28. febrúar 2020

Eldræða í Öryggisráðinu: „Milljónir sýrlenskra barna gráta í nótt vegna hungurs og kulda“

Eldræða Fore í Öryggisráðinu vakti mikla athygli en hér verður farið yfir það helsta sem hún kom inn á í tilfinningaríku ávarpi sínu.

28. febrúar 2020 „Sagan mun dæma okkur harkalega og það með réttu ef við gerum ekkert,“ sagði Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, í ávarpi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ástandið í Sýrlandi í gær. Eldræða Fore í Öryggisráðinu vakti mikla athygli en hér verður farið yfir það helsta sem hún kom inn á í tilfinningaríku ávarpi sínu.

„Nýtt ár, nýr áratugur. Nýr kafli í sýrlensku hamförunum sem skilið hafa land og þjóð eftir í eyðileggingu hins endalausa stríðs. Árið 2020 er tæplega tveggja mánaða gamalt og samkvæmt Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa hátt í 300 manns látið lífið í Idlib og Aleppo frá upphafi árs. Ástandið versnar á hverjum degi,“ sagði Fore í upphafi ræðu sinnar.

Hún minnti á að síðan í desember hefðu 900 þúsund manns, þar af hálf milljón barna, flúið heimili sín í norðvesturhluta Sýrlands. Það séu gríðarlegir fólksflutningar á skömmum tíma. Og í tilfelli margra fjölskyldna er þetta kannski í sjötta eða sjöunda skipti sem þau hafa mátt rífa sig upp og flýja.

„Tugþúsundir búa í bráðabirgðatjöldum, opinberum byggingum, undir berum himni og í hnipri undir trjám. Berskjölduð fyrir rigningu, snjó og frosti hins óvægna sýrlenska vetrar,“ sagði Fore og rifjaði upp nýlegar árásir á flóttamannabúðir í Idlib og á skóla og leikskóla í vikunni þar sem börn og kennarar létu lífið. Árásirnar væru hrottalegar og gjörsamlega óverjandi í alla staði. En lýsandi fyrir þann daglega hrylling, þá martröð sem saklausir borgarar í Sýrlandi þurfi að lifa við.

„Við höfum heyrt fregnir af börnum sem hafa frosið í hel. Þegar eldiviður klárast brenna fjölskyldurnar það sem þær finna. Plastpoka, rusl og húsgögn til að ná upp smá hita eða elda eitthvert smáræði ef svo ber undir. Í óformlegum nýbyggðum sem þessum eru konur og börn í sérstakri hættu gagnvart misnotkun og ofbeldi.“

Fore sagði að ofan á þetta allt saman þá væru jarðsprengjur og heimagerðar sprengjur um allt og að fólk væri að taka mikla áhættu með hverju skrefi. Hún útskýrði fyrir Öryggisráðinu að í norðvesturhluta Sýrlands hefðu 280 þúsund börn verið svipt menntun sinni og nærri tvö hundruð skólar væru óstarfhæfir, ónýtir eða skemmdir og nú notaðir sem skýli.

„Enn eitt áfallið fyrir von þessara barna og framtíð.“

Nær enginn aðgangur sé að heilsugæslu. Ýmist væri hún ekki til staðar eða orðin of dýr fyrir fólk. Sjúkrahús væru í skotlínu árásarmanna. Þurft hafi að leggja niður starfsemi 72 vegna átaka.

Og þetta sé bara í norðvesturhluta landsins. Þá eru óátalin áhrifin, eyðileggingin og neyðin víðs vegar um Sýrland vegna þessa níu ára stríðs sem engan enda virðist ætla að taka.

Af þeim 11 milljónum manna um allt Sýrland sem þarfnast mannúðaraðstoðar, segir Fore að helmingurinn séu börn. 6,5 milljónir Sýrlendinga upplifi hungur á hverjum degi. Eitt af hverju þremur sýrlenskum börnum eru ekki í skóla. 6,7 milljónir Sýrlendinga hafa flúið Sýrland síðan stríðið hófst og annar eins fjöldi hefur neyðst til að flýja heimili sín innanlands. Á síðustu níu árum hefur nær helmingur allra Sýrlendinga því neyðst til að flýja heimili sín á einhverjum tímapunkti. Þetta eru auðvitað sláandi tölur.

„Það sem meira er þá mælum við þetta alþjóðlega klúður í hversu margir saklausir borgar og börn hafa tapast á þessum tíma. Árið 2018 létust 1.100 börn í átökum. Það var blóðugasta einstaka árið frá því stríðið hófst. Síðasta ár var litlu skárra. 900 börn létust eða særðust. Þetta eru aðeins tilfellin sem við gátum staðfest. Raunverulegur fjöldi er miklu stærri.“

Fore sagði að UNICEF, systursamtök og samstarfsaðilar væru þó að gera allt sem þau gætu.

Á síðasta ári hefðu þau:

  • Leitað eftir vannæringu meðal 1,8 milljóna barna og mæðra.
  • Veit 2 milljónum manna heilbrigðisráðgjöf.
  • Tryggt 7,4 milljónum manna um allt Sýrland hreint vatn og hreinlætisþjónustu.
  • Veitt nærri 400 þúsund konum og börnum félags- og sálfræðiþjónustu til að hjálpa þeim að takast á við áfallið sem þau hafa upplifað.
  • Hjálpað 1,8 milljónum barna að halda áfram í námi.
  • Fært tugum þúsunda barna hlý vetrarföt og teppi.
  • Bólusett nærri 600 þúsund börn undir eins árs.

En þörfin og neyðin væri slík að erfitt sé að halda í við hana.

„Ég mun ferðast til Sýrlands og þessa svæðis um helgina og hitta þar stjórnendur og mannúðarteymin okkar á vettvangi til að sjá hvað meira þurfi til að mæta þessari brýnu þörf,“ sagði Fore.

„Við vitum að það vantar meira fjármagn og hjálpargögn til að bæta líf þessa fólks og gefa sýrlensku samfélagi tækifæri á friðsamlegri framtíð. En herra forseti, við þurfum líka að þetta Öryggisráð og aðildarríki þess standi upp og taki afstöðu með börnum Sýrlands og tali einni sameinaðri röddu í þeirra þágu.“

Lagði Fore fram aðgerðir í fimm liðum sem grípa þyrfti til og minnti á orð aðalritara SÞ á dögunum um að það væru engar hernaðarlausnir í Sýrlandi, eina mögulega lausnin væri pólitísks eðlis.

„Það er besta fjárfesting sem við getum gert að fjárfesta í börnum Sýrlands. Það er fjárfesting til framtíðar og fjárfesting í friði. Við erum að láta þetta tækifæri renna okkur úr greipum enn á ný, enn eitt árið. Því lengur sem þetta stríð stendur því fleiri börn munu deyja meðan heimsbyggðin horfir á. Fleiri munu þurfa að flýja heimili sín og leggja á sig hættulegt ferðalag í leit að öryggi. Aukið álag verður lagt á nágrannaþjóðir um að taka við flóttafólki, sem hafa þegar verið örlát í að taka við svo mörgum. Með hverjum mánuði sem líður verður staða Sýrlands og heimshlutans um að ná sér aftur aðeins vonlausari.“

Fore benti á að börn sem fæddust þegar stríðið hófst væru níu ára núna.

„Þurfum við að viðurkenna fyrir því barni að friður sé ómögulegur? Að við getum ekki eða viljum ekki stöðva þetta hræðilega stríð? Á næsta ári verður stríðið í Sýrlandi tíu ára. Það er afmæli sem ekkert okkar vill sjá. Milljónir sýrlenskra barna gráta í nótt vegna hungurs og kulda.. vegna sára og sársauka... af ótta og hryggð. Þessi börn og fjölskyldur þeirra standa frammi fyrir erfiðum vetri og óvissu. Við verðum að standa með þeim. Við verðum að segja þeim að við veljum frið. Sagan mun dæma okkur harkalega og það með réttu ef við gerum ekkert. Takk fyrir mig.“

Við minnum á áframhaldandi neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Sýrlandi. Þú getur gert þitt til að fæða og klæða börnin í tjöldunum köldu. Sendu SMS-ið TEPPI í númerið 1900 (1.400 kr.)

Hægt er að leggja frjáls framlög inn á 701-26-102040 og kt. 481203-2950 eða hér á vefsíðu UNICEF á Íslandi.

200 mjúkdýr af öllum stærðum og gerðum voru afhend.
Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn