22. nóvember 2016

Sameiginleg yfirlýsing

Stjórnvöldum á Íslandi ber að líta á málefni barna og barnafjölskyldna, sem leita alþjóðlegrar verndar eða sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst og fremst út frá réttindum barnanna. Stjórnvöldum ber að taka allar sínar ákvarðanir er varða börn í slíkum aðstæðum með það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi.

Birt: 22. nóvember 2016
Stjórnvöldum á Íslandi ber að líta á málefni barna og barnafjölskyldna, sem leita alþjóðlegrar verndar eða sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst og fremst út frá réttindum barnanna. Stjórnvöldum ber að taka allar sínar ákvarðanir er varða börn í slíkum aðstæðum með það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, er Íslandi skylt að virða og tryggja hverju barni innan sinnar lögsögu þau réttindi sem sáttmálinn kveður á um, án nokkurrar mismununar. Ekki má mismuna eftir þjóðerni, þjóðháttum eða félagslegri stöðu eða öðrum aðstæðum barna eða foreldra þeirra eða lögráðamanna.

Sömuleiðis er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá til þess að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.

Barnasáttmálinn gildir um öll börn sem eru stödd á yfirráðasvæði Íslands. Líka þau börn sem hingað flýja, með eða án foreldra, sem og þau börn erlendra foreldra sem fæðast hér á landi og sækja um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi.

Til þess að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir sem eru börnum fyrir bestu þurfa þau að vega og meta möguleg áhrif þeirra á líf barna í nútíð og framtíð, með hliðsjón af öðrum ákvæðum Barnasáttmálans, svo sem um rétt barna til að lifa og þroskast við bestu mögulegu aðstæður. Þá er sérstaklega mikilvægt að veita börnum tækifæri til að tjá sig og taka tillit til sjónarmiða þeirra, í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Í 22. grein sáttmálans segir: „Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.“

Barnasáttmálinn hefur verið lögfestur hér á landi. Ber því stjórnvöldum að fylgja ákvæðum hans þegar teknar eru ákvarðanir um það hvort veita eigi barni eða barnafjölskyldum alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi hér á landi. Sama á við þegar teknar eru ákvarðanir um brottvísun barna og fjölskyldna þeirra úr landi og framkvæmd slíkra gerða. Of mörg dæmi eru um það hér á landi að réttindi barna í hælismeðferð séu virt að vettugi.

Í ljósi stöðu barna sem vísað er úr landi og nýrra útlendingalaga, sem taka gildi þann 1. janúar 2017, áréttum við ofantalin, nauðsyn þess að vanda betur meðferð mála barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Við skorum á stjórnvöld að virða réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum og taka allar ákvarðanir með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Fleiri
fréttir

08. janúar 2025

Blóðug byrjun á árinu fyrir börnin á Gaza
Lesa meira

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira
Fara í fréttasafn