18. september 2019

Opið bréf til barna heimsins: „Barnæskan hefur breyst“

Langdregin stríðsátök, hamfarahlýnun, versnandi geðheilbrigði og rangar upplýsingar á Netinu eru meðal helstu ógna sem steðja að börnum veraldar í nánustu framtíð. Þetta kemur fram í opnu bréfi Henriettu Fore, framkvæmdastjóra UNICEF, til barna heimsins

18. september 2019 Langdregin stríðsátök, hamfarahlýnun, versnandi geðheilbrigði og rangar upplýsingar á Netinu eru meðal helstu ógna sem steðja að börnum veraldar í nánustu framtíð. Þetta kemur fram í opnu bréfi Henriettu Fore, framkvæmdastjóra UNICEF, til barna heimsins í tilefni að þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fore segir að enn ógni skortur á aðgengi að menntun, fátækt, ójafnrétti og fordómar velferð barna en heimsbyggðin þurfi að vera vakandi gagnvart nýjum og aðkallandi hættum.

„Ykkar kynslóð, barna í dag, stendur frammi fyrir nýjum áskorunum og meiri breytingum á heimsvísu en foreldra ykkar hefði getað órað fyrir,“ skrifar Fore og ávarpar börnin.

„Loftslagsbreytingar eru að aukast, ójafnrétti eykst og tæknin er sífellt að breyta því hvernig við sjáum og skynjum umheiminn. Fleiri fjölskyldur en nokkru sinni eru á faraldsfæti. Barnæskan hefur breyst og við þurfum að breyta nálgun okkur í takt við það.“

Í bréfi sínu dregur Fore fram átta vaxandi áskoranir sem börn heimsins standi frammi fyrir. Þau eru, langvinn stríðsátök, mengun og hamfarahlýnun, versnandi geðheilbrigði, fjöldafólksflutningar, ríkisfangsleysi, menntun sem hæfir nýjum tímum, gagnaréttur og netöryggi og loks falsfréttir og rangupplýsingar á Netinu.

Um átök bendir Fore á að fjöldi þjóða þar sem átök eiga sér stað hafi aldrei verið meiri síðan Barnasáttmálinn var samþykktur árið 1989. Eitt af hverjum fjórum börnum lifa við átök eða hamfarir.

Um loftlagsmál varar Fore við því að börn þurfi nú þegar að búa við að verið sé að eyðileggja Jörðina og að hamfarahlýnun ógni nú þegar þeim árangri sem náðst hefur við að auka líflíkur barna og þróunarsamvinnu síðustu þrjátíu árin.

UNICEF vinnur að því að milda áhrif loftlagskrísunnar um allan heim. Í Eþíópíu hefur UNICEF innleitt nýja tækni sem kortleggur grunnvatn og vinnur að því að þróa lausnir á svæðum þar sem viðvarandi vatnsskortur er. Í Malaví hefur UNICEF þróað umhverfisvænt sólarknúið kerfi til að bæta aðgengi að hreinu vatni í samfélögum. En meira þurfi til.

„Stjórnvöld og fyrirtæki þurfa með samstilltu átaki að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, þróa umhverfisvænni landbúnað, iðnað og samgöngukerfi og fjárfesta í skynsamlegri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa,“ segir Fore.

Getur skapað kynslóð sem treystir engu

Framkvæmdastjórinn lætur einnig í ljós áhyggjur sínar yfir því að meirihluti barna muni alast upp við stafrænt umhverfi sem byggt er að stórum hluta á og gegnsýrt af röngum upplýsingum. Eða það sem hún kallar „online misinformation.“ Auðvelt aðgengi að leiðum og efni þar sem raunveruleikinn hefur á einhvern hátt verið falsaður, afbakaður eða snúið á hvolf getur orðið til að grafa undan trausti á stofnanir og áður trausta upplýsingagjafa. Nefnir hún sem dæmi svokallaða „deep fake“ tækni sem notar gervigreind til að búa til afar raunverulegar falsmyndir og hljóð með tiltölulega einföldum hætti. Með tækninni er hægt að láta þjóðarleiðtoga segja og gera nánast hvað sem er með tilheyrandi hættum og misskilningi.

Rangupplýsingar geti að auki skilið börn eftir varnarlaus gagnvart misnotkun í gegnum netið af ýmsu tagi, skekkt umræðu og einhverjum samfélögum endurvakið banvæna sjúkdóma með því að ala á vantrausti í garð bólusetninga. Hættan sé að hægt verði að búa til heila kynslóð sem treysti ekki neinu. Til að bregðast við þessari ógn hefur UNICEF meðal annars ýtt úr vör fjölmiðlalæsisnámskeiðum á borð við Young Reporters-verkefninu í Svartfjallalandi. Það miðar að því að kenna ungu fólki að greina rangar upplýsingar, staðreyndakanna heimildir á netinu sem og hlutverk og tækni ábyrgrar blaðamennsku.

Sannleikurinn hefur ekki sjálfkrafa betur

„Við getum ekki lengur gengið að því sem vísu einfeldni okkar að sannleikurinn hafi sjálfkrafa yfirhöndina gegn lygum á þessum stafrænu tímum. Við verðum því sem samfélög að byggja upp leiðir til að vinna gegn þessu daglega flóði ósanninda og lyga á Netinu,“ segir Fore í bréfi sínu. „Við verðum að veita ungu fólki verkfærin og færnina til að skilja hverjum og hverju það getur treyst á Netinu.“

Fore lýkur loks löngu og ítarlegu bréfi sínu til barna heimsins með að minnast á að börn og ungt fólk hafi þegar stofnað hreyfingar víðs vegar um heiminn í leit að lausnum til að yfirstíga þær áskoranir sem þau standi nú þegar frammi fyrir og kallað eftir viðbrögðum þjóðarleiðtoga.

Bréf Henriettu Fore, framkvæmdastjóra UNICEF til barna heimsins má lesa í heild sinni á ensku hér á vef UNICEF.org.

Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF um allan heim. Á Íslandi eru yfir 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn