Menu

Hungursneyð lýst yfir í Suður-Súdan: UNICEF er á staðnum

■ Hungursneyð var í morgun lýst yfir í Unity-fylki í Suður-Súdan ■ UNICEF er með mikinn viðbúnað í Suður-Súdan ■ Hungursneyð var síðast lýst yfir í heiminum árið 2011 í Sómalíu

 

20. febrúar 2017

Hungursneyð var í morgun lýst yfir í Unity-fylki í Suður-Súdan þar sem 100.000 manns eiga á hættu að deyja úr hungri. Ein milljón manna til viðbótar er að auki á barmi hungursneyðar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er með mikinn viðbúnað í landinu, enda gríðarmörg börn í lífshættu. Hungursneyðin er sú fyrsta sem lýst er yfir í heiminum í tæplega sex ár.

Neyðaraðgerðir UNICEF miða að því að meðhöndla börn gegn vannæringu og koma í veg fyrir að fleiri verði vannærð. UNICEF styður 620 næringarmiðstöðvar vítt og breitt um landið og 50 vannæringarspítala. Mælist 15% barna bráðavannærð er talað um neyðarástand. Ástandið er grafalvarlegt, enda eru á sumum svæðum í Unity-fylki nú allt að 42% barna með bráðavannæringu.

Í forgangi hjá UNICEF er einnig að dreifa hreinu vatni, þar sem vatn er af skornum skammti á þurrkatímabilinu sem nú stendur yfir. Mikilvægt er sömuleiðis að koma í veg fyrir að börn veikist af sjúkdómum og áhersla er því lögð á bólusetningar og almenna heilsugæslu.

Heimsforeldrar gegna lykilhlutverki við neyðaraðgerðir UNICEF og hér á landi eru vel yfir 25.000 heimsforeldrar. Þau sem vilja styðja neyðaraðgerðirnar sérstaklega geta gert það með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Einnig er hægt að styrkja hér og leggja inn á neyðarreikning UNICEF á Íslandi, 701-26-102050, kt 481203-2950.

UNICEF, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) vöruðu í morgun við því að tafarlausra aðgerða væri þörf til að koma í veg fyrir að fleiri deyi úr hungri. Stofnanirnar þrjár hefðu þegar hjálpað milljónum manna í landinu. Óheftur aðgangur hjálparstofnana að öllum þeim sem væru í hættu vegna hungursneyðar væri hins vegar lykilatriði, auk þess sem nauðsynlegt væri að stórauka enn við allar neyðaraðgerðir. Um 4,9 milljónir manna búa nú við fæðuóöryggi í Suður-Súdan eða um 40% landsmanna. Búist er við að sú tala hækki enn frekar er nær dregur sumri ef ekki verður brugðist skjótt við.

Neyðaraðgerðir í Nígeríu björguðu ótal börnum

Suður-Súdan er yngsta ríki heims. Það klauf sig frá ríkinu Súdan eftir áratugalanga borgarastyrjöld sem lauk með friðarsamningum árið 2005. Sögulegar kosningar fóru síðan fram árið 2011 þar sem íbúar Suður-Súdan kusu sig frá Súdan. Átök brutust hins vegar út í Suður-Súdan í lok árs 2013 og hafa nú staðið yfir í rúm þrjú ár. Í fyrrasumar hörðnuðu þau enn frekar, með hrikalegum afleiðingum.

Ástæður hungursneyðarinnar nú eru ekki síst stríðsátökin sem hafa hindrað matvælaframleiðslu og búskap hjá almenningi og stökkt fólki á flótta. Verðbólga upp á 800% og afar slæmt efnahagsástand hafa gert illt verra.

„Það gerist ekki á hverjum degi að hungursneyð er lýst yfir í heiminum og í dag er því sorgardagur. Hungursneyð er lýst yfir með svokallaðri Integrated Food Security Phase Classification (IPC). Um algjört efsta stig er að ræða. Formleg yfirlýsing sem þessi þýðir að fólk er þegar farið að svelta til dauða. Það á ekki síst við um börn og yngstu börnin eru alltaf þau sem eru veikust fyrir,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Í nóvember á seinasta ári sendi UNICEF út neyðarákall vegna Nígeríu þar sem ástandið jaðraði við hungursneyð víða í norðausturhluta landsins. Gríðarlega umfangsmiklar neyðaraðgerðir voru settar í gang, meðal annars með hjálp héðan frá Íslandi. Góðu fréttirnar eru þær að staðan er miklu betri í dag. Þarna var ekki lýst yfir hungursneyð og það tókst að bjarga afar mörgum börnum. Nú ríður á að veita neyðarhjálp í Suður-Súdan hratt og örugglega og samstarfsfólk okkar úti er vakið og sofið yfir þeirri miklu ábyrgð,“ segir Bergsteinn.

Til að styðja neyðaraðgerðir UNICEF: Gerast heimsforeldri, senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr) eða leggja inn á neyðarreikning UNICEF á Íslandi, 701-26-102050, kt 481203-2950.

Ég vil gefa mánaðarlega

Þitt framlag

Eða

Önnur upphæð