10. júní 2020

Ísland einn stærsti styrktaraðili UNICEF á heimsvísu miðað við höfðatölu

Íslendingar eru enn á ný meðal stærstu styrktaraðila UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á heimsvísu miðað við höfðatölu þegar litið er til heildarframlaga frá ríki, almenningi og fyrirtækjum. Þetta er meðal þess sem fram kom á ársfundi UNICEF á Íslandi í Þjóðminjasafninu í dag.

10. júní 2020 Íslendingar eru enn á ný meðal stærstu styrktaraðila UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á heimsvísu miðað við höfðatölu þegar litið er til heildarframlaga frá ríki, almenningi og fyrirtækjum. Þetta er meðal þess sem fram kom á ársfundi UNICEF á Íslandi í Þjóðminjasafninu í dag.

Á fundinum kynnti Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, helstu niðurstöður úr ársskýrslu félagsins sem gefin hefur verið út. Þar má sjá að söfnunarfé UNICEF á Íslandi nam rúmum 727 milljónum króna í fyrra. Eins og undanfarin ár var framlag Heimsforeldra stærsti liðurinn í tekjum landsnefndarinnar, tæp 83%. Engin önnur landsnefnd UNICEF safnar hlutfallslega hærri framlögum og er það ómetanlegum stuðningi heimsforeldra okkar að þakka.

Stærstum hluta var varið til almenns hjálparstarfs UNICEF í þeim löndum þar sem þörfin er mest, rúmum 493 milljónum króna. Heildarframlög til neyðar á árinu 2019 námu tæpum 13 milljónum króna. Árið 2019 jukust framlög til innanlandsverkefna um tæp 44% og sýnir þessi aukning aukið vægi UNICEF í réttindagæslu og verkefnum tengd börnum á Íslandi.

Stuðningur í heimsklassa

Í ársskýrslunni má einnig lesa að 77% af öllu því fé sem landsnefnd UNICEF á Íslandi safnaði á síðasta ári fór til baráttu UNICEF fyrir réttindum og lífi barna um allan heim. Kostnaður við fjáröflun, kynningarmál, stjórnun og rekstur skrifstofu nam 23 prósentum af söfnunarfé. Það þýðir að af hverjum 100 krónum sem gefnar voru til UNICEF á Íslandi á árinu 2019 fór 1 króna í stjórnun, rúmar 3 krónur í kynningarmál og tæpar 19 krónur í að safna næstu 100 krónum og hjálpa enn fleiri börnum.

Íslensk fyrirtæki studdu dyggilega við verkefni UNICEF á árinu. Kvika, Lindex og Te & Kaffi voru fremst í flokki samstarfsfyrirtækja árið 2019, en fjöldi fyrirtækja studdi einnig við starf UNICEF með kaupum á Sönnum gjöfum yfir árið.

Þegar allt er talið saman, söfnunarfé frá landsnefnd UNICEF á Íslandi auk stuðningi íslenska ríkisins við UNICEF og verkefni stofnunarinnar víða um heim, er Ísland sem heild enn á ný einn stærsti styrktaraðili UNICEF á heimsvísu miðað við höfðatölu.

„UNICEF á Íslandi sannaði styrk sinn enn eitt árið. Rúmlega hálfur milljarður króna var sendur utan í hjálparstarf UNICEF, á staði þar sem þörfin er mest,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Á sama tíma var mikill vöxtur í innanlandsstarfinu, þar sem kastljósinu var beint að aðstæðum og réttindum barna á Íslandi og þeim var lyft upp í virku samstarfi við ráðuneyti, sveitarfélög og skóla.“

Glæsilegt ár í innanlandsverkefnum

Í ársskýrslunni, sem nálgast má í heild sinni hér, er farið yfir helstu verkefni og aukin umsvif innanlandsteymis UNICEF á Íslandi sem náði miklum árangri á liðnu ári.

Undirritaður var tímamótasamningur við félags- og barnamálaráðherra um þátttöku félagsmálaráðuneytisins í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Verkefnið hlaut yfirskriftina Barnvænt Ísland og er stefnt að því að á næsta áratug hafi íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á íslandi hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans. Þá hélt áfram vinna okkar með Réttindaskóla, Réttindafrístund og Réttindaleikskóla UNICEF um allt land.

Í ársbyrjun 2019 leiddu UNICEF á Íslandi og hönnunarstúdíóið Grallaragerðin saman hesta sína í verkefninu HEIMA þar sem móttaka barna í leit að alþjóðlegri vernd var skoðuð frá sjónarhorni þeirra sjálfra með það að markmiði að geta framfylgt skuldbindingum Íslands. Verkefnið vakti mikla athygli og var meðal annars tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands á síðasta ári.

Ljósi varpað á ofbeldi gegn börnum á Íslandi

Stærsta verkefni UNICEF á Íslandi í fyrra var herferðin Stöðvum feluleikinn sem fór af stað síðastliðið vor. Átakinu var ætlað að vekja athygli almennings og stjórnvalda á því að 16,3% barna hér á landi verða fyrir heimilisofbeldi eða kynferðislegu ofbeldi, fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Átakið hófst með útgáfu skýrslu þar sem ný tölfræðigögn um tíðni ofbeldis gegn börnum hér á landi voru kynnt.

Samhliða átakinu var sett af stað undirskriftasöfnun þar sem markmiðið var að mynda breiðfylkingu fólks sem væri tilbúið til að taka þátt í að breyta samfélaginu fyrir börnin okkar. Þeir aðilar sem skrifuðu undir ákallið fengu umsvifalaust sent upplýsingaspjald með leiðbeiningum um hvernig eigi að bregðast við ef grunur leikur á að barn verði fyrir ofbeldi. Með því að leggja nafn sitt við undirskriftalistann voru þátttakendur einnig að þrýsta á að stjórnvöld stofni ofbeldivarnarráð sem hefði það hlutverk að vakta tölfræðigögn um tíðni ofbeldis gegn börnum á Íslandi og sinna markvissum forvörnum og fræðslu. Einnig var þrýst á að öll sveitarfélög settu sér skýra viðbragðsáætlun um ofbeldi gegn börnum.

Átakinu var einstaklega vel tekið af almenningi, fjölmiðlum og stjórnvöldum. 11.430 undirskriftir söfnuðust og um 30 sveitarfélög tóku pólitíska ákvörðun um að yfirfara verkferla sína og viðbragðsáætlanir vegna ofbeldis gegn börnum. Einstaklega gleðilegt er að félags- og barnamálaráðherra svaraði kalli UNICEF og tilkynnti í kjölfar átaksins að hann myndi setja á stofn miðstöð um ofbeldi gegn börnum.

„Innanlandsstarf UNICEF á Íslandi er búið að sanna sig sem grunnstoð í starfsemi félagsins á Íslandi. UNICEF starfar fyrir öll börn og þar eru íslensk börn ekki undanskilin. Nú vex úr grasi kynslóð barna og ungmenna sem þekkja réttindi sín og kalla eftir því að á þau sé hlustað. UNICEF á Íslandi finnur fyrir mikilli eftirspurn eftir stuðningi sínum við skóla og sveitarfélög og því ljóst að börn á Íslandi tala ekki fyrir daufum eyrum. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan,“ segir Birna að lokum.

Ársskýrslu ársins 2019 og fyrri ársskýrslur UNICEF á Íslandi má nálgast hér á vefnum.

Fleiri
fréttir

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira

15. apríl 2024

Ár af stríði í Súdan: Hvergi fleiri börn á flótta í heiminum
Lesa meira
Fara í fréttasafn