að kennarar og skóli geti aðlagað sig öllum aðstæðum. Því betur sem sem kennarar eru þjálfaðir, útbúnir og njóta stuðnings í fjar- eða blandaðri kennslu, því betur munu þeir geta náð til allra nemenda sinna,“ segir Laryea-Adjei. Hann segir þetta bráðnauðsynlega fjárfestingu í framtíð barna nú þegar heimshlutinn býr sig undir næstu bylgjur COVID-19.

„Við þurfum að ráðast í uppbyggingu á kerfi sem getur staðið af sér alla þá storma sem í vændum eru og haldið námi barna gangandi, óháð aðstæðum.“

UNICEF kallar því eftir:

  • Að stjórnvöld forgangsraði í þágu öruggrar enduropnunar skóla, en tryggi einnig að börn geti haldið áfram að fá menntun af sambærilegum gæðum ef grípa þarf til fjarkennslu.
  • Að kennarar meti námsárangur og getu barna og tryggi að þau sem eftir hafa setið geti náð samnemendum sínum á sérstöku aðlögunartímabili náms.
  • Að stjórnvöld setji bólusetningu kennara í forgang.
  • Að stjórnvöld geri kennurum kleift að ná til barna og ungmenna sem hafa ekkert eða takmarkað aðgengi að tæknibúnaði, hvort heldur sem er snjalltæki, sjónvarp, útvarp eða í prenti.
  • Að stjórnvöld og styrktaraðilar verji og auki fjárfestingu í menntakerfinu á öllum stigum.
  • Að virkja opinberar stofnanir og einkageirann til samstarfs við stjórnvöld um að bæta netsamband og útbúa gott fjarkennsluefni á mörgum tungumálum sem sniðið er að þörfum nemenda.
  • Að skólastjórnendur og menntamálayfirvöld leiðbeini kennurum betur til að virkja samskipti þeirra við nemendur og nýta betur mismunandi kennsluvettvanga.
  • Að fjölskyldur og forráðamenn fái fullnægjandi stuðning og leiðsögn til að halda áfram námi heima fyrir þegar svo ber undir.

Lokanir skóla í Suður-Asíu hafa aukið enn á áður slæmt ástand í menntamálum þar. Fyrir heimsfaraldurinn gátu nærri 60 prósent barna í heimshlutanum ekki lesið eða skilið einfaldan texta fyrir tíu ára aldur. Þar að auki voru 12,5 milljónri barna á grunnskólaaldri og 16,5 milljónir barna á unglingastigi ekki í skóla.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn