01. apríl 2020

Í Kongó er COVID-19 aðeins ein af mörgum drepsóttum sem ógna lífi barna

Laskað heilbrigðiskerfi Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó þarf verulegan stuðning til að halda uppi vörnum gegn yfirstandandi faraldri mislinga og kóleru í landinu sem orðið hafa þúsundum barna að bana. Nú bætist við ógnin af COVID-19 sem gæti veitt heilbrigðiskerfi Afríkuríkisins náðarhögg. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu UNICEF.

1. apríl 2020 Laskað heilbrigðiskerfi Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó þarf verulegan stuðning til að halda uppi vörnum gegn yfirstandandi faraldri mislinga og kóleru í landinu sem orðið hafa þúsundum barna að bana. Nú bætist við ógnin af COVID-19 sem gæti veitt heilbrigðiskerfi Afríkuríkisins náðarhögg. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu UNICEF.

Þar kemur fram að átakið við að hemja ebóla-faraldurinn sem geisað hefur í austurhluta landsins síðustu misseri hafi tekið bróðurpart bolmagns heilbrigðiskerfisins á meðan baráttan við aðra banvæna faraldra hafi setið á hakanum.

Frá ársbyrjun 2019 hefur mislingafaraldurinn, sá versti í heiminum, kostað 5.300 börn undir fimm ára aldri lífið. Þá hafa 31 þúsund tilfelli af kóleru greinst. Nú er tilfellum kórónaveirunnar að fjölga hratt enda var búið að gera ráð fyrir að Kongó væri eitt verst setta Afríkuríkið til að takast á við þann faraldur.

Margar opinberar heilbrigðisstofnanir eru illa búnar, illa mannaðar og illa fjármagnaðar. Þar er jafnvel skortur á aðgengi að hreinu vatni og hreinlæti mjög bágborið. Hlutfall bólusetninga, sem fyrir var lágt, hefur lækkað verulega í mörgum héruðum síðastliðið ár.

3,3 milljónir barna í landinu fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa á að halda. Rúmlega 9 milljónir barna, eitt af hverjum fimm börnum undir 18 ára aldri, þarfnast mannúðaraðstoðar af einhverju tagi.

Mörg viðkvæmustu börnin búa í þremur héruðum í austurhluta landsins þar sem átök og ebólafaraldur hefur komið illa niður á samfélögum og skipulagðar árásir uppreisnarhermanna á heilbrigðisstofnanir hafa gert illt verra. Nærri milljón manns þurftu að flýja heimili sín á síðasta ári

Í skýrslu UNICEF segir:

  • 6,5 milljónir tilfella af malaríu voru staðfest í Kongó á síðasta ári og létu 17 þúsund manns lífið vegna þessa. Börn undir fimm ára aldri urðu verst úti.
  • 332 þúsund tilfelli af mislingum voru staðfest á síðasta ári og það sem af er þessu ári. Það gerir þetta að versta faraldri í sögu Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. 6.200 hafa látið lífið af þessum sökum, þar af 85 prósent börn undir fimm ára aldri.
  • Kólera er landlæg. Afleiðing skorts á hreinlæti og hreinu vatni. Kólera varð 540 manns að bana á síðasta ári. Tæp 45 prósent þeirra voru börn.

„Það er nauðsynlegt að styrkja heilbrigðiskerfið í Kongó,“ segir Edouard Beigbeder, fulltrúi UNICEF í landinu. „Hafi heilbrigðisstofnanir ekki möguleika á að bólusetja, næra og veita aðra lífsnauðsynlega þjónustu, sérstaklega í afskekktum svæðum, ógnar það lífi ótal kongóskra barna.“

Í skýrslunni skorar UNICEF á stjórnvöld að verja meira fjármagni til heilbrigðisþjónustu barna og óléttra kvenna og að setja bólusetningar í forgang.

Þá sé stuðningur almennings um allan heim sömuleiðis lykilatriði í að koma löskuðu heilbrigðiskerfi aftur á kjölinn.

Skýrsluna, On Life Support: A battered health system leaves DRC children at the mercy of killer diseases, má nálgast hér sem PDF-skjal.

UNICEF þarf á þínum stuðningi að halda til að ná til, vernda og aðstoða viðkvæman hóp barna og fjölskyldur þeirra í erfiðum aðstæðum í heimsfaraldri Covid-19 kórónaveirunnar. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að senda SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.900 kr.).

Þú getur einnig styrkt söfnun UNICEF á Íslandi með framlagi að eigin vali hér.

Fleiri
fréttir

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira
Fara í fréttasafn