15. janúar 2020 Árið 2019 jókst sala á Sönnum gjöfum UNICEF á Íslandi mikið, eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, sérstaklega fyrir jólin í desember síðastliðnum. Ljóst er að sífellt fleiri horfa til þessara umhverfisvænu og umhyggjusömu tækifærisgjafa enda jókst salan um 20 prósent milli ára. Esther Hallsdóttir, verkefnisstýra Sannra gjafa hjá UNICEF, segir árangur síðasta árs magnaðan og að hver gjöf muni koma sér vel fyrir börn í neyð.
„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þann hlýhug sem Íslendingar hafa sýnt okkur og þeim börnum í neyð sem njóta góðs af Sönnum gjöfum. Sala Sannra gjafa hefur aukist mjög mikið á milli ára og við finnum fyrir miklum meðbyr með þessum gjöfum. Þetta eru gjafir sem gera fólki ekki eingöngu kleift að láta gott af sér leiða heldur eru líka góðar við umhverfið og skapa ekki óþarfa sóun eða mengun. Allt í takt við aukna umhverfisverndarvitund fólks. Það var því ótrúlega gleðilegt hvað salan gekk vel fyrir jólin og magnað að litla Ísland geti lagt svo mikið að mörkum fyrir börn í neyð,“ segir Esther.
En hvað þýðir það að sala aukist um 20 prósent? Hversu mikil áhrif hafa þessi neyðargögn sem send eru út í nafni Sannra gjafa? Tökum nokkur dæmi út frá sölutölum ársins 2019.
Vatnshreinsitöflur voru vinsæl gjöf í fyrra en ein slík tafla getur breytt fimm lítrum af óhreinu og sýktu vatni í hreint og drykkjarhæft vatn á aðeins nokkrum mínútum. Með kaupum á Sönnum gjöfum sendu Íslendingar rúmlega 6 milljónir slíkar töflur út þangað sem þörfin og neyðin er mest. Fyrir þann fjölda vatnshreinsitaflna má hreinsa rúmlega 30 milljónir lítra af vatni. En það er stór eining, stærri en við náum kannski utan um í daglegu lífi okkar. Setjum hana í samhengi:
Það þarf 2,6 milljónir lítra af vatni til að fylla útilaug Laugardalslaugar. Það mætti því fylla hana rúmlega 11 sinnum með því vatni sem töflurnar frá Íslandi geta hreinsað. Hreint og öruggt vatn er með mikilvægustu gjöfum sem hægt er að gefa.
Annað sem við getum nefnt til að setja 30 milljónir lítra í samhengi er að til samanburðar þá nam heildarsala ÁTVR allt árið 2018 „aðeins“ tæplega 22 milljónum lítra. 30 milljónir lítra er því ansi mikið af hreinu vatni.
UNICEF er einn stærsti kaupandi bóluefnis í heiminum og mikilvægi bólusetninga, við að halda í skefjum og uppræta lífshættulega smitsjúkdóma sem ógna lífi barna um allan heim, er óumdeilt.
Í gegnum Sannar gjafir gáfu Íslendingar í fyrra tæplega 105 þúsund skammta af bóluefni gegn mislingum, mænusótt og stífkrampa. Sá fjöldi myndi duga til að bólusetja hvern einasta nágranna okkar í Færeyjum, tvisar.
Loks ber að nefna jarðhnetumaukið sem gerir kraftaverk í meðhöndlun vannærðra barna. Í gegnum Sannar gjafir keyptu Íslendingar rúmlega 146 þúsund skammta af jarðhnetumauki í fyrra. Athugið að í flestum tilfellum þurfa vannærð börn einungis þrjá poka af þessu jarðhnetumauki á dag í nokkrar vikur til að ná fullum bata.
Ef við miðum við þrjá skammta á dag í þrjár vikur þá getum við gefið okkur að Íslendingar hafi tryggt 2.324 vannærðum börnum fullan bata með jarðhnetumauksgjöfum á síðasta ári.
Þetta er aðeins brot af þeim neyðargögnum sem Íslendingar keyptu í gegnum Sannar gjafir á síðasta ári og eru þá ótalin tæplega þrjú þúsund hlý teppi og rúmlega 1.600 sett af hlýjum vetrarfatnaði fyrir börn. En allt ofangreint er eitthvað sem við og allir sem styrktu UNICEF með Sönnum gjöfum á liðnu ári getum verið virkilega stolt af.
UNICEF á Íslandi þakkar landsmönnum enn og aftur stuðninginn og minnum við á að hægt er að kaupa Sannar gjafir allan ársins hring og við öll tilefni.