26. júní 2019

Framlög Íslands til baráttu UNICEF aldrei verið meiri

Framlög íslenska ríkisins, almennings og fyrirtækja á Íslandi til baráttu UNICEF fyrir börn hafa aldrei verið meiri en árið 2018. Vöxtur UNICEF á Íslandi milli ára var 10,2% og aukning framlaga frá íslenska ríkinu á milli 2017 og 2018 hefur sjaldan verið meiri eða tæp 160%. Árið 2018 gaf Ísland, ríki og landsnefnd, næst hæstu framlögin til UNICEF alþjóðlega, sé miðað við höfðatölu, í öðru sæti á eftir Noregi. Þetta var meðal þess sem kom fram á ársfundi UNICEF á Íslandi sem var haldinn í Safnahúsinu á Hverfisgötu í morgun.

Framlög íslenska ríkisins, almennings og fyrirtækja á Íslandi til baráttu UNICEF fyrir börn hafa aldrei verið meiri en árið 2018. Vöxtur UNICEF á Íslandi milli ára var 10,2% og aukning framlaga frá íslenska ríkinu á milli 2017 og 2018 hefur sjaldan verið meiri eða tæp 160%. Árið 2018 gaf Ísland, ríki og landsnefnd, næst hæstu framlögin til UNICEF alþjóðlega, sé miðað við höfðatölu, í öðru sæti á eftir Noregi. Þetta var meðal þess sem kom fram á ársfundi UNICEF á Íslandi sem var haldinn í Safnahúsinu á Hverfisgötu í morgun.

„Þetta er alveg frábær árangur og við erum almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum innilega þakklát fyrir þennan mikilvæga stuðning. Það er auðvitað mjög gleðilegt að sjá þessi auknu framlög frá ríkinu til baráttu UNICEF alþjóðlega, sérstaklega þegar við berum okkur saman við þjóðir sem gefa mun hærri prósentu af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála en Ísland. Þessi aukning gerir UNICEF kleift að ná til enn fleiri barna um allan heim,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Á fundinum í dag kynnti Bergsteinn helstu niðurstöður ársins 2018. Þar bar einna hæst að söfnunarfé UNICEF á Íslandi var rúmar 730 milljónir króna árið 2018, sem er 10,2% vöxtur milli ára. Alls kom 81% af söfnunarfé frá heimsforeldrum, mánaðarlegum stuðningsaðilum sem styðja baráttu UNICEF um allan heim. Auk þess studdi almenningur dyggilega við börn í Jemen á árinu, en rétt tæplega 30 milljónir söfnuðust fyrir neyðarhjálp UNICEF í Jemen. Metsala var síðan á sölum Sannra gjafa fyrir jólin, en landsmenn keyptu hjálpargögn á borð við bóluefni, teppi, hlý föt og vatnsdælur fyrir rúmlega 30 milljónir króna á árinu.

Bergsteinn fór einnig yfir mikinn vöxt innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi á síðasta ári. Í upphafi árs gaf UNICEF út skýrsluna Vernduð í raun? sem fjallaði um stöðu barna sem leita eftir alþjóðlegri vernd á Norðurlöndunum. Á árinu undirritaði Kópavogsbær samstarfssamning við UNICEF um þá stefnu bæjarins að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag. Auk þess fengu fleiri nýjir skólar viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF, en verkefnið felst í að þátttökuskólar leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi.

Ótal margt fleira gerði árið 2018 að metári íslensku landsnefndarinnar og má lesa allt um það í nýrri ársskýrslu UNICEF á Íslandi sem má nálgast hér.

Á aðalfundi UNICEF á Íslandi, sem haldinn var fyrir ársfundinn, tók Kjartan Örn Ólafsson við sem nýr stjórnarformaður, en Kjartan hefur setið í stjórn UNICEF á Íslandi frá 2016. Hann tók við formennsku af Ernu Kristínu Blöndal sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2018. Erna Kristín, sem gegnir nú stöðu skrifstofustjóra barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu, mun áfram sitja í stjórn.

Nýja stjórn UNICEF á Íslandi sem tók við í dag skipa: Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður, Guðrún Hálfdánardóttir, varaformaður, Erna Kristín Blöndal, Guðrún Nordal, Svafa Grönfeldt, Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir og Jökull Ingi Þorvaldsson, fulltrúar ungmennaráðs, Sigríður Thorlacius og Styrmir Gunnarsson.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn