Menntun

Réttindi,

ekki forréttindi

UNICEF leggur áherslu á jafnrétti kynjanna og að útrýma mismunun af öllum toga, til dæmis með því að fræða fólk um mikilvægi þess að senda stúlkur jafnt sem drengi í skóla. Það eru réttindi, ekki forréttindi, að njóta menntunar. Nálgun UNICEF við menntun er réttindamiðuð, það er að segja hún miðar að því að greina og breyta valdahlutföllum í samfélaginu.

Réttindamiðuð nálgun UNICEF til menntamála nær yfir og snýst um að uppræta þá mismunun sem víða er rótgróin í samfélög og byggir á misrétti kynjanna. Þetta misrétti útilokar milljónir barna, sér í lagi stúlkur, frá skólum og dæmir þar með ótal börn til þess að fá litla eða enga menntun. Fleiri börn ganga nú í skóla en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt Unesco, þá voru um 58 milljónir barna sem njóta ekki grunnskólamenntunar árið 2019.

Af hverju

menntun?

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um að menntun eigi að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi.

Menntun bætir líf og afkomu einstaklinga og er mikilvægur þáttur í félagslegum og persónulegum þroska hvers einstaklings. Menntun er afl sem getur rofið vítahring fátæktar, komið í veg fyrir sjúkdóma og viðhaldið jákvæðri þróun samfélaga.

Menntun er öflugasta vopnið gegn fátækt og hungri, stuðlar að lækkun barnadauða og er mikilvæg til að ná jafnrétti kynjanna.

Lykillinn að

betri framtíð

Góð grunnmenntun gefur stúlkum og drengjum þekkingu og möguleika til að lifa heilbrigðara lífi og til dæmis verja sig gegn HIV/alnæmi og öðrum kynsjúkdómum. Menntun veitir ungmennum líka sjálfstraust til að taka ábyrgð í samfélaginu og hafa áhrif á ákvarðanatöku sem þau varða. Rannsóknir hafa sýnt að menntaðir einstaklingar, sér í lagi konur, hefja barneignir síðar á lífsleiðinni og eignast færri börn. Börn menntaðra foreldra njóta betri heilsu, lifa lengur og eru líklegri til að fá tækifæri til náms.

UNICEF starfar með samstarfsaðilum sínum um allan heim til að ná markmiðum sínum í menntamálum og tryggja að hverju barni veitt grunnmenntun – lykillinn að betri framtíð. Menntun er öflugasta vopnið gegn fátækt og hungri, stuðlar að lækkun barnadauða og er mikilvæg til að ná jafnrétti kynjanna.

Hjálpaðu UNICEF að stuðla

að réttindum fyrir öll börn

UNICEF nýtur mikils trausts og leggur áherslu á víðtæka samvinnu við yfirvöld, félagasamtök, samfélög og börnin sjálf. Við gegnum leiðandi hlutverki í hjálparstarfi fyrir börn og erum því í einstakri stöðu til að þrýsta á um stórfelldar breytingar sem hafa áhrif á heimsvísu. Í öllu okkar starfi treystum við eingöngu á frjáls framlög.

Mánaðarlegar gjafir heimsforeldra gera UNICEF kleift að bregðast samstundis við þegar neyðarástand brýst út, vera áfram til staðar fyrir börn eftir að kastljós fjölmiðla er farið annað, sinna hjálparstarfi á svæðum sem njóta engrar fjölmiðlaathygli, skipuleggja hjálparstarf yfir lengri tíma og beita sér á heimsvísu. Með þinni hjálp vinnum við að því að gæta allra barna.

Komdu í hóp Heimsforeldra strax í dag!