12. september 2017

Mikill meirihluti barna og ungmenna á flótta verða fyrir ofbeldi og misnotkun á leið sinni til Evrópu

Börn og ungmenni á flótta og faraldsfæti yfir Miðjarðarhafið eiga á verulegri hættu á að verða fyrir ofbeldi og misnotkun á leið sinni til Evrópu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og IOM, stofnun Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga, sem kemur út í dag.

Börn og ungmenni á flótta og faraldsfæti yfir Miðjarðarhafið eiga á verulegri hættu á að verða fyrir ofbeldi og misnotkun á leið sinni til Evrópu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og IOM, stofnun Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga, sem kemur út í dag. Þar kemur fram að 77% barna og ungmenna sem ferðast í átt að Miðjarðarhafinu á leið til Evrópu hafa orðið fyrir ofbeldi og misnotkun á leiðinni og lent í aðstæðum sem leiða mega til mansals. Skýrslan, Harrowing Journeys, byggir á upplýsingum frá 11 þúsund börnum og ungmennum, og veitir innsýn í þá gríðarlegu hættuför sem þau leggja á sigí leit að öryggi og betra lífi.

Leiðin yfir Miðjarðarhafið í gegnum Norður-Afríku og til Evrópu er meðal hættulegustu og mannskæðustu fólksflutningsleiða í heiminum og þar eru börn og ungmenni undir 25 ára aldri sérstaklega viðkvæm. Aimamo, fylgdarlaus 16 ára drengur frá Gambíu, lýsir því hvernig hann var seldur mansali og neyddur í þrælkunarvinnu í fleiri mánuði við komuna til Líbíu: „Ef þú reynir að flýja, þá skjóta þeir þig. Ef þú hættir að vinna, þá berja þeir þig. Við vorum eins og þrælar. Að loknum vinnudegi, þá læstu þeir þig inni.“ Aimamo náði að sleppa og komst að lokum einn síns liðs í neyðarskýli fyrir börn á flótta á Ítalíu.

„Sá grimmi raunveruleiki blasir við að nú er algengara en ekki að börn á flótta og faraldsfæti yfir Miðjarðarhafið eru misnotuð, seld mansali, lamin og sæti mismunun,“ segir Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF sem samhæfir aðgerðir UNICEF í flóttamannamálum í Evrópu. Þegar börnin koma til Evrópu standa þau oft í skuld við smyglara, sem setur þau í enn meiri hættu. Að meðaltali greiða börnin um 1.000 – 5.000 evrur fyrir ferðina yfir. „Leiðtogar Evrópusambandsins ættu að vinna að langtímalausnum sem fela í sér öruggar og löglegar leiðir yfir landamæri, koma upp svæðum sem vernda börn á faraldsfæti og finna aðra valkosti en að hneppa börn í varðhald,“ bætir hún við.

Á meðan öll börn á flótta og faraldsfæti eru í hættulegri stöðu, þá kemur fram í skýrslunni að þau sem ferðast frá Afríku sunnan Sahara eru sérstaklega berskjölduð og eiga enn frekar á hættu að verða fyrir misnotkun eða mansali en börn frá öðrum heimshlutum. Kynþáttafordómar eru líklega undirliggjandi þáttur að baki slíkrar mismununar.

Í skýslunni kalla UNICEF og IOM eftir tafarlausum aðgerðum sem tryggja öryggi og réttindi barna, hvort sem um ræðir börn á flótta eða faraldsfæti. Kallað er eftir því að stjórnvöld sem og leiðtogar Afríkusambandsins, Evrópusambandsins, alþjóðlegra stofnana og aðrir hluteigandi aðilar setji í forgang röð aðgerða:

Að búa til öruggar og löglegar leiðir fyrir börn á ferðinni; efla þjónustu sem verndar börn á flótta eða faraldsfæti, hvort sem um er að ræða löndin sem þau koma frá, löndin sem þau ferðast í gegnum eða áfangastað; vinna þvert á landamæri í baráttunni gegn mansali og misneytingu; og berjast gegn útlendingahatri, kynþáttafordómum og mismunun gegn öllum innflytjendum og flóttamönnum.

Skýrsluna má nálgast hér.

UNICEF leggur til að gripið sé tafarlaust til aðgerða á sex sviðum:

  1. Vernda börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
  2. Hættaað hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
  3. Halda fjölskyldum saman, en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna ásamt því að veita börnunumlagalega stöðu.
  4. Halda öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra nauðsynlega þjónustu.
  5. Þrýsta á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir stórfelldrar fjölgunar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
  6. Vinna gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa.

UNICEF hvetur ríkisstjórnir heimsins og Evrópusambandið til að styðja og tileinka sér þessa aðgerðaáætlun.

Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF fyrir réttindum barna um allan heim. Á Íslandi eru ríflega 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn