Hvað er Réttindaskóli- og frístund UNICEF
Á árunum 2016 til 2017 tóku þrír skólar, eitt frístundaheimili og ein félagsmiðstöð þátt í þróunarverkefni í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að bæta skóla- og frístundastarf, jafnt sem líðan barna og ungmenna með því að nota Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem útgangspunkt í skóla- og frístundastarfi. Fyrstu skólarnir fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF á Íslandi þann 20. nóvember 2017.
Verkefnið gekk vel og svo fór að skólarnir þrír, frístundaheimilin þrjú og félagsmiðstöðin innleiddu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í starf sitt skv. hugmuyndafræði Réttindaskóla- og frístundar, fyrst af öllum hérlendis. Verkefnið er í stöðugri þróun, ekki síst af öflugu fagfólki á vettvangi.
Þegar skóli gerist Réttindaskóli ákveður hann að skuldbinda sig við að gera réttindi barna að raunveruleika eftir bestu getu. Sömu sögu er að segja þegar frístundaheimili og félagsmiðstöðvar gerast Réttindafrístund. Skóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð eru jafnir samstarfsaðilar í verkefninu og er það gert með það að markmiði að setja barnið sem einstakling í miðju verkefnisins. Vinna með Barnasáttmálann hefur bein áhrif á líf barna og er mikilvægt að sú vinna fljóti sem mest milli allra þeirra uppeldisstofnanna sem barnið sækir.
Hvernig vinna skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar með Barnasáttmálann?
Í upphafi verkefnisins eru skipaðir umsjónarmenn og réttindaráð skipað. Ráðið sér til þess að unnið sé eftir meðmælum UNICEF með því að spyrja öll börn og starfsfólk skóla, frístundaheimlis og félagsmiðstöðvar hvernig réttindi barna birtist þeim í raun og hversu vel þau þekki Barnasáttmálann.
Réttindaráðið útbýr síðan aðgerðaáætlun sem leiðir réttindastarfið. ítarlegri upplýsingar má finna á slóðinni hér að neðan.
Réttindaráð, hjarta verkefnisins
Réttindaráðið leiðir innleiðingu Réttindaskóla- og frístundar og hittist að minnsta kosti tvisvar í mánuði.
Meðlimir ráðsins eru umsjónarmenn í skóla, frístundaheimili og/eða félagsmiðstöð, tvö börn úr hverjum árgangi og fulltrúi foreldra/forsjáraðila. Stjórnendur og umsjónarmenn meta í samráði við börn og ungmenni hvert aldursviðmið réttindaráðsins ætti að vera.
Samsetning barna ætti að endurspegla barnahópinn m.t.t. aldurs, kyns, uppruna o.s.frv. Í ráðinu er oft einnig stjórnendur, kennarar, starfsfólk frístundaheimilis og félagsmiðstöðva, sérkennarar, stuðningsfulltrúar, skólahjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og forsjáraðilar. Börn og ungmenni skulu þó vera í meirihluta.
Starf réttindaráðsins miðar að því að uppfylla forsendur Réttindaskólans.
Ávinningur
Ávinningur skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva er margvíslegur þar sem framkvæmd verkefnisisn er að miklu leyti sérstakt í hverju skóla- og frístundarsamfélagi.
Rauði þráðurinn er hinsvegar sá að öll vinna með mannréttindi, jafnrétti og lýðræði eykst og er í auknum mæli að frumkvæði barna.
Verkefnið er umbótamiðað með það að markmiði að nýta reynslu og þekkingu barnanna sjálfra til þess að gera réttindi barna að raunveruleika fyrir öll börn.