05. október 2021

Neyðarákall UNICEF og WFP: Hungur og kuldi blasir við milljónum barna í Afganistan í vetur

Áætlað er að helmingur afganskra barna undir fimm ára aldri muni glíma við bráðavannæringu á næstu vikum og mánuðum. Yfirmenn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) í Afganistan segja skelfingarástand ríkja í næringarmálum barna og staða fæðuöryggis sé verulega slæm um allt land.

7. október 2021 Áætlað er að helmingur afganskra barna undir fimm ára aldri muni glíma við bráðavannæringu á næstu vikum og mánuðum. Yfirmenn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) í Afganistan segja skelfingarástand ríkja í næringarmálum barna og staða fæðuöryggis sé verulega slæm um allt land.

Hervé Ludovic De Lys, yfirmaður UNICEF í Afganistan, og Mary-Ellen McGroarty, yfirmaður WFP í Afganistan, luku tveggja daga heimsókn sinni til Herat í dag með því að senda út sameiginlegt neyðarákall til heimsbyggðarinnar vegna stöðu mála þar í landi.

14 milljónir íbúa Afganistan standa nú frammi fyrir alvarlegu fæðuóöryggi og vita ekki hvaðan þeirra næsta máltíð kemur. Áætlað er að 3,2 milljónir barna undir fimm ára aldri muni glíma við bráðavannæringu á þessu ári. Að minnsta kosti ein milljón þessara barna verður í bráðri lífshættu án nauðsynlegrar meðhöndlunar.

Selja allt sem þau eiga fyrir mat

De Lys og McGroarty ræddu í heimsókn sinni m.a. við Jahan Bibi sem á 18 mánaða gamla dóttur sem nú liggur inni á sjúkrahúsinu í Herat að fá meðferð við alvarlegri bráðavannæringu. Hún kom með dóttur sína á sjúkrahúsið því hún gat ekki lengur haft hana á brjósti.

„Við eigum engan mat heima. Við erum að selja allt sem við eigum til að kaupa mat, en samt á ég ekkert að borða. Ég er veikburða og framleiði ekki neina mjólk fyrir barnið mitt,“ segir Jahan Bibi.

Veturinn nálgast nú óðfluga í Afganistan en hann getur orðið verulega kaldur og harður á þessum slóðum. Hjálparstofnanir eru því í kapphlaupi við tímann til að aðstoða afganskar fjölskyldur.

„Fjölskyldum sem eiga ekki til hnífs og skeiðar fjölgar hratt og heilsu barna og mæðra hrakar,“ segir De Lys. „Börn eru að veikjast og fjölskyldur geta ekki sótt nauðsynlega meðferð. Faraldur mislinga og niðurgangs vegna óhreins vatns mun aðeins auka á þessa neyð.“

95% heimila fá ekki nóg að borða

Samkvæmt könnun WFP, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, eru 95 prósent heimila í Afganistan ekki að fá nóg að borða, fullorðnir eru að borða minna og sleppa máltíðum svo börn þeirra geti fengið meira.

„Við höfum gríðarmiklar áhyggjur af þessum fórnum sem fjölskyldur neyðast til að færa,“ segir McGroarty hjá WFP. „Ef við gerum ekki meira núna mun vannæring aðeins verða stærra vandamál og alvarlegra. Alþjóðasamfélagið verður að láta af hendi fjármagnið sem okkur var lofað fyrir nokkrum vikum. Ef ekki, gætu áhrifin orðið óafturkallanleg.“

McGroarty og De Lys heimsóttu einnig matvæladreifingarmiðstöð í miðborg Herat þar sem þau hittu fjölskyldur sem ná ekki endum saman vegna þurrka og atvinnuleysis. Þau heimsóttu einnig búðir fólks sem neyðst hefur til að flýja heimili sín vegna átaka, þar sem færanleg heilbrigðis- og næringarteymi veita þeim lífsnauðsynlega þjónustu, þökk sé UNICEF og WFP.

Starf UNICEF og WFP líflína fyrir hungraðar fjölskyldur

Þessar tvær stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru nú að bæta við hundrað svona færanlegum heilbrigðis- og næringarteymum í landinu en þau voru fyrir 168 talsins. Teymin eru líflína fyrir mæður og börn á svæðum sem erfitt er að ná til. Með teymunum kemur grunnþjónustan til þeirra.

Frá ársbyrjun 2021 hefur WFP veitt 8,7 milljónum manna matar- og næringaraðstoð, þar af 400 þúsund verðandi mæðrum og konum með barn á brjósti og 790 þúsund börnum undir fimm ára aldri.

Hægt var að veita fjórum milljónum manna aðstoð í september síðastliðnum.Það sem af er þessu ári höfðu 210 þúsund börn með alvarlega bráðavannæringu fengið meðferð í gegnum þjónustu á vegum UNICEF.

Næringarríkt jarðhnetumauk fyrir 42 þúsund börn og næringarmjólk fyrir 5.200 börn hefur einnig borist síðustu átta vikur í gegnum samstarfsaðila UNICEF. En hvort tveggja gerir kraftaverk í meðhöndlun vannæringar hjá börnum.

Til þessara ótrúlega mikilvægu verkefna fer stuðningur þinn. Þú getur lagt starfi UNICEF lið í þágu vannærðra barna í Afganistan í vetur. Þinn stuðningur skiptir máli.

UNICEF á Íslandi hefur staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börnin í Afganistan undanfarnar vikur. Þú getur lagt þitt af mörkum hér.

  • Sendu SMS-ið BARN í númerið 1900 (1.900 kr) og hjálpaðu börnum í Afganistan.
  • Þú getur lagt inn framlag að eigin vali ýmist með kortagreiðslu hér á síðunni eða með millifærslu:
  • Reikningsnúmer söfnunar er:
  • 701-26-102030 og kennitala: 481203-2950.
  • Þú getur einnig styrkt söfnunin með AUR í númerið:
  • 123 789 6262.


Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn