Skortur á örvun og snertingu, mengun, ofbeldi, léleg næring og áreiti frá snjallsímum og samfélagsmiðlum í lífi foreldra geta allt haft neikvæð áhrif á þroska heila barna á mikilvægustu dögum lífs þeirra – fyrstu 1000 dögunum. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, bendir á að reynsla barns á fyrstu æviárunum og tengslamyndun ungbarna og foreldra hefur varanleg árif á líkama þess og heilastarfsemi, ýmist til góðs eða ills.
UNICEF á Íslandi hefur tekið höndum saman með Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við útgáfu á veggspjaldi með ráðum um þroska og umönnun barna. Útgáfan er hluti af alþjóðlegu átaki UNICEF, #EarlyMomentsMatter.
„Mikilvægasta líffæri ungbarna er heilinn. Hvernig heilinn er örvaður á fyrstu dögum og mánuðum í lífi barns hefur mikið að segja. Að fara á mis við jákvæða reynslu og upplifun á þessum tíma getur verið óafturkræfanlegt,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Það er mikið áhyggjuefni að heilar hundruð milljóna barna um allan heim verða fyrir alvarlegum skaða vegna lélegrar næringar, vegna ofbeldis og mengunar og vegna skorts á örvun,“ bætir hann við.
Að skapa aðstæður fyrir heilbrigðan þroska á heila barns frá fyrstu augnablikum í lífi þess er eitt mikilvægasta verkefni samfélaga um allan heim, líka á Íslandi. Mæðra- og ungbarnavernd á Íslandi er með þeirri bestu í heimi og hjúkrunarfræðingar hér á landi hafa í mörg ár skimað fyrir andlegri vanlíðan hjá konum eftir fæðingu. Nú er einnig skimað fyrir kvíða og þunglyndi á meðgöngu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ekki má þó gleyma hversu veigamiklu hlutverki tengsl milli barns og aðstandenda eftir fæðingu gegna til að skapa heilsteyptan einstakling.
Aukið áreiti frá snjalltækjum og samfélagsmiðlum getur haft áhrif á þann tíma sem foreldrar sinna barni sínu. „Við könnumst flest við það að snjallsímar fangi athygli okkar en ef foreldrar eru sífellt annars hugar gefast færri tækifæri til samskipta við barnið sem getur valdið því óöryggi og haft áhrif á þroska þess,“ segir Sólrún Ósk Lárusdóttir, sálfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hún segir að nýbakaðir foreldrar leiti talsvert til heilsugæslunnar vegna kvíða og þunglyndis sem getur valdið áhugaleysi og sinnuleysi gagnvart barni og þannig haft áhrif á tengslamyndun. „Þar er heilsugæslan í kjöraðstöðu til að grípa snemma inn í,“ segir Sólrún, en heilsugæslan býður uppá viðtöl við ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og heimilislækna. Einnig eru í boði námskeið til að stuðla að bættri líðan.
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, bendir á að umönnun barna og tengsl við foreldra fyrstu árin hafi mikla þýðingu fyrir geðheilbrigði því í gegnum náin og góð tengsl við umönnunaraðila læra börn að treysta og elska, finna að þau eru mikilvæg og að þau búi við öryggi. Sjálfsmynd barnsins þroskast í takt við hvernig umhverfi barnsins bregst við því og vitsmunaþroski eflist við jákvæða örvun, samskipti og leik.
„Við vitum hvað þetta er mikilvægt og viljum sjá aukna áherslu á fyrstu ár barsins í allri samfélagsskipan. Embætti landlæknis hefur verið í samstarfi við heilsugæsluna um að koma aðgengilegu fræðlsuefni á sameiginlegt vefsvæði okkar, heilsuvera.is, og fannst einboðið að ráðast í samstarf við UNICEF um að koma þessum mikilvægu skilaboðum áfram á framfæri við foreldra og samfélagið allt,“ segir Sigrún.
Veggspjöldin, sem verður dreift á allar heilsugæslustöðvar á landinu og víðar, gefa einföld ráð til foreldra um umönnun barna, allt frá fyrstu vikunni í lífi þess til tveggja ára og eldri. Þetta eru ekki ráð sem kosta peninga heldur felast þau í samveru, leikjum, snertingu og samskiptum. Að tala við barn, syngja, knúsa og leika hljómar hversdagslega en það þjónar allt mikilvægu hlutverki við að þroska og styrkja taugatengingar í heila barnsins.
Jákvæð örvun og samskipti skipta sköpum fyrir velferð barna og hafa áhrif á námsfærni, andlegan þroska, samskiptafærni, mál og minni. Að vekja athygli á mikilvægi tengslamyndunar þegar kemur að umönnun barna er því mikilvæg fjárfesting fyrir framtíðina og samfélagið allt.
Fræðsluefni um fyrstu árin og tengsl foreldra og ungbarna má finna á Heilsuvera.is
#EarlyMomentsMatter fræðsluefni og myndbönd um þroska og örvun ungbarna frá UNICEF má finna hér.