Menu

Réttindaskóli UNICEF

Réttindaskólinn er hugmyndafræði fyrir skóla- og frístundastarf sem tekur mið af Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna eftir líkaninu leggja Barnasáttmálann til grundvallar í öllu starfi sínu; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum. Áhersla er lögð á að skapa umhverfi sem byggist á þátttöku, jafnrétti og virðingu.

... ekki getur orðið virkt lýðræði án þess að stuðlað sé að jafnrétti í þjóðfélaginu

Réttindaskóli í íslensku skóla- og frístundaumhverfi

Á sama tíma og Réttindaskólaverkefnið gengur út á að skapa lýðræðislegt umhverfi styður það einnig við ferla sem þegar eru til staðar innan skóla- og frístundastarfs, sem byggja m.a. á lögum um grunnskóla, aðalnámskrá, skólanámskrá, stefnumótun í æskulýðsmálum, skóla-og jafnréttisstefnum.

Samkvæmt íslenskum grunnskólalögum (nr. 92/2008) og nýrri aðalnámskrá (2011/2013), bera skólar ekki einungis ábyrgð á því að tryggja að börn á Íslandi fái þá menntun sem þeim ber, heldur eiga þeir jafnframt að vera uppspretta þekkingar um mannréttindi. Í lögunum segir meðal annars að hver sá sem starfi innan skóla eigi að efla, miðla og tryggja virðingu fyrir mannréttindum og að menntun eigi að taka mið af þessum réttindum.

Í almennum hluta nýrrar aðalnámskrár er í fyrsta sinn gerð grein fyrir sex grunnþáttum íslenskrar menntunar (læsi, sköpun, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, sjálfbærni og jafnrétti). Einn umræddra þátta, lýðræði og mannréttindi, undirstrikar þá áherslu sem lögð er á mannréttindafræðslu og að skólarnir búi börn undir að verða virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi.

Þó að grunnþættirnir séu settir fram sem sex ólíkir þættir, tengjast þeir innbyrðis og eru háðir hver öðrum. Sem dæmi má nefna að ekki getur orðið virkt lýðræði án þess að stuðlað sé að jafnrétti í þjóðfélaginu; mannréttindi verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð, í sjálfbærni felst virðing fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðislegum vinnubrögðum og jafnrétti. Það má því segja að með innleiðingu hugmyndafræði Réttindaskóla felist tækifæri til að vefa grunnþætti námskrárinnar inn í skólann og styrkja þannig samspil á milli aðalnámskrárinnar og skólastarfs.

Þegar skóli, frístundaheimili eða félagsmiðstöð hefja innleiðingu Réttindaskólaverkefnisins þýðir það ekki að nýtt sjónarhorn bætist við verkefnalistann, heldur að skapaður sé rammi utan um hin ólíku sjónarhorn, stefnur og gildi sem skólinn er nú þegar að vinna með. Réttindaskólinn er því heildræn nálgun sem krefst þess að starfsfólk og börn og ungmenni vinni saman að sameiginlegu markmiði.

Forsendur Réttindaskóla

Forsendur Réttindaskóla

-

-

12.gr. Öll börn eiga rétt á að taka þátt og hafa áhrif í málum er varða þau með einum eða öðrum hætti.

Réttindaskólar byggja á eftirfarandi forsendum

Þekking á réttindum barna - 42. grein Barnasáttmálans.
Allir innan skólans og í frístundastarfi, hvort sem það eru skólastjórnendur, starfsmenn, börn eða foreldrar hafa þekkingu á grundvallarforsendum Barnasáttmálans og skilja hvernig þær tengjast skólastarfinu.

Barna- og ungmennalýðræði – 12. grein Barnasáttmálans.
Börnum og ungmennum eru gefin reglubundin tækifæri til að taka þátt í þróun skóla- og frístundastarfs, segja skoðun sína og láta í sér heyra í tengslum við málefni er þau varða. Þeir starfsmenn sem taka ákvarðanir innan skólans og frístundastarfsins taka tillit til skoðana barnanna og gefa þeim upplýsingar um ákvarðanir sem teknar eru.

Eldmóður fyrir réttindum barna – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
Börn og ungmenni fá reglubundin tækifæri, þvert á kennslufög, til að læra um eigin réttindi á sama tíma og þau læra að öll börn eigi sömu réttindi. Í réttindaskóla þjálfast börn og ungmenni einnig í að beita réttindum sínum. Þau eru hvött til að beita sér innan skóla- og frístundastarfs og samfélagsins í víðari skilningi.

Forsendur Barnasáttmálans hluti af daglegu starfi – 2., 4., 12. og 29. greinar Barnasáttmálans
Barnasáttmálinn er rauður þráður í skóla- og frístundastarfi. Stjórnendur vinna með markvissum hætti að því að gera sáttmálann að viðmiði í stjórnsýslu skóla- og frístundastarfs. Forsendur sáttmálans eru grunnurinn að daglegum samskiptum barna, ungmenna, kennara og frístundaráðgjafa. Forsendurnar eru einnig notaðar sem viðmið þegar skólinn og frístundamiðstöðvar móta stefnur og reglur starfsins .

Samstarf – 2., 3. og 6. grein Barnasáttmálans.
Skóli, frístundamiðstöð og skyldar stofnanir eiga í nánu samstarfi með hliðsjón af réttindum barna. Samstarfið er þróað með það að markmiði að deila reynslu og efla réttindastarfið. Mikilvægt er að skapa sameiginlegan ramma utan um börnin hvort sem það er á skólatíma eða í frístundum.  Markmiðið með auknu samstarfi er einnig að styðja við bakið á þeim börnum sem hafa þörf fyrir sérstakan stuðning innan skólans eða frístundastarfsins.