Næring

Hið ósýnilega

neyðarástand

Vannæring – það að vera illa nærður – orsakast ekki aðeins af ónógri fæðu heldur skapast ástandið fyrir tilstilli margra samverkandi þátta á borð við næringarsnauða fæðu, endurteknar sýkingar eða veikindi, vanrækslu, ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu og mengað drykkjarvatn. Vannæring er oft nefnd „hið ósýnilega neyðarástand“ þar sem skaðleg áhrif hennar eru oft aðeins toppurinn af ísjakanum.

Dauða milljóna barna á ári hverju má rekja til vannæringar en aðeins hluti þeirra á sér stað á svæðum þar sem stríð eða hungursneyð ríkir. Á mörgum svæðum er vannæring viðvarandi ástand þar sem börn verða fyrir skaðlegum áhrifum hennar strax í móðurkviði. Skortur á góðri næringu heldur áfram að gera þessum börnum erfitt um vik, gerir þau móttækilegri fyrir sjúkdómum og heftir líkamlegan og andlegan þroska þeirra.

Verið að athuga með vannæringu barns í Bardangaz, Chad.

Góð byrjun,

betra líf

UNICEF leggur ríka áherslu á þau réttindi barna að njóta góðrar næringar allt frá fæðingu. Brjóstagjöf skiptir höfuðmáli til þess að veita kornabörnum sem besta byrjun í lífinu. Auk þess að veita góða alhliða næringu styrkir brjóstagjöf ónæmiskerfi barnsins.
Óhreint drykkjarvatn getur haft í för með sér sjúkdóma eða valdið sýkingum sem eru sérstaklega hættulegar ungbörnum. UNICEF stendur fyrir fræðslu um brjóstagjöf þar sem mæður eru hvattar til að gefa börnum sínum eingöngu brjóstamjólk fyrstu mánuðina.

UNICEF starfar bæði með öðrum samtökum og stjórnvöldum við að sporna gegn vannæringu barna um allan heim. Reynsla og þekking UNICEF er mikilvæg til að koma auga á hættur sem þróast gætu yfir í neyðarástand og grípa tafarlaust til aðgerða. Þannig beindi UNICEF til dæmis sjónum heimsbyggðarinnar að Sahel-svæðinu í Vestur-Afríku þar sem hungursneyð var yfirvofandi. Fjölda næringarmiðstöðva var komið á fót og lífi ótal barna bjargað. Auðvelt er að meðhöndla börn sem þjást af vannæringu með vítamínbættri fæðu og bætiefnum. Lykilatriðið er samt sem áður að ná til þeirra sem allra fyrst. UNICEF veit að næring skiptir höfuðmáli svo börn geti vaxið, dafnað og lifað heilbrigðu lífi.

Vítamínbætt jarðhnetumauk gerir kraftaverk fyrir vannærð börn því með einungis þremur skömmtum á dag í fáeinar vikur geta þau náð fullum bata - Yemen 2021

Góð næring stuðlar að bjartri framtíð og það er bjargföst trú UNICEF að

öll börn eigi rétt á að lifa góðu lífi.

Hjálpaðu UNICEF að stuðla

að réttindum fyrir öll börn

UNICEF gegnir leiðandi hlutverki í hjálparstarfi fyrir börn og erum því í einstakri stöðu til að þrýsta á um stórfelldar breytingar sem hafa áhrif á heimsvísu. Í öllu okkar starfi treystum við eingöngu á frjáls framlög.

Mánaðarlegar gjafir heimsforeldra gera UNICEF kleift að bregðast samstundis við þegar neyðarástand brýst út, vera áfram til staðar fyrir börn eftir að kastljós fjölmiðla er farið annað, sinna hjálparstarfi á svæðum sem njóta engrar fjölmiðlaathygli, skipuleggja hjálparstarf yfir lengri tíma og beita sér á heimsvísu. Með þinni hjálp vinnum við að því að gæta allra barn

Komdu í hóp Heimsforeldra strax í dag!