11. júní 2021

Óttarr Proppé nýr stjórnarformaður UNICEF á Íslandi

Óttarr Proppé, bóksali, tónlistarmaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra tók við sem formaður stjórnar UNICEF á Íslandi á ársfundi félagsins sem var haldinn í gær. Óttarr, sem hefur setið í stjórn UNICEF á Íslandi frá árinu 2019, tók við embættinu af Kjartani Erni Ólafssyni.

Óttarr Proppé, bóksali, tónlistarmaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra tók við sem formaður stjórnar UNICEF á Íslandi á ársfundi félagsins sem var haldinn í gær. Óttarr, sem hefur setið í stjórn UNICEF á Íslandi frá árinu 2019, tók við embættinu af Kjartani Erni Ólafssyni.

„Það er mikill heiður að vera treyst fyrir þessu hlutverki og að fá tækifæri til að leggja mitt á vogarskálarnar í þágu barna heimsins. UNICEF á Íslandi er öflugt félag sem býr yfir frábæru starfsfólki sem brennur fyrir málefninu. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hversu myndarlega Íslendingar hafa sýnt stuðning sinn í verki til að hjálpa börnum um allan heim og hlakka ég til að taka enn meiri þátt í þessu mikilvæga starfi,“ segir Óttarr.

Í stjórn UNICEF á Íslandi sitja ásamt Óttari þau Sigríður Thorlacius, Kjartan Örn Ólafsson, Guðrún Nordal, Jökull Ingi Þorvaldsson og Guðrún Hálfdánardóttir auk þriggja nýrra meðlima sem tóku sæti í stjórn í gær. Þau eru Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka; Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður Háskólans í Reykjavík og Sýnar og Jón Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar. Við bjóðum þau hjartanlega velkomin í hópinn.

Árið 2020 metár hjá UNICEF á Íslandi

Á ársfundinum, sem var haldinn í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna, kynnti Birna Þórarinsdóttir helstu niðurstöður úr starfsemi landnefndarinnar á árinu 2020 og ný ársskýrsla var gefin út. Tekjur UNICEF á Íslandi á árinu 2020 námu rétt tæpum 800 milljónum og enn eitt árið koma hlutfallslega hæst framlög til baráttu UNICEF frá Íslandi. Er það mikið til stuðningi Heimsforeldranna okkar að þakka, en yfir 80% af stuðningi til UNICEF koma frá Heimsforeldrum. Auk þess ber að þakka þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem studdu starf UNICEF með kaupum á Sönnum gjöfum og framlögum í neyðarsafnanir. Voru Kvika, Lindex og Te & Kaffi fremst í flokki samstarfsfyrirtækja árið 2020.

„Árið 2020 var engu líkt og neyð barna í heiminum jókst til muna vegna áhrifa kórónaveirunnar. Meira en 1,5 milljarður barna varð fyrir áhrifum skólalokana, 80 milljónir barna undir eins árs aldri fóru á mis við reglubundnar bólusetningar og efnahagsþrengingar og aukin fátækt heimila jók á hungur barna. Það verður kapphlaup næstu ára að koma í veg fyrir að afleiðingar kórónuveirunnar verði ekki áratuga bakslag í réttindum og velferð barna. Það var því ómetanlegt að finna fyrir slíkum stuðningi við starfið í fyrra. Nú sem aldrei fyrr skiptir ríkulegur stuðningur Íslendinga við börn heimsins miklu máli,“ sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Stærstum hluta framlaga var varið til reglubundins hjálparstarfs UNICEF í þeim löndum þar sem þörfin er mest og viðbragða við áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 á börn. Einnig studdi fólk á Íslandi dyggilega við börn í neyð í Jemen og söfnuðust samtals 22,5 milljónir í neyðaraðgerðir UNICEF þar í landi.

Öflugt innanlandsstarf í þágu barna á Íslandi

Það var mikið um að vera í innanlandsstarfinu okkar á árinu enda hafði heimsfaraldurinn áhrif hér á landi eins og annars staðar. UNICEF brást við ákalli stjórnvalda við upphaf heimsfaraldursins og tók þátt í að kanna stöðu viðkvæmra hópa barna. Áhersla var lögð á stöðu barna sem upplifa ofbeldi á heimilum sínum, börn sem sækja um alþjóðlega vernd og ungmenni í viðkvæmri stöðu.

Verkefnin Barnvæn sveitarfélög og Réttindaskólar stækkuðu mikið á árinu. Á árinu fór fjöldi sveitarfélaga sem taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög úr þremur í 11 og Akureyri hlaut viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag, hið fyrsta á Íslandi. Skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum sem vinna að því að verða Réttindaskólar og -frístundir UNICEF fjölgaði. Einn skóli hlaut viðurkenningu sem Réttindaskóli árið 2020, það var Giljaskóli á Akureyri. Fimm leikskólar í Kópavogi bættust í hóp þeirra leikskóla sem vinna að því að verða Réttindaleikskólar UNICEF.

Ungmennaráð UNICEF lét í sér heyra á árinu og stóð fyrir mótmælum gegn brottvísun barna með því að leggja einn bangsa fyrir hvert barn sem vísað var úr landi og neitað um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2019 fyrir framan nefndasvið Alþingis. Ungmennaráðið sendi einnig frá sér Heilræði og úrræði á tímum COVID-19 með það að markmiði að styðja við önnur ungmenni.

Að lokum má nefna að skýrsla frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna var kynnt 30. september 2020. Skýrslan er viðbótarskýrsla við fimmtu og sjöttu skýrslu íslenskra stjórnvalda til nefndarinnar og að henni stóðu níu félagasamtök. Þau félagasamtök sem stóðu að skýrslunni voru Barnaheill, Heimili og skóli, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði Kross Íslands, Samfés, UMFÍ, UNICEF á Íslandi, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið.

Áframhaldandi stuðningur frá stjórnvöldum

UNICEF er skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins við Barnahjálpina afar gott og náið. Íslenska ríkið er álitið fyrirmyndar styrktaraðili UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga (e. regular resources) og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. Kjarnaframlög eru ekki eyrnamerkt ákveðnum verkefnum og því gerir hátt hlutfall þeirra (130 milljónir króna) UNICEF kleift að sinna þróunar- og hjálparstarfi á svæðum sem eru ekki endilega í kastljósi fjölmiðla og umheimsins. Við færum íslenskum yfirvöldum hugheilar þakkir fyrir hönd þeirra ótal barna sem njóta góðs af stuðningnum. Þegar litið er á heildarframlag Íslands á liðnu ári, þ.e. frá bæði ríki og landsnefnd, erum við enn á ný einn stærsti styrktaraðili UNICEF á heimsvísu miðað við höfðatölu. Af því erum við afskaplega stolt og þakklát.

Nýjustu ársskýrslu UNICEF á Íslandi má lesa hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn