09. maí 2018

UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen

Í dag hóf UNICEF á Íslandi neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen. Eftir margra ára átök ríkir gífurleg neyð í Jemen, einu fátækasta ríki heims, neyð sem hefur farið framhjá mörgum. Nú er svo komið að Jemen er einn versti staður í heimi til að vera barn og nánast hvert einasta barn í landinu þarfnast neyðaraðstoðar.

Í dag hóf UNICEF á Íslandi neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen. Eftir margra ára átök ríkir gífurleg neyð í Jemen, einu fátækasta ríki heims, neyð sem hefur farið framhjá mörgum. Nú er svo komið að Jemen er einn versti staður í heimi til að vera barn og nánast hvert einasta barn í landinu þarfnast neyðaraðstoðar.

Neyðarsöfnun UNICEF hófst með viðburði í Hafnarhúsinu þar sem gestir fengu að heyra áhrif stríðsins á börn í Jemen. Fjölmennt var á viðburðinum og voru gestir djúpt snortnir. Hægt er að styðja söfnunina með því að senda SMS-ið JEMEN í númerið 1900 eða leggja inn frjálst framlag hér. Fyrir 1900 krónur er t.d hægt að veita barni rúmlega tveggja vikna meðferð við vannæringu.

Yfirskrift neyðarátaks UNICEF er „Má ég segja þér soldið?“ sem vísar í algengt talmál barna. Börn eru helstu fórnarlömb átakanna í Jemen og fengu gestir í Hafnarhúsinu að heyra sögur þeirra í áhrifamiklu myndbandi sem sjá má hér.

„Við viljum vekja athygli á hörmungunum í Jemen með því að leyfa röddum barnanna að heyrast. Í stað þess að telja upp hrikalegar tölur og staðreyndir frá Jemen þá lýsa börnin því sjálf hvað þau hafa gengið í gegnum. Þetta eru raunverulegar sögur barna í Jemen sem hafa upplifað stríð sem heimurinn horfir framhjá,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

„Rúðurnar í húsinu okkar titra. Við erum alltaf svo hrædd við sprengjur á morgnana. Ég get ekki einu sinni farið út að kaupa nammi,“ segir Ammar, sex ára, í myndbandinu. „Einu sinni var lífið fullkomið í Jemen, en svo kom stríð. Vinir mínir voru drepnir. Þegar ég opna Facebook sé ég að fleiri vinir mínir hafa verið drepnir. Ég hata Facebook“, segir Adel sem hefur misst marga vini og fjölskyldumeðlimi í stríðinu.

Sögurnar eru margar og átakanlegar. „Það sem þessi börn eiga sameiginlegt er að þau hafa fengið nóg af stríði. Þau vilja fá að leika úti við vini sína í öryggi, fá að borða þar til þau eru södd, fara í skólann á morgnana og ekki heyra í sprengjum og byssum þegar þau reyna að sofna á kvöldin“, bætir Steinunn við.

Eftir margra ára átök þarfnast næstum hvert einasta barn í Jemen neyðaraðstoðar. Mörg þúsund börn hafa látið lífið eða verið limlest í borgarastríðinu og lífum og framtíð margfalt fleiri barna er ógnað. Innviðir landsins hafa verið eyðilagðir, aðgangur að hreinu vatni og næringu er takmarkaður, fjöldi opinberra starfsmanna hefur ekki fengið greidd laun í rúmt ár og heilbrigðiskerfið er að hruni komið. Í ofanálag braust út skæður kólerufaraldur í landinu á síðasta ári en fleiri en milljón tilfelli hafa verið greind.

„Ástandið er grafalvarlegt. Stríðið í Jemen er stríð gegn börnum. Á tíu mínútna fresti deyr barn í Jemen af orsökum sem hægt væri að fyrirbyggja. Ástandið er skelfilegt og börn eru í bráðri hættu. Við verðum að bregðast við, og það strax“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF er á vettvangi í Jemen og veitir neyðaraðstoð við gífurlega erfiðar aðstæður. Á síðasta ári hafa UNICEF og samstarfsaðilar meðal annars náð að:

  • Bólusetja 4.8 milljón börn gegn mænusótt;
  • ​Meðhöndla 82.000 börn við alvarlegri bráðavannæringu;
  • Tryggja milljónum manns aðgengi að hreinu drykkjarvatni;
  • Veita hundruð þúsunda barna sálræna aðstoð;
  • Komið upp barnvænum svæðum þar sem bráðabirgðaskólar hafa verið settir upp.

UNICEF kallar auk þess á alla aðila að átökunum sem og alþjóðasamfélagið að vinna tafarlaust að friðsamlegri lausn og binda enda á ofbeldið gegn börnum í Jemen. Við höfum einnig þrýst á að hjálparstofnunum sé tryggður óheftur aðgangur til þess að hægt sé að koma mat, vatni og lyfjum til fólks í landinu.
Það er með hjálp heimsforeldra og þeirra sem hafa stutt við neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen sem UNICEF hefur tekist að veita milljónum barna hjálp og staðið fyrir umfangsmiklum neyðaraðgerðum í landinu.

Hægt er að styðja neyðarsöfn­unina með því að senda sms-ið JEMEN í nr 1900, gefa með kred­it­korti hér eða leggja inn á reikn­ing 701-26-102050, kt 481203-2950.

Framlögin úr neyðarsöfnuninni munu fara í að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í Jemen, m.a að meðhöndla börn gegn vannæringu, tryggja vatns- og hreinlætisaðstöðu til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma, bólusetja börn gegn mænusótt, dreifa skólagögnum og setja upp barnvæn svæði þar sem kennsla getur farið fram og hægt er að veita börnum sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum sínum.

Kvika er styrktaraðili neyðarátaksins og velunnari heimsforeldra UNICEF á Íslandi.
Stúdíó Sýrland sá um hljóðsetningu á myndbandinu. Eftirtalin börn sáu um talsetningu: Auður Dóra Arnarsdóttir, Brynjar Örn Pálmason, Finnur Darri Gíslason, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Heiðar Þórðarson, Júlía Guðrún Lovísa Heine, Karen Ólöf Gísladóttir, Kolfinna Tía Steindórsdóttir, Margrét Friðriksdóttir og Tjaldur Wilhelm Norðfjörð.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn