14. febrúar 2022

Neyðin í Afganistan í myndum: Börn á vergangi í köldum vetri

Ríflega 13 milljónir barna í Afganistan þurfa á mannúðaraðstoð að halda og rúmlega milljón börn glíma við alvarlega bráðavannæringu.

14. febrúar 2022

Ríflega 13 milljónir barna í Afganistan þurfa á mannúðaraðstoð að halda og rúmlega milljón börn glíma við alvarlega bráðavannæringu. Meira en helmingur heimila glímir við margþætta fátækt og grunnþjónusta hins langhrjáða ríkis er í molum. Erfiður og kaldur vetur, náttúruhamfarir og neyðarástand í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur enn aukið byrði barna sem nú þurfa aðstoð sem aldrei fyrr. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur verið að störfum í Afganistan í 65 ár og mun aldrei gefast upp við að tryggja réttindi barna í Afganistan, skjól, hreint vatn, næringu og aðstoð.

UNICEF á Íslandi minnir alla á neyðarsöfnun okkar Ákall fyrir Afganistan. Þar sem þú getur lagt þitt af mörkum til að tryggja þessum börnum mat og skjól. Hér fyrir neðan, í máli og myndum, má sjá brot af þeim börnum sem þurfa á þínum stuðningi að halda.

Á myndinni hér fyrir ofan vefur Sadya (10 ára) hlýju teppi utan um tíu mánaða gamla systur sína, Sherin Gul, til að halda á henni hita. UNICEF veitti neyðaraðstoð, kom með hlý teppi og nauðsynjar eftir að tveir öflugir jarðskjálftar urðu í Bagdis-héraði í vesturhluta Afganistan um miðjan síðasta mánuð. 25 létu lífið og miklar skemmdir urðu á heimilum svo þúsundir barna og fjölskyldur þeirra áttu í engin hús að vernda.

„Allt er betra er ekkert,“ segir hinn 12 ára gamli Mehdi frá Kabúl sem ásamt ótalmörgum börnum og fjölskyldum þeirra fékk hlýjan vetrarpakka frá UNICEF í Afganistan nýverið. Veturinn er víða afar harður og kaldur í Afganistan en UNICEF er til staðar fyrir börnin í landinu.

Hinn 10 ára gamli Ezatullah ornar sér við lítinn eld í ísköldum afgönskum vetri. Hann býr í Shaydayee-búðunum fyrir afganska flóttamenn í Herar-héraði. UNICEF dreifir vetrarfatnaði til fjölskyldna í Afganistan, sem og víðs vegar annars staðar um heiminn.

Hin 4 ára gamla Rahima stendur í snjónum fyrir utan heimili hennar í Nuristan. Hún reynir að ylja sér á nefinu með höndinni. Fátækt, vannæring og alvarlegar aðstæður barna í Afganistan hafa aukist verulega síðustu mánuði. UNICEF hefur stigið inn með beina fjárstyrki til fjölskyldna sem verst standa í Afganistan.

Börn í tjaldi í Shaydayee-búðunum fyrir afganska flóttamenn. „Ég get ekki keypt brauð eða föt fyrir börnin mín,“ segir Sher Ahmad, faðir þessara barna hér fyrir ofan. Hann flúði ástandið í heimabæ sínum Bala Murghab í leit að vinnu og betra lífi fyrir fjölskylduna. Hann fann ekki það sem hann leitaði að en fær aðstoð frá UNICEF.

Sendu SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.900 kr) og hjálpaðu börnum í Afganistan.

Fyrir frjáls framlög til söfnunarinnar er bankanúmerið okkar:
701-26-102030 og kennitalan er: 481203-2950.

Aðrar styrktarleiðir og upplýsingar má finna hér á vef okkar.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn